"UNDAFARIN fjögur til fimm ár höfum við fengið mjög góða aukningu á nyt og þetta er allt í rétta átt," segir Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, en meðalafurðir hjá íslenskum kúm voru meiri á nýliðnu ári en nokkru sinni fyrr...

"UNDAFARIN fjögur til fimm ár höfum við fengið mjög góða aukningu á nyt og þetta er allt í rétta átt," segir Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, en meðalafurðir hjá íslenskum kúm voru meiri á nýliðnu ári en nokkru sinni fyrr eða tæplega 60 kg meiri á kú en árið 2002, samkvæmt niðurstöðum úr skýrsluhaldi nautgriparæktarfélaganna.

"Það hefur verið afar góð þróun í meðalnytinni síðustu ár," segir Þórólfur, en meðalafurðir voru 5.063 kg af mjólk eftir kúna í fyrra. Efnasamsetning mjólkurinnar er nánast sú sama og árið áður, en heldur hefur dregið úr kjarnfóðurnotkun í framleiðslunni frá árinu 2002, samkvæmt frétt á vef Bændasamtaka Íslands.

Samkvæmt skýrslunni er afurðaþróun breytileg eftir héruðum. Afurðaaukning er talsverð bæði á Suðurlandi, Vesturlandi og í Eyjafirði. Hins vegar eru afurðir nokkru lægri en árið áður hjá kúm á Vestfjörðum í Vestur-Húnavatnssýslu og í Suður-Þingeyjarsýslu.

Þórólfur segir að héraðamunur hafi verið breytilegur eftir árum og tiltölulega lítið þurfi að gerast, sérstaklega á litlum svæðum, til að breyta myndinni á einu ári, en þessar breytingar gefi ekki tilefni til mikilla ályktana.