STJÓRNIR Sálfræðingafélags Íslands og Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi mótmæla eindregið skerðingu á sálfræðiþjónustu á Landspítala - háskólasjúkrahúsi: "Samkvæmt upplýsingum frá LSH mun vera um 12% niðurskurð á stöðum sálfræðinga að ræða eða sem...

STJÓRNIR Sálfræðingafélags Íslands og Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi mótmæla eindregið skerðingu á sálfræðiþjónustu á Landspítala - háskólasjúkrahúsi:

"Samkvæmt upplýsingum frá LSH mun vera um 12% niðurskurð á stöðum sálfræðinga að ræða eða sem nemur 4 stöðugildum. Þjónusta sálfræðinga, sem veitt er samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, er mikilvægur þáttur í þeirri heildarþjónustu sem almenningur sækir til spítalans. Þjónustan snýr að mörgum þáttum, bæði greiningu, meðferð og rannsóknum. Hún lýtur að mörgum hópum, börnum, unglingum og fullorðnum. Starfsvettvangur sálfræðinga á LSH er umfangsmikill og þeir starfa á flestum sviðum spítalans.

Þróun heilbrigðisþjónustu hér á landi hefur verið með sama hætti og í nágrannalöndum okkar. Lögð er áhersla á samvinnu fagstétta og gerð er krafa um sérhæfða og hagkvæma þjónustu. Slík þjónusta byggist meðal annars á greiðum aðgangi fólks að sálfræðiþjónustu á sjúkrahúsum, á heilsugæslustöðvum og hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum.

Það skýtur skökku við að skera niður störf sálfræðinga þegar vitað er að sálfræðiþjónusta er fjárhagslega hagkvæm og getur dregið úr kostnaði annars staðar í heilbrigðiskerfinu."