Hópur listamanna Þjóðleikhússins stendur að dagskrá um listalífið á heimastjórnarárunum.
Hópur listamanna Þjóðleikhússins stendur að dagskrá um listalífið á heimastjórnarárunum.
"FYRSTI áratugur 20. aldarinnar minnir um margt á áratuginn sem nú er að líða," segir Þórhallur Sigurðsson, leikstjóri í Þjóðleikhúsinu, sem sett hefur saman dagskrána "Sólin gleymdi dagsins háttatíma".

"FYRSTI áratugur 20. aldarinnar minnir um margt á áratuginn sem nú er að líða," segir Þórhallur Sigurðsson, leikstjóri í Þjóðleikhúsinu, sem sett hefur saman dagskrána "Sólin gleymdi dagsins háttatíma". Þar fer öflugur hópur leikara höndum um listalífið á heimastjórnarárunum 1904-1918. Frumsýning er á Stóra sviðinu í kvöld kl. 20.

"Skáldin Hannes Hafstein og Einar Benediktsson ortu af slíkum innblæstri og ættjarðarást í upphafi aldarinnar að Íslendingum átti nánast ekkert að vera ómögulegt. Þegar maður áttar sig á framkvæmdagleðinni og þeim risastóru framfaraskrefum sem þjóðin tók í kjölfar heimastjórnarinnar verður þetta skiljanlegt."

Leiklistin blómstraði

Þórhallur segir að sýningin í Þjóðleikhúsinu sé dagskrá en ekki leiksýning og að skáldskapur og aðrar listir séu viðfangsefni þeirra en aðrir sinni sögunni og stjórnmálunum í tilefni 100 ára afmælis heimastjórnarinnar. "Það er þó alveg ljóst í mínum huga að ártalið 1904 í sjálfstæðissögu þjóðarinnar er stórmerkilegt og í mörgum skilningi urðu meiri breytingar á högum þjóðarinnar í kjölfar heimastjórnarinnar 1904 heldur en 1918."

Dagskráin hefst með lestri aldamótaljóða þeirra Hannesar og Einars og einnig er fluttur kafli úr leikritinu Vesturförunum eftir Matthías Jochumsson. "Ég valdi kafla úr nokkrum lykilleikritum frá þessum tíma og leikhópurinn las ógrynni af ljóðum og svo völdum við saman nokkur til að gefa mynd af tímabilinu. Það er gaman að minnast þess að Leikfélag Reykjavíkur eflist mjög á þessum árum. Á vegum þess eru 12 ný íslensk leikrit frumsýnd á árunum 1907-1918. Við lesum auðvitað úr verkum okkar stærsta leikskálds frá þessum tíma, Jóhanns Sigurjónssonar, Fjalla-Eyvindi, Galdra-Lofti og Bóndanum á Hrauni. Við lesum líka úr Syndum annarra þar sem Einar H. Kvaran tekst á við samtíma sinn. Það gerði Guðmundur Kamban líka í Höddu Pöddu sem er einnig frá þessum árum. Með verkum þessara höfunda kvað við nýjan tón í íslenskri leikritun. Við lítum líka í Skugga-Svein en Leikfélagið sýndi nýja gerð á honum árið 1908."

Ljóðin og myndlistin

"Ljóðin frá þessum árum eru fjölmörg og okkar vandi var að velja úr," segir Þórhallur. "Við mörg ljóðanna voru samin vinsæl sönglög sem við rifjum einnig upp.

Í myndlistinni var einnig mikil gerjun og fyrsta kynslóð íslenskra málara var að koma fram á sjónarsviðið. Við sýnum í bakgrunni myndir af verkum þeirra Ásgríms Jónssonar, Þórarins B. Þorlákssonar, Kjarvals og Einars Jónssonar. "

Þórhallur segir það alltaf koma sér jafnmikið á óvart hversu sterk og áleitin verk Jóhanns Sigurjónssonar eru. "Hann stóð á þröskuldi mikils frama þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á 1914 og kom í veg fyrir hugmyndir um sýningar verka hans víðar. Borgarleikhúsið sýndi Galdra-Loft á Litla sviðinu fyrir nokkrum árum og gaman væri að sjá fleiri verk hans á tilraunasviðunum í Reykjavík. Skugga-Sveinn Matthíasar á það einnig skilið að vera tekinn til nýrrar skoðunar af leikhúsfólki í dag."

Þórhallur segir að heimastjórnarárin séu ekki jafnfjarri okkur í tíma og stundum sé gefið í skyn. "Enn er fólk á lífi sem fæddist og ólst upp á þessum árum. Það er ekki lengra síðan en svo. Þar eru minningar og reynsla sem vert er að skoða og varðveita."

13 leikarar Þjóðleikhússins taka þátt í dagskránni. Anna Kristín Arngrímsdóttir, Arnar Jónsson, Baldur Trausti Hreinsson, Björgvin Franz Gíslason, Halldóra Björnsdóttir, Hjalti Rögnvaldsson, Jóhann Sigurðarson, Kristbjörg Kjeld, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Sigurður Skúlason, Sólveig Arnarsdóttir og Tinna Gunnlaugsdóttir. Jóhann G. Jóhannsson stjórnar tónlistarflutningi.

Dagskráin verður 30. janúar og 6. febrúar kl. 20 á Stóra sviðinu.