Æfing: Rúmlega tuttugu manns af fjórum þjóðernum tóku þátt í stórri brunaæfingu við Kárahnjúka.
Æfing: Rúmlega tuttugu manns af fjórum þjóðernum tóku þátt í stórri brunaæfingu við Kárahnjúka.
Fyrsta stóra brunaæfingin var haldin í aðalbúðum Kárahnjúkavirkjunar nýverið. Fulltrúar frá Brunamálastofnun, þeir Guðmundur Bergsson og Bernhard Jóhannesson, ásamt slökkviliðsstjóra Brunavarna á Héraði, Baldri Pálsyni, stjórnuðu á vettvangi.

Fyrsta stóra brunaæfingin var haldin í aðalbúðum Kárahnjúkavirkjunar nýverið. Fulltrúar frá Brunamálastofnun, þeir Guðmundur Bergsson og Bernhard Jóhannesson, ásamt slökkviliðsstjóra Brunavarna á Héraði, Baldri Pálsyni, stjórnuðu á vettvangi. Tíu Íslendingar, níu Ítalir, tveir Rúmenar og einn Spánverji tóku þátt í æfingunni.

Bernhard Jóhannesson segir æfinguna þannig upp byggða að fyrst hafi verið farið á sal og haldinn þar fyrirlestur, sem til sé hjá Brunamálastofnun og ætlaður húsvörðum. "Næst var Leonardo-verkefnið kynnt, þ.e. kennsla um eðli elds, yfirtendrun og reyksprengingu," segir Bernhard.

"Útskýrð var notkun reykköfunartækja, farið yfir uppbyggingu þeirra og hvernig þau eru notuð, Einnig var kennd aðferð við að bera meðvitundarlausan mann.

Kafað í eimyrjuna

Næsti hluti æfingarinnar átti sér stað í vistarverum sem samanstanda af forstofu, tólf herbergjum og hreinlætisaðstöðu. Skálinn var reykfylltur og fóru tveir reykkafarar saman í fullum búnaði til reykköfunar og leituðu að týndum manni í skálanum og báru hann út. Var þeim leiðbeint um hvernig skal klæða sig og bera að við reykköfun. Markmiðið var að allir sem þátt tóku í æfingunni gætu komið sér í galla, sett á sig reykköfunartæki og leitað í byggingu að týndum manni og borið hann út. Slökkvibíll var á staðnum og voru allir látnir gangsetja dælu og sprauta."

Bernhard segir að allir sem þátt tóku í brunaæfingunni hafi gert það sem fyrir var lagt með sóma.