BENGT Johansson, landsliðsþjálfari Svía í handknattleik, lætur af störfum eftir 16 ára starf eftir tvo vináttuleiki við Dani í lok mars. Þetta varð ljóst eftir tap Svía gegn Dönum á Evrópumótinu í fyrrakvöld.

BENGT Johansson, landsliðsþjálfari Svía í handknattleik, lætur af störfum eftir 16 ára starf eftir tvo vináttuleiki við Dani í lok mars. Þetta varð ljóst eftir tap Svía gegn Dönum á Evrópumótinu í fyrrakvöld. Hugsanlegt er þó að Bengt stýri Svíum í leikjunum tveimur í undankeppni HM sem fram fara í lok maí og byrjun júní en sænska handknattleikssambandið hefur hafið leitina að eftirmanni Johanssons. Ósigurinn fyrir Dönum gerði ólympíudraum þeirra bláu og gulu að engu en í Aþenu ætlaði Johansson að kveðja og ljúka farsælum ferli sínum með ólympíugulli, eina gullinu sem hann vantar í glæsilegt verðlaunasafn sitt.

Endalokin á ferli "Bengans" eru ekki þau sem hann óskaði sér en 13. sæti á HM í Portúgal í fyrra og sú niðurstaða að Svíar leika ekki um verðlaunasæti á EM í Slóveníu þýðir að sænska handboltastórveldið er fallið af efsta tindi og fyrirséð að miklar breytingar verða á liðinu enda margir leikmenn komnir til ára sinna.

Frá því Bengt tók við landsliðsþjálfarastarfinu 1988, eftir ÓL í Seoul - þar sem hann sat á skallabekk með sænska liðinu, hefur uppskeran hjá Svíum verið eftirfarandi:

HM-gull: 1990, 1999.

HM-silfur: 1997, 2001.

HM-brons: 1993, 1995.

EM-gull: 1994, 1998, 2000, 2002.

ÓL-silfur: 1992, 1996, 2000.