Margrét Jónsdóttir: Það nægir ekki að kunna viðskiptaorðaforða heldur verða nemendur að hafa heildarsýn yfir menningarsamfélagið sem þeir eiga í samskiptum við.
Margrét Jónsdóttir: Það nægir ekki að kunna viðskiptaorðaforða heldur verða nemendur að hafa heildarsýn yfir menningarsamfélagið sem þeir eiga í samskiptum við.
Næsta haust hefst í Háskólanum í Reykjavík tungumálatengt viðskiptanám sem dr. Margrét Jónsdóttir hefur umsjón með. Hún segir að menningarlæsi sé lykilatriði til að ná árangri í viðskiptum á alþjóðavettvangi.

Flestir Íslendingar telja sig tala mjög góða ensku. Slíkt sjálfsmat er þó oft fjarri því að stemma við raunverulega getu í málinu. Mikill munur er á því að geta bjargað sér í tungumáli og að tala svo vel að enginn hugsi um hvernig það hljómar, heldur geti einbeitt sér að því sem talað er um.

Í alþjóðlegu samstarfi verða tungumál sífellt mikilvægari og meiri kröfur eru gerðar um færni í þeim. Evrópusambandið leggur til að allir geti talað vel tvö erlend tungumál og almenningsálitið hefur breyst í þá veru að í dag er góð tungumálakunnátta talin sem hluti af góðri almennri menntun. Við því eru menntastofnanir að bregðast.

Tungumálatengt viðskiptanám

Alþjóðasamskipti eru eitt af leiðarljósum Háskólans í Reykjavík, en til að árangur náist á því sviði er tungumálaþekking nauðsynleg. Haustið 2004 hefst í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík tungumálatengt viðskiptanám sem dr. Margrét Jónsdóttir, sérfræðingur við HR, hefur umsjón með.

Alls verða þrjátíu nemendur teknir inn í spænsku og þrjátíu í ensku. Þannig geta stúdentar sem velja tungumálatengt viðskiptanám sérhæft sig í ensku eða spænsku og bætt þar með 30 einingum við námið. Tungumálasérhæfingin þarf þó ekki nauðsynlega að lengja námið, því nemendur geta valið á milli þess að leggja hart að sér í námi og ljúka 120 eininga námi á 3 árum eða taka námið á eðlilegum námshraða og ljúka á 4 árum.

Samkeppnishæfari á vinnumarkaði

Margrét kallar þessa tungumálaþjálfun virðisauka við venjulegt viðskiptafræðinám sem gerir nemendur samkeppnishæfari á atvinnumarkaði. Námið er hugsað þannig að nemendur taka eitt þriggja eininga tungumálanámskeið á misseri ofan á almennt viðskiptafræðinám en þar sem geymsluþol tungumálakunnáttu er lítið er mikilvægt að vera í stöðugri þjálfun.

Til að ná 30 einingum í tungumáli dvelja nemendur erlendis eitt eða tvö sumur og ljúka þar 12 einingum í námskeiðum. Þeir nemendur sem velja að dvelja erlendis tvö sumur verða einnig í starfsþjálfun hjá fyrirtækjum og sameina því viðskiptafræðinám og tungumálanám. Sem gæðastimpill á námið taka nemendur alþjóðleg próf sem bera tungumálakunnáttu þeirra vitni. Í spænsku ljúka nemendur námi með því að taka ýmist diploma superior eða básico og í ensku taka nemendur Certificate of Advanced English eða Certificate of Proficiency in English. Slíkt er í samræmi við auknar kröfur um að námsgráður séu gagnsæjar. Hægt verður að sækja um námið strax í febrúar á heimasíðu skólans: www.ru.is og lesa nánar um það á heimasíðu spænskunnar.

Menningarlæsi lykilatriði

Margrét segir að menningarlæsi sé lykilatriði til að ná árangri í viðskiptum á alþjóðavettvangi. Hún segir að það sé ekki nóg að vera góður í tungumálum heldur þurfi nemendur að hafa yfirsýn yfir menningu þeirra landa sem þeir sérhæfa sig í. Það sé markmiðið með náminu í HR.

Alþjóðlegu prófin eru það sem koma skal og nú þegar er farið að krefja þá sem sækja um vinnu erlendis um að sýna fram á alþjóðlegan árangur í tungumálanámi enda oft ekki ljóst af prófskírteinum hver raunveruleg geta fólks er. Ekki er því nóg fyrir nemendur að kunna viðskiptaorðaforða heldur verða þeir að hafa heildarsýn yfir það menningarsamfélag sem þeir eiga í samskiptum við. Sá sem þekkir inn á framandi menningu á auðvelt með að ná árangri í alþjóðaviðskiptum.

Margrét nefnir tvær alþjóðlegar ráðstefnur um tungumálakennslu á háskólastigi sem haldnar voru á liðnu ári. Sú fyrri nefndist: "The Role of Languages in the European Educational Area" og var í Árósum á vegum Evrópusambandsins. Síðari ráðstefnan nefndist: "Språkudbildning i Norden" og var í Lundi, en Norræna ráðherranefndin stóð fyrir henni.

Í samhengi við annað nám

"Á báðum ráðstefnunum kom fram að framtíð tungumálakennslu á háskólastigi er björtust þar sem hún er fléttuð saman við annað nám eins og viðskiptafræði og lögfræði," segir Margrét og einnig að háskólar þurfi að bregðast við því að kennsla í tungumálum í framhaldsskólum hefur minnkað og því meiri þörf á henni á háskólastigi en áður. Eins sannar reynsla erlendra háskóla að allt nám í tungumálum verður að vera metið til eininga.

Tungumálakennslan við Háskólann í Reykjavík verður fléttuð inn í viðskiptafræðinámið og er lesefni í beinu samhengi við áhugasvið nemenda. Þannig verður námið heildstætt og markmiðssækið. Hugmyndafræðin í tungumálanáminu er sú að það er ekki slitið úr samhengi við annað akademískt nám og haldið er utan um það innan deildarinnar. Námið er hagnýtt sem merkir að það tilheyrir sömu veröld og viðskiptanámið. Einnig eru allir fjórir þættir námsins þjálfaðir: Að lesa, hlusta, skrifa og tala.

Við hönnun námsins var litið til þess sem best á að gerast í viðskiptaháskólum erlendis. Námið einkennist af tvennu: "Námið er mælanlegt því alþjóðlegu prófin votta um getu nemenda í spænsku og viðskiptaspænsku. Námið er markmiðssækið því nemendur færa sig stöðugt upp um getustig," segir Margrét og "árangurinn er því ekki tilviljanakenndur heldur úthugsaður."

guhe@mbl.is