eftir T.G. Nordahl, Nýtt kyn, Kaupmannahöfn. 2003 - 106 bls.

ORÐ eru skáldum allt og þess vegna kemur ekki á óvart að besta ljóð Tryggva G. Nordahl í nýrri ljóðabók hans, sem hann nefnir Stafir og steinhljóð, skuli vera um orð. Þetta kvæði er rökleg heild. Í því eru vangaveltur um eðli og einkenni orða sem hann líkir einkum við mannfólkið sjálft og niðurstaðan kannski fólgin í upphafsorðunum: ,,Heimurinn er fullur af orðum / í ýmsum hlutverkum." Ljóðið er þó annars býsna ólíkt flestu því sem skáldið yrkir því að hér er á ferðinni leitandi skáld í meira lagi. Það reynir fyrir sér með máltilraunum, óvæntum hugsanatengslum, tvíræðni og margræðni orða og þvæluljóðlist (nonsense poetry) og vafasamt er að lesendur með skynsemisgleraugu fái mikið út úr skáldskapnum. Í öllum þeim ljóðum er þó glíman við orðin meginverkefni skáldsins.

Kvæðið Reykjavík er dæmi um orðaleik sem jaðrar við þvæluljóðlist:

Hundar í Reykjavík

postuli í Pragh

einn og hálfur maður

reykjandi tað

Kashmír í húsbát

í Delhi bað

kóngur í Katmandu

og eilífðin kvað.

Nokkuð er einnig um ljóð sem einkennast af súrrealískum hendingum sem sækja föng til táknsæis jafnt og hugarflugs. Erfitt er oft að henda reiður á merkingunni í þeim ljóðum sem þannig eru. Í ljóðinu Einnar nætur myrkur er þó greinilega um ástarkveðju að ræða þótt sú kveðja kunni sumum að þykja sérkennileg. Einna helst finnst mér það kvæði og sum önnur kallast á við þau sérkennilegu smákvæði sem finna má í Kvæðakveri Halldórs Laxness.

Þú ert mín fæða

mitt sakramenti

mín örlagabraut

frá æsku til elli.

Þú ert miðnætursól

fyrir teflonhúð

fyrir reikandi stjörnu

geilsandi braut

Þú ert dómkirkja

með perluhlið

altari miðskips

hérumbil.

Í þitt lókal læðist

á drottins degi

vegalaus maður

leystur úr leyni.

Margt annað er skemmtilegt í ljóðum Tryggva. Sérkennileg tvíræðni í tvenns konar merkingu er að finna í sumum kvæðanna, ljóð uppfull af ástarbríma með biblíulegu orðfæri, nútímaljóð með orðfæri séra Hallgríms Péturssonar sem kallast jafnframt dálítið á við meistara Megas og svo mætti lengi telja. Öll þessi tvíræðni gerir það að verkum að grunur vaknar um kaldhæðni þó að slíkt sé höfundinum jafnvel fjarri í kvæðunum.

Í heild er bók Tryggva eins og tilraunaverkstæði og þó að skáldskapurinn höfði varla til allra og virki stundum eiginlega út í hött er eitthvað við hann sem bendir til að höfundi sé ekki alls varnað. Ímyndunaraflið er í það minnsta í lagi.

Skafti Þ. Halldórsson

Höf.: Skafti Þ. Halldórsson