Að lokinni vel heppnaðri aðgerð: Birkir Agnarsson formaður, fremstur, á fundi með félögum sínum eftir björgun skipverjanna af Sigurvin GK.
Að lokinni vel heppnaðri aðgerð: Birkir Agnarsson formaður, fremstur, á fundi með félögum sínum eftir björgun skipverjanna af Sigurvin GK.
Grindavík | Félagar í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík hafa bjargað 232 sjómönnum úr sjávarháska frá því sveitin var stofnuð fyrir 74 árum.

Grindavík | Félagar í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík hafa bjargað 232 sjómönnum úr sjávarháska frá því sveitin var stofnuð fyrir 74 árum. Meirihlutanum hefur verið bjargað á land með fluglínutækjum en seinni árin hafa björgunarbátar sveitarinnar haft mikið og vaxandi hlutverk við björgunarstörfin.

Slysavarnadeildin Þorbjörn var stofnuð 1930 og síðar björgunarsveit með sama nafni. Eftir að harðsnúið lið úr björgunarsveitinni bjargaði tveimur sjómönnum af Sigurvin GK úr sjónum í innsiglingunni til Grindavíkurhafnar síðastliðinn föstudag fór Birkir Agnarsson formaður yfir upplýsingar um fjölda sjómanna sem bjargað hefur verið. Birkir segir að grindvískum björgunarmönnum hafi auðnast sú mikla gæfa að bjarga 232 sjómönnum á þessum tíma í 22 björgunaraðgerðum. Á sama tíma hafa 47 sjómenn farist í fimm af þessum slysum, þar af 27 þegar enskt olíuskip strandaði við Reykjanestá. Ekki hafa aðrar björgunarsveitir hér á landi komið að björgun jafnmargra. Tekið er fram í samantekt formannsins að fleiri sjóslys hafi orðið við Grindavík á þessum tíma en sjómönnunum verið bjargað af öðrum, bjargast af sjálfsdáðum eða farist.

Aukið hlutverk björgunarbáta

Fyrsta björgunin var 24. mars 1931 þegar franski togarinn Cap Fagnet strandaði við bæinn Hraun, austan Grindavíkur. Allri áhöfninni, 38 mönnum, var bjargað með fluglínutækjum. Var það í fyrsta skipti sem þannig tæki voru notuð við björgun mannslífa hér á landi. Fluglínutækin hafa verið notuð í fjórtán af þeim björgunaraðgerðum sem fram koma í samantekt Þorbjarnar og orðið 205 sjómönnum til bjargar.

Dregið hefur úr skipstöpum við Grindavík á seinni árum, meðal annars vegna betri hafnarskilyrða og betri tækja um borð í skipunum. Hlutverk björgunarsveitarinnar hefur á sama tíma breyst, að sögn Birkis. Ekki hefur verið sama þörf fyrir björgun með fluglínutækjum, þau hafa ekki verið notuð síðan árið 1989. Nú er björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar fljót á staðinn. Formaðurinn telur að fluglínutækin séu síður en svo úrelt björgunartæki og segir að notkun þeirra sé æfð reglulega.

Björgunarsveitin hefur komið sér upp öðrum björgunartækjum. Hún var ein af fjórum sveitum sem fyrstar hófu notkun á harðbotna slöngubátum árið 1985. Hún hefur nú yfir að ráða tveimur slíkum bátum, misstórum, og björgunarskipinu Oddi V. Gíslasyni. Björgunarskipið hefur einmitt verið notað við flestar björgunaraðgerðir frá árinu 1991 og minni slöngubáturinn, Hjalti Freyr, gerði einmitt gæfumuninn við björgun skipverjanna af Sigurvin. Birkir segir að betri búningar, fjarskiptatæki og annar tækjabúnaður auki einnig á öryggi björgunarmanna og geri þeim mögulegt að ganga lengra við störf sín.

Hann bætir því við að betri útkallsbúnaður - sveitin er kölluð út með sms-boðum í farsíma - geri þeim kleift að bregðast við fyrr en áður. Í neyðartilvikum hafi tekist að komast af stað á björgunarbátnum fimm mínútum eftir að sveitin var kölluð út. Þótt stærri björgunaraðgerðum hafi fækkað á seinni árum hefur björgunarskip sveitarinnar haft nóg að gera. Oddur V. Gíslason er kallaður út 50 til 60 sinnum á ári til að aðstoða skip, yfirleitt án þess að bráð hætta sé á ferðum. Birkir segir að neyðarútköllin komi gjarnan í bylgjum. Lítið sé um að vera í marga mánuði eða nokkur ár og svo komi kannski nokkur útköll með stuttu millibili.

Björgunarsveitin Þorbjörn er skilgreind hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu sem sjó- og landbjörgunarsveit en hún hefur þó alltaf sérhæft sig í sjóbjörgunarstörfum. Aðstæðurnar í Grindavík hafa krafist þess. Hefur hún byggt sig upp til þess að geta sinnt því hlutverki sem best.

Starf í björgunarsveit er sjálfboðaliðsstarf. 35 menn og konur eru nú á útkallslista hjá Þorbirni. 25 þeirra komu að björgun skipverjanna á Sigurvin. "Menn henda því frá sér sem þeir eru að fást við þegar útkallið kemur, allir sem geta komið því við, og hlaupa í sínar stöður. Það er skýringin á viðbragðsflýti sveitarinnar."

Innan Þorbjarnar starfar unglingadeildin Hafbjörg fyrir ungmenni frá fjórtán ára aldri. Þar fá þau þjálfun og ganga svo upp í björgunarsveitina átján ára. Ungu mennirnir sem gengu svo vasklega fram við björgun skipverjanna á Sigurvin höfðu einmitt tekið þátt í starfi deildarinnar. Birkir segir gott að fá menn vel þjálfaða upp úr unglingadeildinni svo þeir geti strax gengið til björgunarstarfa.

Keyrður áfram af hugsjón

Sjálfur var Birkir sextán ára þegar hann gekk í björgunarsveitina. Þá var raunar ekki búið að stofna unglingadeild. Hann segist hafa fylgst með starfi björgunarsveitarinnar í gegn um föður sinn sem tekið hafi þátt í starfinu. Eftir að netabáturinn Hrafn Sveinbjarnarson III strandaði við Grindavík árið 1988 þurfti sveitin á kröftum fleira fólks að halda við að reyna að bjarga verðmætum og bauð Birkir sig fram ásamt nokkrum jafnöldrum sínum. Ekki tókst að bjarga neinu úr skipinu en sveitin græddi nokkra unga menn sem tóku eftir það virkan þátt í starfinu.

Birkir er húsasmiður og stýrimaður og starfar nú hjá Tilkynningarskyldu íslenskra skipa í Reykjavík og býr í Garðabæ. Hann segir það ekki há sér í starfi sem formaður björgunarsveitarinnar en segist þó fara suðureftir þegar mikið sé um að vera. Flokksstjóri er yfir sjóflokki, annar yfir landflokki og sá þriðji yfir bílum og tækjum. "Auk þess er fullt af duglegum strákum og stelpum þarna til að vinna verkin," segir hann.

Störf í björgunarsveit geta verið erfið og tekið á. Ekki tekst alltaf jafn vel til og fyrir helgina. Hvað fær menn til að leggja þetta á sig? Því svarar Birkir: "Strax og ég fór að kynnast starfi björgunarsveitarinnar sá ég hvað það getur verið spennandi. Ég held þó að hugsjónin um að geta komið öðrum til hjálpar þegar á þarf að halda hafi alltaf keyrt mig áfram. Það á við um flesta félaga mína. Það gefur okkur síðan aukakraft þegar vel gengur eins og núna."