DANSKA knattspyrnufélagið AaB frá Álaborg hefur sýnt áhuga á að fá íslenska landsliðsmanninn Brynjar Björn Gunnarsson frá Nottingham Forest í sínar raðir.

DANSKA knattspyrnufélagið AaB frá Álaborg hefur sýnt áhuga á að fá íslenska landsliðsmanninn Brynjar Björn Gunnarsson frá Nottingham Forest í sínar raðir. Forráðamenn AaB eru að velta fyrir sér ýmsum möguleikum og staðfestu við Extrabladet að þeir hefðu fylgst með Brynjari. Þjálfari AaB er Erik Hamrén, sem stýrði sænska liðinu Örgryte árið 1999 þegar Brynjar Björn lék með því við mjög góðan orðstír. Örgryte seldi hann þá í árslok til Stoke City fyrir 70 milljónir íslenskra króna. Brynjar lék með Stoke þar til síðasta vor en þá hætti hann hjá félaginu og gerði eins árs samning við Nottingham Forest.

"Við vitum af Brynjari og Erik Hamrén þekkir hann frá fyrri tíð í Örgryte. Við vitum hins vegar ekki enn hvort við þurfum frekar að styrkja okkur með miðjumanni eða sóknarmanni," sagði Lynge Jacobsen, framkvæmdastjóri AaB, við Extrabladet í gær.

AaB siglir lygnan sjó í dönsku úrvalsdeildinni, er í fimmta sæti þegar 20 umferðum er lokið af 33. Brynjar Björn er hins vegar í miklum fallslag með Forest sem hefur ekki unnið leik í margar vikur og er komið í þriðja neðsta sæti ensku 1. deildarinnar. Hann hefur lítið fengið að spila í vetur, hefur aðeins átta sinnum verið í byrjunarliði í 27 deildaleikjum og komið fjórum sinnum inn á sem varamaður.