STÓRU olíufélögin, Essó, Olís og Skeljungur, hafa frest til 13. febrúar til að gefa Samkeppnisstofnun upplýsingar og gera athugasemdir vegna kæru Atlantsolíu.

STÓRU olíufélögin, Essó, Olís og Skeljungur, hafa frest til 13. febrúar til að gefa Samkeppnisstofnun upplýsingar og gera athugasemdir vegna kæru Atlantsolíu. Fyrirtækið kærði til Samkeppnisstofnunar þá ákvörðun olíufélaganna að hafa eldsneytisverð lægra á stöðvum sínum í næsta nágrenni við stöðvar Atlantsolíu í Kópavogi og Hafnarfirði en á öðrum stöðvum félaganna.

Guðmundur Sigurðsson hjá Samkeppnisstofnun segir að fyrsta skrefið eftir að ákveðið hafi verið að taka fyrir kvörtun eða kæru sé að senda hana til þeirra sem hún beinist gegn til andmæla eða athugasemda. Eftir að ákveðið hafi verið að taka erindi Atlantsolíu frá því um miðjan janúar til meðferðar hafi verið óskað eftir tilteknum ýtarlegum upplýsingum frá umræddum olíufélögum og þau hafi frest til 13. febrúar til að skila athugasemdum sínum.