KEFLVÍKINGAR standa í dag og á morgun fyrir afar áhugaverðu framtaki í samvinnu við flugfélagið Iceland Express - halda alþjóðlegt knattspyrnumót í Egilshöll og Reykjaneshöllinni með þátttöku Íslandsmeistara KR, bikarmeistara ÍA, Keflavíkur og sænska...

KEFLVÍKINGAR standa í dag og á morgun fyrir afar áhugaverðu framtaki í samvinnu við flugfélagið Iceland Express - halda alþjóðlegt knattspyrnumót í Egilshöll og Reykjaneshöllinni með þátttöku Íslandsmeistara KR, bikarmeistara ÍA, Keflavíkur og sænska úrvalsdeildarliðsins Örgryte. Með Örgryte leika tveir Íslendingar, Atli Sveinn Þórarinsson, sem verið hefur hjá liðinu undanfarin ár, og Jóhann Birnir Guðmundsson, fyrrverandi leikmaður Keflavíkurliðsins, sem gekk í raðir liðsins í síðustu viku frá Lyn.

Jón Pétur Róbertsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Keflavíkur, hefur haft veg og vanda af því að koma mótinu á laggirnar, en hann starfaði sem unglingaþjálfari hjá Örgryte um nokkurra ára skeið.

"Það tók mig ekki langan tíma að fá forráðamenn Örgryte til að samþykkja að koma hingað og taka þátt í mótinu. Þeim þykir mikill heiður að því að vera með í þessu fyrsta alþjóðlega knattspyrnumóti hér á landi og þá hefur lengi dreymt um að koma til Íslands. Þeir hafa alltaf hugsað hlýtt til Íslands enda hafa margir íslenskir leikmenn verið í þeirra herbúðum í gegnum árin," sagði Jón Pétur þegar hann kynnti mótið á blaðamannafundi í vikunni. Ásamt Iceland Express eru Radisson SAS og Iceland Excursions bakhjarlar Keflvíkinga í mótshaldinu, sem Jón Pétur telur að kosti á bilinu 2-3 milljónir króna.

Jóhann Birnir mætti á blaðamannafundinn sem fulltrúi Örgryte en hann skrifaði á dögunum undir samning við Gautaborgarliðið og bætist þar með í hóp íslenskra leikmanna sem leikið hafa með liðinu frá því Eyjamaðurinn Örn Óskarsson reið á vaðið. Fyrir utan Örn hafa Sigurður Björgvinsson, Rúnar Kristinsson og Brynjar Björn Gunnarsson leikið með Örgryte og í dag eru Atli Sveinn og Jóhann samningsbundnir liðinu.

Jón Birnir segist mjög spenntur að spila með sínu nýja liði og hann segir félaga sína hjá Örgryte hlakka mikið til að skoða sig um á Íslandi fyrir utan þess að kljást við íslensku liðin.

"Mér líst mjög vel á þetta framtak hjá Keflavík og það verður gaman að sjá hvernig íslensku liðunum gengur gegn okkur. Mótið er liður í undirbúningi okkar fyrir tímabilið og fyrir mig er það mjög mikilvægt enda er ég nýkominn til liðsins og þarf að sýna mig og sanna sem fyrst. Eftir mótið æfum við í Gautaborg í þrjár vikur en höldum svo til Brasilíu þar sem við verðum í æfingabúðum í þrjár vikur," sagði Jóhann B. við Morgunblaðið.

Mótið hefst í Egilshöllinni í kvöld klukkan 18 með leik Keflvíkinga og Skagamanna og strax á eftir spila KR og Örgyte. Tapliðin leika um 3.-4. sætið í Reykjaneshöllinni klukkan 16 á morgun og sigurliðin til úrslita klukkan 18.15 á sama stað.

Keflvíkingar í samvinnu við Iceland Express stefna að því að halda árlega alþjóðlegt mót á þessum árstíma og á næsta ári er ætlunin að mótið verði stærra og erlendu liðin fleiri en eitt.