UNGIR sjálfstæðismenn í Reykjavík ætla að dæma öll frumvörp, sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja fram á Alþingi, með tilliti til þess hvort þau auki eða minnki frelsi Íslendinga.

UNGIR sjálfstæðismenn í Reykjavík ætla að dæma öll frumvörp, sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja fram á Alþingi, með tilliti til þess hvort þau auki eða minnki frelsi Íslendinga. "Ef frumvörpin viðhalda eða auka afskipti ríkisins af einstaklingum fá þingmenn mínusstig. Ef þau eru í átt að auknu frelsi fá þeir plússtig," segir Kristinn Már Ársælsson, sem er ritstjóri vefrits Heimdallar, frelsi.is, ásamt Snorra Stefánssyni.

Þingmenn eru því sjálfkrafa þátttakendur í Frelsisdeildinni og hlýtur sigurvegarinn í þinglok titilinn frelsari ársins.

Einar K. Guðfinnsson er nú efstur í Frelsisdeildinni og Pétur Blöndal í öðru sæti. Bjarni Benediktsson er í neðsta sæti með 17 refsistig. Staðan verður uppfærð aðra hverja viku að sögn Kristins og er hægt að fylgjast með sundurliðaðri stigagjöf á frelsi.is.

Allir sem flytja og skrifa undir frumvarp fá stig eftir þessum reglum en einnig er fylgst með hvernig þingmenn kjósa. Kristinn segir þetta ekki fullkomna leið til að meta frammistöðu þingmanna í baráttunni fyrir auknu frelsi en hún byggist á hlutlægum leikreglum sem tiltölulega einfalt sé að fylgja eftir. Ef dæma ætti málflutning þingmanna eftir sömu reglum myndi málið flækjast. Mikil umræða fari einnig fram utan þingsalanna sem ritstjórar frelsi.is fylgist ekki með.

Aðspurður hvort staða ráðherra flokksins sé ekki sterkari en almennra þingmanna þegar kemur að fjölda framlagðra frumvarpa segir Kristinn að þetta ætti að hvetja þingmenn til að leggja fram eigin mál um leið og öllum sé veitt aðhald.

Aðgengilegt og einfalt

"Þetta miðar að því að skoða hvað Sjálfstæðisflokkurinn er að gera og gefa heildarmynd af störfum þingmanna," segir Kristinn. "Við vildum gera þetta á aðgengilegan, einfaldan og skemmtilegan hátt. Fólk nennir ekki að fara á vefsíðu Alþingis og setja sig inn í hvert einasta frumvarp."