Breski rithöfundurinn John le Carré.
Breski rithöfundurinn John le Carré.
Breski rithöfundurinn John le Carré er öskureiður yfir aðgerðum Breta og Bandaríkjamanna í Írak á síðasta ári. Þessi reiði skín í gegn í nýjustu bók hans, "Absolute friends".

Fyrir tæpu ári skrifaði rithöfundurinn John le Carré grein í breska dagblaðið The Times og fór hann þar hörðum orðum um framferði Bandaríkjamanna sem þá voru að búa sig undir að ráðast á Írak. "Bandaríkin eru á ný stödd í miðju tímabili sögulegs brjálæðis, en ég man ekki eftir því jafnslæmu," sagði le Carré í grein sinni og var ekkert að skafa utan af því.

Í nýjustu skáldsögu sinni, "Absolute friends", er le Carré við sama heygarðshornið og flestir dómar um bókina hafa einmitt vakið athygli á því hversu höfundurinn er reiður, raunar öskureiður. Það má ráða af ummælum söguhetjunnar í bókinni, Teds Mundy, en hann er fyrrverandi njósnari á sextugsaldri sem man sinn fifil fegri. Sér þó ástæðu til að halda ræður yfir saklausum ferðamönnum í München í Þýskalandi um hversu framferði Bandaríkjamanna og Breta er gerræðislegt.

Slæmur félagsskapur?

Baksvið bókarinnar "Absolute friends" eru atburðir líðandi stundar, hryðjuverkastríðið sem George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur efnt til. Uppgjörið í bókinni er þessu tengt og markmið le Carrés líklega að sýna fram á að ekki sé allt sem sýnist og að varasamt sé að treysta fólki um of - allra síst valdhöfum.

Le Carré eyðir hins vegar mestum tíma í upprifjun á skrautlegri fortíð Mundys og vináttu hans og Þjóðverjans Sasha, sem Mundy kynnist á námsárum sínum í Vestur-Berlín á sjöunda áratugnum. Sasha er róttæklingur, býr í kommúnu og kennir Mundy ýmislegt um lífið og tilveruna. Mundy launar greiðann með því að bjarga lífi Sashas - en er fyrir vikið rekinn úr landi og sér vin sinn og fóstbróður ekki aftur fyrr en mörgum árum síðar.

Sasha er nú starfsmaður austur-þýsku leyniþjónustunnar en trúir ekki á málstaðinn, er sami uppreisnarmaðurinn og áður, bara undir öðrum formerkjum. Hann fær Mundy til að gerast tengiliður sinn við Breta; Mundy dregst þar með inn í njósnastarfsemi einmitt þegar kalda stríðið stendur sem hæst. Og það eina sem treysta má á er hin "algera vinátta" þeirra Mundys og Sasha.

En svo verður upplausnin mikla, Berlínarmúrinn fellur og njósnarar eins og Mundy og Sasha missa vinnuna, tilgang sinn í lífinu.

Mundy rekur áfram í lífinu þar til Sasha leitar hann uppi í München, fær hann enn á ný til að gerast virkur þátttakandi í atburðum líðandi stundar. "Trúirðu raunverulega því sem þú predikar?" spyr hann Mundy, og vísar til ræðuhalda hans um Íraksstríðið. Þar með er teningunum kastað.

Misráðin krossferð

"Markmið mitt var að segja dæmisögu, að sýna fram á hættuna sem felst í því sem við erum að gera," segir le Carré í viðtali við The New York Times 7. janúar sl. "Bandaríkin og Bretland eru í krossferð sem er fólgin í útflutningi á lýðræði og beita til þess hernaði."

"Absolute friends" er nítjánda skáldsaga le Carrés, sem heitir réttu nafni David Cornwell og er orðinn 72 ára gamall. Þekktastur er le Carré - sem eitt sinn starfaði sem njósnari fyrir hennar hátign, Elísabetu Englandsdrottningu - fyrir njósnasögur sínar úr kalda stríðinu en endalok þess markaði engan veginn lok rithöfundarferils hans. Le Carré hefur þótt takast vel upp í undanförnum bókum og hann virðist jafnvel skrifa af meiri ástríðu en áður fyrr, honum liggur meira á hjarta, er tilbúnari til að tjá sig um pólitísk málefni. Og mál málanna núna er hryðjuverkastríðið.

"Ég fór þann hring," segir hann í áðurnefndu viðtali, "sem margir Evrópumenn fóru [eftir 11. september 2001]. Fyrst fann maður fyrir gífurlegri samúð með fórnarlömbunum, með Bandaríkjunum. Við fundum harmleikinn sem þessi atburður var og áttuðum okkur á því að ekkert yrði sem fyrr."

En hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Afganistan urðu til að annars konar tilfinningar tóku að brjótast um innra með le Carré. "Ég var yfir mig hneykslaður á þeirri rangfærsluupplýsingaherferð sem var sett af stað í Bandaríkjunum, þannig að á endanum voru 7 af hverjum 10 Bandaríkjamönnum reiðubúnir til að trúa því að Saddam [Hussein] hefði haft eitthvað með árásina á tvíburaturnana að gera."

Hér var le Carré búinn að finna viðfangsefni sinnar næstu bókar; "Absolute friends". Hann yrði að taka til máls um hryðjuverkastríðið og allt sem það hefur haft í för með sér.

Rökrétt framhald

""Absolute friends" kom ekki sem þruma úr heiðskíru lofti heldur er hún rökrétt framhald af fyrri bókum mínum," segir le Carré og vísar þar til bóka eins og "The Tailor of Panama", háðsádeilu á hernaðarbrölt Bandaríkjamanna í Mið-Ameríku, og "The Constant Gardener" en hún fjallar um það arðrán sem le Carré telur að vestræn lyfjafyrirtæki hafi gerst sek um í þriðja heiminum.

"Angist mín skýrist af því að hafa verið virkur þátttakandi í kalda stríðinu og að þurfa að horfa upp á það að sagan endurtaki sig," sagði John le Carré í samtali sínu við New York Times.