Ólafur Skúlason
Ólafur Skúlason
...og því fjörutíu ár frá því að þessi mesta breyting í sögu borgar og presta hennar átti sér stað.

Margar aðferðir finnast til að fylgjast með áhrifum fólksfjölgunar í höfuðborginni og afleiðingum hennar. Ein er að skoða prestafjöldann og hvernig hverfi fá smám saman sinn eigin prest. En eins og vitað er, var lengi vel ekki nema um eina sókn, þ.e. eitt prestakall að ræða, Dómkirkjuna með sína tvo presta. Hinum megin Tjarnarinnar reis síðar Fríkirkjan og var henni þjónað af einum presti. En borgin þandist út og fólki fjölgaði. Á hverjum aðalsafnaðarfundi eftir annan voru samþykktar tillögur af Dómkirkjufólki um að nauðsyn bæri til að létta á prestum kirkjunnar og efla þjónustu við íbúa borgarinnar með því að fjölga prestum. Þetta náði loks fram að ganga árið 1940 og Hallgrímssöfnuður var stofnaður og skyldi þjónað af tveimur prestum og einnig varð til Nessöfnuður fyrir þá, sem í vesturbænum bjuggu og Laugarnessöfnuður stofnaður fyrir þann fjölda sem austast hafði eignast heimili, og voru prestar skipaðir í ársbyrjun 1941 . Um svipað leyti var líka stofnað sérstakt prófastsdæmi og bar nafn borgarinnar, en fyrr hafði Dómkirkju-söfnuðurinn tilheyrt Kjalarnesprófastsdæmi og séra Friðrik Hallgrímsson varð fyrsti dómprófasturinn.

Og enn óx borgin og íbúum fjölgaði. Næst bætast við prestar og prestaköll árið 1952. Koma þá til Háteigssöfnuður, Langholtssöfnuður, Bústaðasöfnuður og tilheyrir Kópavogur honum auk smáíbúða og Bústaðahverfa, og eru prestar skipaðir. En sömu stefnu gætir áfram, bærinn nær sífellt lengra og lengra og íbúar þrá að heyra í kirkjuklukkum og líta byggingar, sem eru Guðshús og setja ekki aðeins svip á hverfin heldur veita þeim styrk sem þurfa og leiðsögn, er eftir leita.

Safnaðaráð, sem tók til starfa í hinu nýja prófastsdæmi, lagði mikla áherslu á, að nauðsyn bæri til að fjölga prestum og stofna sóknir. Biskup og kirkjuráð studdu þessar tillögur, en lengi vel án þess framkvæmdir fylgdu. Síðan er það árið 1963, að þáverandi kirkjumálaráðherra, Bjarni Benediktsson, tilkynnir biskupi, Sigurbirni Einarssyni, að ríkisstjórnin hafi samþykkt að veita fé til að launa presta og fjölga þannig í höfuðborginni. Og nú urðu þær mestu breytingar, sem borgin hafði reynt. Auglýstar voru stöður sex presta og skyldu þeir þjóna í Ássókn, sem var mynduð úr Langholtssókn og Laugarnesi, og var séra Grímur Grímsson prestur í Sauðlauksdal, kjörinn sóknarprestur, en auk hans sótti séra Jónas Gíslason, Bústaðaprestakalli var skipt í þrennt, séra Gunnar Árnason þjónaði áfram Kópavogi, en um Bústaðsókn sótti séra Ólafur Skúlason, þáverandi æskulýðsfulltrúi og

síðar dómprófstur og biskup án mótframboðs og var settur í embætti sitt að loknum kosningum 1. janúar 1964. Hinn þriðjungur hins gamla Bústaðaprestakalls hlaut nafnið Grensássókn og var séra Felix Ólafsson, fyrrum kristniboði, kjörinn, en auk hans gaf séra Ragnar Fjalar Lárusson kost á sér. Háteigssöfnuður skyldi fá annan prest í viðbót við séra Jón Þorvarðarson og var séra Arngrímur Jónsson í Odda kjörinn en auk hans sóttu þeir séra Ásgeir Ingibergsson, séra Lárus Halldórsson og séra Yngvi Þórir Árnason um prestsstarfið. Þá var einnig bætt við presti í Neskirkju til að þjóna fjölmennu prestakalli með séra Jóni Thorarensen og var cand. theol. Frank Halldórsson kjörinn, en einnig hafði séra Hjalti Guðmundsson gefið kost á sér. Þá fékk séra Árelíus Níelsson samstarfsprest, er séra Sigurður Haukur Guðjónsson, Hálsi, var kjörinn en einnig hafði séra Magnús Runólfsson sótt um embættið.

Það voru því sex prestar, sem komu til starfa í borginni árið 1964 og því fjörutíu ár frá því, að þessi mesta breyting í sögu borgar og presta hennar átti sér stað. Nú eru aðeins fjórir þeirra viðstaddir þetta afmælisminni, séra Grímur er látinn og séra Felix búsettur í Danmörku, en boð séra Jóns Dalbú Hróbjartssonar, prófasts, um að gera sér dagamun af góðu tilefni þiggja þeir séra Arngrímur Jónsson, séra Frank M. Halldórsson, séra Ólafur Skúlason og séra Sigurður Haukur Guðjónsson. Eru þrír þeirra þegar komnir yfir þau aldursmörk sem takmarka þjónustu embættismanna, og séra Frank lætur af störfum af sömu ástæðu í vor.

Sagnfræðinga og þeirra sem rýna í þáttaskil margvíslegra starfa og þjónustu, bíður að gera nánari grein fyrir því, hvað fólst í þessari miklu prestafjölgun og hverju hún skilaði. En gott er að hugsa til þess, að árin fjörutíu skipta ekki aðeins viðkomandi presta og þeirra fjölskyldur máli, heldur ekki síður þá söfnuðí sem fengu þá til þjónustu og þar með kirkjuna alla, Þjóðkirkju Íslands sem heldur merki Krists hátt á loft. En með hliðsjón af umsóknum um laus embætti á yfirstandandi tíma, hljóta glöggir að taka eftir því, að fyrir fjörutíu árum sótti ekki nein kona um embættin og sátu karlar einir að þeim. Er þar enn einn vitnisburður um breytingar og áhrif, sem nú skipta máli, en fyrr voru óþekkt að mestu.

Ólafur Skúlason fjallar um prestsþjónustu

Höfundur er biskup