HÉRAÐSDÓMUR Suðurlands hefur sýknað deildarstjóra hjá tollgæslunni á Selfossi af ákæru fyrir skjalafals og brot í opinberu starfi.

HÉRAÐSDÓMUR Suðurlands hefur sýknað deildarstjóra hjá tollgæslunni á Selfossi af ákæru fyrir skjalafals og brot í opinberu starfi. Einnig var ákærði sýknaður af ákæru fyrir líflátshótanir í garð konu sem gert hafði athugasemdir við ákærða sem deildarstjóra tollgæslunnar, þar sem ekki sannaðist á hann sök.

Ákærði var sakaður um að hafa ranglega forskráð sjö skemmda innflutta bíla í tölvukerfi Skráningarstofunnar hf. og sett þá í gjaldflokk fyrir óskemmda svo að innflytjandi þeirra kæmist hjá greiðslu aðflutningsgjalda vegna aðvinnslu við nýskráningu þeirra. Meint brot áttu að hafa átt sér stað á árunum 1997 og 1998.

Dómurinn segir það beinlínis rangt í ákæru að ákærði hafi ranglega forskráð bílana enda höfðu tollverðir á þessum tíma ekki beinan aðgang að tölvukerfi Skráningarstofunnar. Leggja yrði til grundvallar að ákærða væri gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að tilkynna Skráningarstofu hf. um breytingu í skattflokk 70 fyrir óskemmda bíla.

Meint brot voru framin fyrir innleiðingu ákvæða í almenn hegningarlög hinn 29. apríl 1998 um refsinæmi rangfærslna og notkunar upplýsinga og gagna á tölvutæku formi. Var ákærði því sýknaður svo og m.a. með vísan til 69. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a. að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað.

Málið var dæmt á Þorláksmessu 2003 af Benedikt Bogasyni héraðsdómara.Verjandi ákærða var Guðni Haraldsson hrl. og sækjandi Hjalti Pálmason, fulltrúi ríkislögreglustjóra.