Handagangur í öskjunni. Mikill erill hefur verið á Amtsbókasafninu þessa vikuna en vegna lokunar safnsins næsta mánuðinn hefur fólk verið hvatt til  að taka sem mest af bókum, myndböndum og geisladiskum að láni.
Handagangur í öskjunni. Mikill erill hefur verið á Amtsbókasafninu þessa vikuna en vegna lokunar safnsins næsta mánuðinn hefur fólk verið hvatt til að taka sem mest af bókum, myndböndum og geisladiskum að láni.
HEILMIKILL erill hefur verið á Amtsbókasafninu á Akureyri í vikunni og fólk í miklum ham að næla sér í bækur, myndbönd, geisladiska og annað efni sem í boði er á safninu.

HEILMIKILL erill hefur verið á Amtsbókasafninu á Akureyri í vikunni og fólk í miklum ham að næla sér í bækur, myndbönd, geisladiska og annað efni sem í boði er á safninu. Ástæðan er sú að vegna lokaáfanga framkvæmda við nýtt og endurbætt húsnæði Amtsbókasafnsins verður það lokað í febrúarmánuði og fyrstu vikuna í mars. Iðnaðarmenn af öllu tagi eru á þönum um safnið, enda í mörg horn að líta nú þegar stóra stundin rennur senn upp.

Starfsólk safnsins hefur ekki minna að gera nú fyrir lokun og er á þönum niður í kjallara og geymslur að sækja efni. "Hér hefur verið margt um manninn og sérstaklega síðdegis, þegar fólk er búið í vinnu," sagði Hólmfríður Andersdóttir, bókavörður á Amtsbókasafninu, en sem dæmi stóð fólk hlaðið bókum í biðröð eftir afgreiðslu síðdegis á miðvikudag og bjóst Hólmfríður við að svipað ástand yrði þar til skellt yrði í lás á laugardag, 31. janúar, kl. 15.

"Nú kemur loks í ljós hvað við erum mikilvæg," sagði hún, en mikið er um að fólk hringi í örvæntingu sinni þegar það fréttir af lokun safnsins. "Það er mikið hringt og sérstaklega virðist lokunin koma við eldra fólk og fólkið sem fær sendar bækur heim. Margir halda að við séum að loka fyrir fullt og allt en sú er aldeilis ekki raunin," sagði Hólmfríður. Viðbótarbygging við safnið verður formlega tekin í notkun 6. mars næstkomandi sem og einnig endurbætt eldra húsnæði og þá verður einnig opið hús fyrir bæjarbúa og notendur safnsins sunnudaginn 7. mars.

Engin takmörk eru á því hversu mikið efni fólk má taka nú fyrir þessa tímabundnu lokun og sagði Hólmfríður að einn gestanna hefði þannig farið heim með 35 myndbönd og hlaða af bókun. "Það er metið hingað til," sagði hún síðdegis í gær. "Hvort það verður slegið veit ég ekki, en við hvetjum fólk til að fá sér mikið af bókum og öðru því sem til boða stendur. Það er bara betra fyrir okkur, það léttir á flutningunum," sagði Hólmfríður. Þó svo að safnið hafi síðustu mánuði aðeins verið starfandi í hluta af húsnæðinu sagði hún að nóg væri til. "Við erum á stöðugum hlaupum niður í kjallara að sækja meira," sagði Hólmfríður.