NÚ fær kristið fólk loksins stað til að striplast á því fyrsta kristilega nektarnýlendan verður opnuð á Flórída í apríl. Í nýlendunni verða 500 heimili, hótel, vatnsrennibrautagarður og kirkja.

NÚ fær kristið fólk loksins stað til að striplast á því fyrsta kristilega nektarnýlendan verður opnuð á Flórída í apríl. Í nýlendunni verða 500 heimili, hótel, vatnsrennibrautagarður og kirkja. Þrátt fyrir að það sé skylda að vera alltaf nakinn mega íbúarnir klæðast fötum í messu ef þeir vilja, að sögn Bill Martin, eins stofnanda nýlendunnar. Hann segir að í Biblíunni sé víða talað um nekt og söguleg fordæmi séu fyrir því að kristnir striplist t.d. hafi Guð skipað Jesaja að dvelja nakinn í óbyggðum í þrjú ár. "Kristnir bókstafstrúarmenn og Suðurríkja-babtistar verða ef til vill ósáttir við okkur, en ég er sko til í að hitta þá hvenær sem er og ræða við þá um nekt."

Áhrifarík súpa

Dómstóll í Palm Beach á Flórída hefur hafnað kröfu manns sem krafðist 3,8 milljóna króna bóta vegna óþæginda sem hann sagðist hafa orðið fyrir eftir að hafa fengið ranga súpu á veitingastað árið 1995. Maðurinn, Donald Johnson, kvaðst hafa þurft að leita sér læknishjálpar vegna ofnæmisviðbragða eftir að hann borðaði skelfisksúpu í stað kartöflusúpunnar sem hann pantaði. Segist hann hafa haft svefntruflanir og átt við sálræn vandamál að stríða síðan hann át súpuna.

Sígarettuverk- smiðjan dulbúin

Kínverska lögreglan varð heldur betur undrandi á dögunum er hún fann sígarettuverksmiðju sem var dulbúin sem fangelsi. Á skilti sem var við bygginguna stóð að þetta væri fangelsi og þeir sem færu þangað inn fengju ekki að fara aftur út. Þar var líka ritað nafn fangelsis sem er raunverulega til en er annars staðar í héraðinu. Inni fór hins vegar fram stórfelld framleiðsla á sviknum sígarettum sem seldar voru undir merkjum þekktra framleiðenda.

Brenndist á rassi í farsímasprengingu

Malasískur maður brenndist á rasskinnunum þegar farsíminn hans sprakk á meðan hann svaf, á þriðjudag. Mohamed Radzuan Yasin var að hlaða símann sinn, lagði hann á rúmið sitt og fékk sér blund. Um þremur tímum síðar vaknaði hann við lítinn sprengihvell. "Ég brenndist á rasskinnunum í sprengingunni og brunamerki voru á dýnunni og veggjunum. Ég vissi í fyrstu ekki hvað hafði sprungið en svo sá ég símann minn í tætlum." Radzuan sem er rafvirki í Kuala Lumpur hafði keypt nýja rafhlöðu í símann viku áður.

Vilja úfinn Saddam

Andlitsgrímur með Saddam Hussein skeggjuðum og úfnum, eins og hann leit út eftir að hann var dreginn upp úr holunni í desember, rokseljast í Ríó de Janero þessa dagana þar sem verið er að undirbúa hina árlegu kjötkveðjuhátíð. "Ræfilslegur Saddam er dýrasta gríman því það þarf mikið hár á hana," segir Armando Valles sem á grímugerðarverksmiðju í Ríó. Þeir sem vilja spara verða að láta sér lynda grímur þar sem einræðisherrann er virðulegri, og meira í ætt við myndir frá forsetatíð hans. Osama bin Laden er einnig vinsæll en þetta árið seljast grímur með þeim kumpánum mun betur en hefðbundnar varúlfa-, djöfla- og King Kong-grímur, að sögn Valles.