Þór Steinarsson, alþjóðasamskiptastjóri Lions, Hörður Sigurjónsson, fjölumdæmisstjóri Lions, Magnús Steingrímsson, fyrrverandi umdæmisstjóri.
Þór Steinarsson, alþjóðasamskiptastjóri Lions, Hörður Sigurjónsson, fjölumdæmisstjóri Lions, Magnús Steingrímsson, fyrrverandi umdæmisstjóri.
Í NOKKUR ár hafa samtök Lionsklúbba á Norðurlöndunum unnið að því að endurbyggja endurhæfingarmiðstöð í Silas rétt utan við Vilnius, höfuðborg Litháens. Þar er sinnt einstaklingum sem hafa hlotið heilablæðingu eða lamast í slysum.

Í NOKKUR ár hafa samtök Lionsklúbba á Norðurlöndunum unnið að því að endurbyggja endurhæfingarmiðstöð í Silas rétt utan við Vilnius, höfuðborg Litháens. Þar er sinnt einstaklingum sem hafa hlotið heilablæðingu eða lamast í slysum.

Út frá þessu verkefni hófst á haustmánuðum 2000 með aðstoð Lionsfélaga í Vilnius Capital Lions Club samstarf milli íslensku Lionshreyfingarinnar og Vilnius Social Security Centre sem er miðstöð fyrir margvíslega félagsþjónustu í Vilnius.

Síðan þá hafa íslenskir Lionsfélagar sent 8 gáma hlaðna margvíslegum búnaði til Vilnius Social Security Centre sem hefur annast dreifingu þessara hjálpargagna. Meðal annars hafa verið send 143 sjúkrarúm, 37 rúmbotnar, 76 borð við sjúkrarúm, 220 hjólastólar og 2 rafmagnshjólastólar og mikið magn af varahlutum í hjólastóla, 246 pör af hækjum, 342 göngugrindur, 8 baðlyftur, mikið magn af sáraumbúðum og öðrum rekstrarvörum fyrir sjúkrahús. Ógrynni af nýjum ónotuðum fatnaði m.a. flíspeysur, buxur, jakkar, pils, skór o.fl. Erfitt er að verðleggja alla þessa hluti en varlegt mat gæti verið nálægt 50 milljónum króna.

Lionsfélagar um land allt hafa safnað þessum hjálpargögnum saman víða um land. Víða er verið að endurnýja búnað á sjúkrahúsum og dvalarheimilum með búnaði sem auðveldar starfsfólki að sinna sínum störfum. Hluti þess búnaðar er oft enn vel nothæfur og hluti hans kemur nú að góðum notum á sjúkrahúsum og elliheimilum í Vilnius.

Lionsfélagar hafa einnig notið velvildar margra fyrirtækja eins og Austurbakka, A. Karlssonar, Eirbergs, NTC og 66°N, sem hafa gefið hreyfingunni margvíslegan ónotaðan búnað og ógrynni af ónotuðum fatnaði á undanförnum árum sem allt hefur verið sent til Vilnius og dreift á meðal þeirra sem minnst mega sín þar.

Þá hefur Eimskipafélag Íslands lagt málefninu lið með góðri fyrirgreiðslu í sambandi við flutning á hjálpargögnunum frá Íslandi til Vilnius. Starfsfólk Eimskips með Braga Ragnarsson í fararbroddi hefur greitt götu þessa verkefnis.

Fjölmargir Lionsklúbbar hafa komið að verkefninu og er erfitt að tilgreina einn fremur öðrum í því sambandi en félagar í Lkl. Vála hafa annast hleðslu allra gámanna og einnig yfirfarið alla hjólastóla og öll sjúkrarúm til að tryggja að allt væri nothæft. Eins hafa mjög margir klúbbar lagt fram fjármagn til að greiða þann flutningskostnað til Vilnius sem fellur á Lionshreyfinguna, segir í fréttatilkynningu.