Antonio Reyes fagnar marki, sem hann skoraði fyrir Sevilla gegn Athletico Madrid.
Antonio Reyes fagnar marki, sem hann skoraði fyrir Sevilla gegn Athletico Madrid.
ÞAÐ vakti óneitanlega mikla athygli þegar Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sem þótti ekki líklegur til að kaupa nýjan leikmann þessa dagana, snaraði peningabuddunni á borðið á þriðjudaginn og ákvað að kaupa Spánverjann Jose Antonio Reyes, 20...

ÞAÐ vakti óneitanlega mikla athygli þegar Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sem þótti ekki líklegur til að kaupa nýjan leikmann þessa dagana, snaraði peningabuddunni á borðið á þriðjudaginn og ákvað að kaupa Spánverjann Jose Antonio Reyes, 20 ára, frá Sevilla. Það eru ekki margir utan Spánar sem þekkja vel til leikmannsins sem er sagður efnilegasti leikmaður Spánar síðan Raúl, fyrirliði Real Madrid, kom fram í sviðsljósið á árum áður. Sevilla var búið að hafa kauptilboðum frá Barcelona, Valencia og Real Madrid, en síðan var ákveðið að taka tilboði Arsenal.

Reyes er annar ungur og stórefnilegur Spánverji sem kemur til Arsenal á stuttum tíma. Francesc Fabregas kom frá Barcelona í október og hefur hann þegar sett tvö met hjá Lundúnaliðinu - er yngsti leikmaðurinn sem hefur leikið með Arsenal - var 16 ára og 177 daga gamall er hann lék með gegn Rotherham í deildabikarkeppninni og síðan varð hann yngsti leikmaður Arsenal til að skora - 16 ára og 212 daga gamall er hann skoraði í deildabikarleik gegn Úlfunum, 5:1. Hann er miðvallarleikmaður og var útnefndur leikmaður heimsmeistarakeppni 18 ára landsliða og var markahæsti maður keppninnar með sex mörk.

Arsene Wenger, sem er þekktur að því að þefa uppi unga leikmenn víðs vegar um heim, hefur fylgst með Reyes síðan hann lék sinn fyrsta deildaleik gegn Barcelona - aðeins 17 ára. Wenger keypti aðeins einn leikmann fyrir þetta keppnistímabil - þýska markvörðinn Jens Lehman á aðeins 1,5 millj. sterlingspunda frá Dortmund sl. sumar og stjórn Arsenal var búin að gefa honum leyfi til að kaupa leikmenn fyrir 10 millj. punda nú í janúar - áður en leikmannamarkaðurinn lokaðist aftur 1. febrúar.

Kaupverð Reyes getur farið upp í 20 millj. sterlingspunda, þegar upp verður staðið. Arsenal greiðir Sevilla nú um níu millj. punda og síðan verður gert upp við Sevilla eftir leikjafjölda Reyes og árangri - á næstu tveimur árum. 20 millj. sterlingspunda fyrir leikmann er mikið í herbúðum Arsenal sem hefur ekki verið þekkt fyrir að kaupa rándýra leikmenn eins og Chelsea og Manchester United.

Þar sem Arsenal er að byggja nýjan keppnisvöll hefur Wenger þurft að halda að sér höndum í leikmannakaupum og með dreifingu á greiðslum til Sevilla auðveldar það Arsenal kaupin og um leið er það ljóst að dýrir leikmenn verða ekki keyptir til Arsenal næstu árin.

Fljótur, leikinn og fjölhæfur

Reyes er sagður mesta efni Spánverja síðan Raúl kom fram og er hann þegar kominn í landsliðshóp Spánverja og verður í sviðsljósinu á Evrópumóti landsliða í Portúgal í sumar. Hann byrjaði keppnisferil sinn hjá Sevilla sem vinstri útherji, en það kom fljótlega í ljós að hann var geysilega fjölhæfur - gat einnig leikið í stöðu hægri útherja, miðherja og á miðjunni. Reyes er fljótur, leikinn og með mikla skottækni.

Menn sjá hann sem arftaka Hollendingsins Dennis Bergkamp á Highbury. Koma hans til Arsenal mun þó ekki verða til þess að Bergkamp verði ýtt til hliðar.

Wenger hefur sagt að Reyes geti leikið allar stöður í sóknarleik liðsins, eins og hinn 19 ára David Bentley, sem var líkt við Bergkamp eftir að hann stal senunni á Highbury sl. laugardag er hann skoraði stórglæsilegt mark gegn Middlesbrough, 4:1.

Reyes var heldur betur í sviðsljósinu í síðustu viðureign Sevilla og Real Madrid í Sevilla. Hann fór þá á kostum þegar heimamenn skoruðu fjórum sinnum í fyrri hálfleik gegn Real - lék Luis Figo og Francisco Pavon, sem átti að hafa gætur á honum, grátt.

Það er greinilegt að Arsene Wenger hefur veðjað á Reyes - að hann sé maðurinn sem falli vel inn í hreyfanlegan sóknarleik liðsins. "Við viljum hafa leikmenn okkar fljóta, leikna og baráttuglaða. Reyes, sem er aðeins 20 ára og þegar orðinn landsliðsmaður Spánar, hefur þetta allt.

Stuðningsmenn Arsenal bíða nú spenntir eftir að fá að sjá Reyes, Thierry Henry og Robert Pires fara á ferðina.

Miklar líkur eru á því að Reyes leiki með Arsenal gegn Manchester City á Highbury í úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Menn hafa velt því fyrir sér hvort hann þurfi að taka út eins leiks leikbann á Englandi, sem hann var úrskurðaður í á Spáni. Fram til þessa hafa leikmenn farið með leikbönn á milli landa. Wenger sló á létta strengi og sagði að það væri greinilegt að Reyes félli inn í munstrið hjá Arsenal - hann er keyptur til liðsins í leikbanni. Ef Reyes þarf að taka út leikbann gegn Man. City, þá leikur hann sinn fyrsta leik á þriðjudaginn - seinni undanúrslitaleikinn gegn Middlesbrough í deildabikarkeppninni.

Með sólina með sér til Highbury?

Spánski blaðamaðurinn Santiago Fuertiago hjá blaðinu El Pais hefur fylgst með Reyes síðan hann hóf að leika með Sevilla. Hann fullyrðir að hinir tryggu stuðningsmenn Arsenal verði ekki fyrir vonbrigðum með strák og segir: "Hann er mjög fljótur og leikinn með knöttinn. Þá er hann mjög hugmyndaríkur og hefur ríka sköpunargáfu. Aðdáendur Arsenal myndu best kynnast honum ef ég segði að hann léki með reisn Dennis Bergkamp og hraða Marc Overmars. Arsenal hefur fengið gimstein frá Spáni. Reyes getur leikið allar stöður í sókn.

Það er aðeins spurningin hvernig Reyes nær að aðlaga sig staðháttum í Englandi, hörðum vetri, en honum er trúandi til að koma með sólina frá Spáni inn á Highbury. Hann fær örugglega mikla aðstoð frá Lauren, sem þekkir til Reyes. Lauren leikur fyrir Kamerún, en hann er fæddur í Sevilla á Spáni, ekki langt frá bænum sem Reyes fæddist í."

Ivan Helguera, varnarmaðurinn sterki hjá Real Madrid, segir að Reyes sé betri leikmaður en t.d. Michael Owen - sé leikmaður sem hafi yfir miklum hæfileikum að ráða. "Hraði hans með knöttinn gerir öllum varnarmönnum lífið leitt. Hann hefur allt sem góður knattspyrnumaður þarf að bera."

Það er öllum ljóst að að kaup Wenger á Reyes er einn hlutur í púsluspili hans í að byggja upp mjög sterkan og sókndjarfan leikmannahóp hjá Arsenal sem er skipaður mörgum af bestu leikmönnum heims - ásamt mörgum ungum og stórefnilegum leikmönnum.