Mun færri konur en karlar tóku þátt í umræðuþáttum í sjónvarpi og útvarpi fyrir seinustu þingkosningar. Ný rannsókn sýnir að hlutur kvenna í umræðuþáttum í sjónvarpi var 24%.

Verulegur munur var á þátttöku karla og kvenna í umræðuþáttum í ljósvakamiðlum í aðdraganda alþingiskosninganna sl. vor. Þannig voru konur aðeins 24% þeirra sem tóku þátt í umræðuþáttum í sjónvarpi á móti 76% körlum. Þessar niðurstöður koma fram í nýrri rannsókn Þorgerðar Þorvaldsdóttur, kynja- og sagnfræðings í Reykjavíkurakademíunni sem unnin var fyrir Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum. Þorgerður kynnir niðurstöður sínar í dag á málþinginu Viðhorf til jafnréttismála í Háskóla Íslands sem haldið er á vegum RIKK í samstarfi við nefnd um efnahagsleg völd kvenna, félagsmálaráðuneytið og jafnréttisstofu.

Gagnasöfnun við rannsóknina stóð frá 15. mars til 10. maí 2003 en þann dag var kosið til Alþingis. Dagblöðin þrjú, Morgunblaðið, DV og Fréttablaðið voru lesin og greind út frá sjónarhorni kynja- og jafnréttisfræða. Öllum fréttum, umræðu og auglýsingum sem beint eða óbeint tengdust jafnrétti í víðasta skilningi og/eða hlutverki og stöðu kynjanna í samfélaginu, var safnað til frekari greiningar. Jafnframt var sjónum beint að völdum þáttum á ljósvakamiðlunum. Valdir voru umræðuþættir í útvarpi og sjónvarpi þar sem tekist er á um pólitík og dægurmál líðandi stundar. Þættirnir voru: Í vikulokin á Rás 1, Silfur Egils á Skjá einum og Sunnudagskaffi með Kristjáni Þorvaldssyni, á Rás 2. Einnig voru daglegu umræðuþættirnir Kastljósið á Ríkissjónvarpinu og Ísland í dag á Stöð 2 rýndir í tvær vikur samtals.

Ein meginniðurstaða rannsóknarinnar hvað kynjahlutföll í ljósvakamiðlunum varðar er sú að hluturkvenna í sjónvarpi hefur versnað ef borið er saman við niðurstöður úr skýrslu sem nefnd um konur og fjölmiðla sendi frá sér í febrúar árið 2001. Þar kom m.a. fram að konur birtust aðeins í um 30% af útsendu sjónvarpsefni.

Þorgerður segir að þrátt fyrir að skýrslan frá 2001 hafi vakið mikla athygli og hreyft við mörgum virðist íslenskir ljósvakamiðlar frekar hafa stigið skref aftur á bak. "Sú rannsókn sem hér er kynnt leiddi í ljós að konur voru í miklum minnihluta þeirra sem skrifuðu í dagblöð og þær voru aðeins 24% þeirra sem tóku þátt í þeim sjónvarpsumræðuþáttum sem skoðaðir voru," segir hún, en þar birtust 43 konur og 133 karlar.

Hærra hlutfall í útvarpi

Rannsókn Þorgerðar leiddi í ljós að verulegur munur var á þátttöku karla og kvenna í þeim umræðuþáttum sem skoðaðir voru. Samtals birtust 176 einstaklingar í spjallþáttunum, Silfri Egils, Kastljósi og Íslandi í dag á því tímabili sem lagt var undir í rannsókninni, þar af voru 133 karlar og 43 konur. Kynjahlutfall var því 76% karlar á móti 24% konur.

"Hér er átt við fjölda birtinga, ekki fjölda einstaklinga, því talsvert var um það að sami einstaklingurinn kæmi oftar en einu sinni fram í hverjum þætti og/eða kæmi fram á fleiri en einni sjónvarpsstöð. Hlutfall kvenna í umræðuþáttum í útvarpi var talsvert betra eða 61/39%," segir í skýrslunni. Þorgerður bendir á að hausatalning af þessu tagi segi að sjálfsögðu ekki alla sögunna. Í rannsókninni sé því kafað á bak við tölurnar og umræðan greind.

"Af 18 nýjum þingmönnum eru hins vegar 15 karlmenn en aðeins 3 konur, þannig að í hópi nýliðanna fór hlutfall kvenna niður í 16%. Í því sambandi er sérstaklega athyglisvert að velta fyrir sér hlutverki og áhrifamætti fjölmiðla í nútímasamfélaginu. Segja má að spjallþættir í útvarpi og sjónvarpi gegni nú svipuðu hlutverki og kosningafundir gerðu áður. Því hlýtur aðgengi að slíkum miðlum að skipta sköpum fyrir það fólk sem reynir að hasla sér völl í stjórnmálum í fyrsta skipti, svo það nái að kynna sig og málefni sín fyrir almenningi," segir í skýrslu Þorgerðar um niðurstöður rannsókna hennar, sem hún mun gera ítarlegar grein fyrir í erindi sínu á málþinginu í Háskóla Íslands í dag.

Þar mun hún m.a. fjalla um hvaða jafnréttismál urðu kosningamál og rýna í auglýsingar og skrif í blöðum fyrir kosningarnar.

Málþingið um viðhorf til jafnréttismála fer fram í Hátíðarsal HÍ og hefst kl. 13.15. Þar munu m.a. auk Þorgerðar flytja erindi Árni Magnússon, félags- og jafnréttisráðherra, Þorgerður Einarsdóttir, lektor í kynjafræði, og Hildur Jónsdóttir, jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar. Þá munu Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, og stúdentarnir Andrea Ósk Jónsdóttir og Þórunn Hafstað kynna umfangsmikla viðhorfskönnun um jafnréttismál. Að lokum fara fram pallborðsumræður undir stjórn Kristínar Ástgeirsdóttur.