Fatahönnuðirnir: Vala Torfadóttir og Björg Ingadóttir.
Fatahönnuðirnir: Vala Torfadóttir og Björg Ingadóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hróður þeirra Völu Torfadóttur og Bjargar Ingadóttur, eigenda og hönnuða Spaksmannsspjara í Bankastræti, hefur borist til Asíu, en fötin þeirra voru sýnd á tískusýningu í Bangkok á liðnu hausti.

Hróður þeirra Völu Torfadóttur og Bjargar Ingadóttur, eigenda og hönnuða Spaksmannsspjara í Bankastræti, hefur borist til Asíu, en fötin þeirra voru sýnd á tískusýningu í Bangkok á liðnu hausti. Greint var frá samkomunni í dagblaðinu Bangkok Post, þar sem hönnuðirnir frá Íslandi fengu jákvæða umfjöllun, en kallaðar voru til þrjár af kjörnum fegurðardrottningum Taílands til þess að sýna íslensku hönnunina. Eitt þekktasta kristalsfyrirtæki heims, Swarovski Crystal Gallery, með höfuðstöðvar sínar og ævintýraveröld rétt fyrir utan Innsbruck í Austurríki, átti frumkvæði að því að senda hönnun Völu og Bjargar á tískusýningu til Bangkok. "Forsaga málsins er sú að fulltrúar frá Swarovski komu til Íslands til þess að kynna sér íslenska listamenn og hönnuði, með það að markmiði að setja upp sýningu í galleríinu sínu með íslensku þema. Fötin okkar urðu meðal annarra hluta fyrir valinu á sýninguna sem stóð nánast allt síðasta ár. Swarovski-fyrirtækið keypti af okkur vetrarlínuna 2002-2003 auk sumarlínunnar 2003, alklæðnað á einar tíu gínur. Forráðamenn Swarovski ákváðu síðan að kynna Taílendingum fyrirtækið sitt og ferðaþjónustu í Austurríki og úr varð að þeir notuðu vetrarlínuna okkar í þeim tilgangi eftir að sumarlínan var komin upp í austurríska galleríinu.

Kristal frá Swarovski hafa þær Vala og Björg m.a. notað við hönnun sína. "Fyrirtækið vildi sýna hvernig nota má kristal-steina þess í tískuflórunni, en segja má að flestallir hönnuðir noti steina frá Swarovski að einhverju marki, m.a. í föt, skart og veski.

Töff kakílína

Vala og Björg hafa ekki sjálfar reynt að kynna hönnun sína í útlöndum eftir að þær drógu í land með útflutning, sem hafinn var fyrir nokkrum árum til Lundúna, Norðurlandanna og Þýskalands. "Við drógum okkur þá til baka, einfaldlega vegna þess að við höfðum ekki það fjármagn sem til þurfti til að standa í þessu," segir Vala. Spurð um sumarlínuna í Spaksmannsspjörum, segist Vala lítið vilja gefa upp að svo stöddu þar sem þeim stöllum finnist ansi margir farnir að stæla hugmyndir. "En auðvitað erum við, eins og aðrir, farnar að hugsa fyrir hækkandi sól. Við erum til dæmis komnar með svakalega töff kakílínu í svarbláu og ljósu, samfestinga, smekkbuxur og jakka, sem eru út í vorið og sumarið."

join@mbl.is

Höf.: join@mbl.is