STAFFAN "Faxi" Olsson leikur sinn síðasta landsleik fyrir Svía um helgina, Magnus Wislander hættir í sumar og markverðirnir Tomas Svensson og Peter Gentzel hugleiða að leggja landsliðsskóna á hilluna.

STAFFAN "Faxi" Olsson leikur sinn síðasta landsleik fyrir Svía um helgina, Magnus Wislander hættir í sumar og markverðirnir Tomas Svensson og Peter Gentzel hugleiða að leggja landsliðsskóna á hilluna. Þessar staðreyndir blasa við eftir hrun sænska handboltarisans á tveimur síðustu stórmótum, HM í Portúgal í fyrra og á EM sem nú stendur yfir í Slóveníu.

Staffan, sem verður fertugur í mars, tilkynnti ákvörðun sína eftir ósigurinn fyrir Dönum í fyrrakvöld en þessi litríki leikmaður, sem tryggði Svíum Evrópumeistaratitilinn fyrir tveimur árum, hefur verið stoð og stytta í sænska landsliðinu undanfarin 20 ár og leikirnir sem hann hefur tekið þátt í fyrir þjóð sína eru orðnir 355. Jafnaldri Staffans, Magnus Wislander, sem á að baki 381 landsleik og hefur eins og Staffan reynst Svíum ómetanlegur í glæstri handboltasögu þeirra, vill ekki kveðja liðið alveg strax. Hann ætlar að gefa kost á sér í leikina í undankeppni HM í sumar og skilja við félaga sína með farseðil til Túnis í höndunum þar sem HM veður haldið 2005. Markverðirnir Tomas Svensson og Peter Gentzel, sem báðir verða 36 ára gamlir á árinu og hafa um árabil verið taldir í hópi bestu markvarða heims, eru í sömu hugleiðingum og Wislander. Þeir segjast reiðubúnir að gefa kost á sér í leikina í undankeppni HM en eftir þá segja þeir daga sína líklega talda með landsliðinu.