SKÚLI Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins (SGS), reiknar með að fljótlega eftir helgina verði staðan í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins farin að skýrast. Ágætlega hafi miðað í viðræðunum að undanförnu.

SKÚLI Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins (SGS), reiknar með að fljótlega eftir helgina verði staðan í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins farin að skýrast. Ágætlega hafi miðað í viðræðunum að undanförnu.

Starfsgreinasambandið hefur lagt áherslu á að gerð verði ný launatafla, auk þess sem samið verði um almennar launahækkanir. Skúli sagði að vinna við launatöfluna væri langt komin.

SGS hefur einnig lagt mikla áherslu á að búin verði til ein launatafla og einn kjarasamningur við ríkið fyrir starfsmenn sem starfa á ríkisstofnunum. "Það er verið að bera saman laun okkar fólks og laun fólks í sambærilegum störfum hjá ríkinu. Menn eru að reyna að átta sig á hversu mikill launamunurinn er til þess að hægt sé að fara í þessa leiðréttingu. Það má segja að þessar viðræður við Samtök atvinnulífsins, sem hafa staðið frá áramótun, hafi gengið vel. Þeim hefur líka miðað í rétta átt gagnvart ríkinu eftir að samninganefnd ríkisins tók loksins við sér, en okkur þótti nokkuð skorta á það framan af," sagði Skúli.

Hann sagði að það væri hins vegar mikil vinna sem fara þyrfti í gegn um sem tengdist einstökum sviðum SGS, s.s. matvælasviði, iðnaðarsviði og veitinga- og gistihúsaþjónustunni. Um væri að ræða mörg tæknileg atriði, en þessi vinna hefði öll gengið ágætlega. Það væri að vísu ekki samkomulag um alla hluti, en menn væru búnir að leysa mörg atriði.

Lítið hefur gerst í lífeyrismálum bæði gagnvart SA og ríkinu, en Starfsgreinasambandið hefur lagt þunga áherslu á kröfur sínar í lífeyrismálum. Fyrir liggja yfirlýsingar forystumanna launþegahreyfingarinnar um að samningar við ríkið verði ekki kláraðir fyrr en búið er að jafna lífeyrisréttindi félagsmanna ASÍ við rétt annarra starfsmanna ríkisins.

"Við höfum lagt mikla áherslu á að kaupmátturinn aukist og það verði áfram efnahagslegur stöðugleiki. Og við viljum fá hlutdeild í hagvextinum. Það er síðan spurning hvernig okkur tekst að lenda málunum þannig að þessi markmið náist," sagði Skúli.

Aðalsteinn Baldursson, formaður matvælasviðs SGS, sagði líkt að staðan væri að skýrast. SGS legði mikla áherslu á hækkun lægstu launa, starfsmenntamál og lífeyrismál. Enn hefði lítið þokast í lífeyrismálum.