[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmavík | Margir Hólmvíkingar höfðu ærna ástæðu til að fagna bóndadegi og var það vel við hæfi að þann dag voru tekin í notkun nýuppgerð hesthús í eigu sveitarfélagsins.

Hólmavík | Margir Hólmvíkingar höfðu ærna ástæðu til að fagna bóndadegi og var það vel við hæfi að þann dag voru tekin í notkun nýuppgerð hesthús í eigu sveitarfélagsins. Af því tilefni var opið hesthús þar sem almenningi gafst kostur á að skoða aðstöðuna og gæða sér á kaffi og kleinum. Um er að ræða 16 til 17 bása hesthús sem er hluti af stórum útihúsum á jörðinni Víðidalsá skammt sunnan Hólmavíkur.

Húsið var keypt á uppboði í haust og var þegar hafist handa við endurbætur þess af áhugasömum aðilum. Húsið var alfarið innréttað upp á nýtt, loftið einangrað, málað, smíðaðir vandaðir básar og komið upp brynningarkerfi.

Útlit er fyrir að allir básar verði í útleigu þegar í vetur og virðist sem áhugi á hestamennsku hafi aukist með tilkomu þessarar góðu aðstöðu. Jörðin Víðidalsá er í eigu Hólmavíkurhrepps.