Sigurjón Þórðarson
Sigurjón Þórðarson
Engir útreikningar liggja fyrir um að það sé hagstæðara að slátra í svokölluðum útflutningssláturhúsum en í minni sláturhúsum sem Guðni vill loka...

VARAÞINGMAÐUR Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttir, skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið þar sem hún rakti raunir fólks í Skaftárhreppi vegna lokunar sláturhússins á Kirkjubæjarklaustri. Það kemur mér alls ekki á óvart að lokun sláturhússins hafi komið illa niður á byggðinni, en ég varaði einmitt við þessum vondu úreldingum í blaðagrein í júní s.l., sem bar fyrirsögnina Miðstýring atvinnulífsins, sem enn má finna inni á vef okkar í Frjálslynda flokknum www.xf.is.

Guðni á sök á úreldingunni

Eygló varaþingmaður vildi kenna í grein sinni einhverri mammonsgræðgi sem léki lausum hala í þjóðfélaginu um lokun sláturhússins á Kirkjubæjarklaustri. Auðvitað er miklu nær að kenna Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra um lokun sláturhússins á Kirkjubæjarklaustri ásamt félögum hans í ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Fækkun sláturhúsa er stefna Guðna Ágústssonar sem hann hefur beitt sér af alefli fyrir í ríkisstjórn og varið á þingi.

Það er rétt sem fram kemur í grein Eyglóar, að nefnd á vegum Guðna Ágústssonar skilaði skýrslu síðastliðið vor um tillögur að breyttri tilhögun slátrunar fjár. Nefnd Guðna lagði til að 6 sláturhús störfuðu áfram en önnur yrðu úrelt og þeim lokað. Tillögurnar voru lagðar fram í nafni hagræðingar landbúnaðarins. Eflaust hefur ráðherrann lagt þessar tillögur fram í góðri trú um að það væri verið að hagræða í atvinnulífi landsmanna en óneitanlega finnst manni það sérstakt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli blessa þessa ríkishagræðingu atvinnulífsins. Á góðum degi gefur Sjálfstæðisflokkurinn sig gjarnan út fyrir að draga úr ríkisafskiptum en í samvinnu við Framóknarflokkinn dælir hann út 170 milljónum til þess að koma á ríkishagræðingu í landbúnaði.

Engir sjálfstæðir útreikningar

170 milljónir eru mikið fé og ef eðlilega hefði verið staðið að málum þá hefðu farið fram einhverjir útreikningar á gildi þess að ausa háum fjárhæðum úr ríkissjóði til þess að loka sláturhúsum. Einu útreikningarnir sem úreldingarnefnd Guðna byggði á var 2 ára gömul skýrsla verkfræðistofunnar VSÓ sem unnin var fyrir Goða hf. Þessi ágæta skýrsla VSÓ fjallar eingöngu um fyrirhugaða hagræðingu í sláturhúsum Goða hf., en Goði slátraði sauðfé í 8 sláturhúsum árið 2000. Nefndin virðist ekki hafa haft nein gögn um kostnað við slátrun hjá 4 af 6 sláturhúsum sem lagt var til að halda ættu áfram slátrun þar sem þau voru ekki inni í úttekt VSÓ. Engir útreikningar liggja fyrir um að það sé hagstæðara að slátra í svokölluðum útflutningssláturhúsum en í minni sláturhúsum sem Guðni vill loka, s.s.á Kirkjubæjarklaustri. Nei, í raun hníga öll rök í þá átt það sé mun dýrara að slátra í stærri húsunum þar sem þau þurfa að yfirstíga ýmsar kröfur sem eru lítið annað en viðskiptahindranir. Sláturhúsum, sem eingöngu framleiða á innanlandsmarkað er gert að greiða háar upphæðir til þeirra sláturhúsa sem eru í útflutningi til þess að losna undan útflutningsskyldu. Þetta hefur verið mikil blóðtaka fyrir minni sláturhúsin sem hefur leitt af sér hærra verð til íslenskra neytenda og ef til vill minni neyslu á lambakjöti

Dýravernd

Fækkun sláturhúsa hefur leitt til þess að það tekur langan tíma að flytja búfé landshorna á milli eða allt að 12 - 14 tíma og skýrslur sýna að fé sem flutt er um langan veg hefur skaðast á leið til slátrunar.

Reglur um flutning sláturfjár eru orðnar mjög gamlar eða frá 1958, og síðan voru þær endurbættar 1968. Þær eru þá 45 og 35 ára gamlar og því er löngu orðið tímabært að endurskoða þær, sérstaklega í ljósi þess að fækkun sláturhúsa hefur leitt til stóraukins flutnings sláturfjár.

Uppspuni landbúnaðarráðherra

Eygló varþingmaður hefur eftir stjórnendum SS í grein sinni að það hafi ekki verið ætlunin að hætta starfsemi í sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri fyrr en árið 2007 þegar nýjar reglur á vegum ESB taka gildi og jafnvel hafi verið rætt um að óska eftir undanþágum. Nú er það svo að reglur Evrópusambandsins ná ekki yfir sláturhús sem slátra á innanlandsmarkaði, en Ísland fékk undanþágu frá reglum um sláturhús Evrópusambandsins og er hana að finna í 1. kafla viðauka 1 EES samningsins.

Með öðrum orðum, við Íslendingar ráðum nákvæmlega í einu og öllu hvaða kröfur við gerum til sláturnar á innanlandsmarkaði og ekki hægt að kenna ESB um eitt né neitt.

Hvaðan ætli þessar hugmyndir komi um að reglur ESB séu að þrýsta á auknar kröfur til sláturhúsa? Mig grunar að þær séu komnar beint frá landbúnaðarráðherra, en hann fullyrti í svari við spurningu undirritaðs um flutning sláturfjár eftirfarandi: "Hæstvirtur forseti. Ég vil í upphafi segja að það er enginn áhugi í sjálfu sér hjá þeim sem hér stendur eða ríkisstjórn að fækka sláturhúsum. Við stöndum að vísu frammi fyrir því að Evróputilskipun um hvernig sláturhúsin skuli vera gengur hér í gildi 2008."

Ekki ætla ég þeim góða dreng Guðna Ágústssyni að hann fari vísvitandi með rangt mál um að tilskipun Evrópusambandsins taki gildi hér 2008. Líklegra þykir mér að fullyrðing Guðna sé vegna ókunnugleika og nú þegar hann hefur verið upplýstur um að reglur Evrópusambandsins um sláturhús ná ekki til Íslands, þá geti hann snúið af þessari stórsláturhúsastefnu.

Sigurjón Þórðarson skrifar um fækkun sláturhúsa

Höfundur er alþingismaður Frjálslynda flokksins.

Höf.: Sigurjón Þórðarson