VEGNA frétta af fjárhagserfiðleikum Altech JHM, sem var einn af stofnendum og minnihlutaeigendi í Atlantsáli, taka stjórnendur Atlantsáls fram að Altech hafi hvorki fjárhagsleg né rekstrarleg tengsl við áform og áætlanir um byggingu álvers á Bakkahöfða...

VEGNA frétta af fjárhagserfiðleikum Altech JHM, sem var einn af stofnendum og minnihlutaeigendi í Atlantsáli, taka stjórnendur Atlantsáls fram að Altech hafi hvorki fjárhagsleg né rekstrarleg tengsl við áform og áætlanir um byggingu álvers á Bakkahöfða norður af Húsavík.

Í fréttatilkynningu Atlantsáls segir að núverandi fjárhagsvandræði Altech hafi því engin áhrif á Atlantsál. Þá segir að eftir því sem næst verði komist sé Atlantsál einn af þremur stærstu lánardrottnum Altech og félagið búist við því að Altech muni semja við það um skuldirnar eins og við öll önnur fyrirtæki sem hlut eiga að máli.

53 milljarða lánasamningur vegna álvers í Ástralíu

Í tilkynningunni er m.a. bent á að Transal Group, sem eigi meirihlutann í Atlantsáli, sé einn stærsti hluthafinn í Aldoga Almium Smelter, sem muni hefja framkvæmdir við að reisa 420 þúsund tonna álver í Ástralíu; Aldoga hafi nýverið skrifað undir fjárfestingarlánasamninga við tvo banka að verðmæti um 53 milljarða íslenskra króna vegna þessa verkefnis.

Þá segir að í desember í fyrra hafi Atlantsál að ósk iðnaðarráðuneytisins tilkynnt um þá fjárfesta sem hefðu áhuga á að fjármagna byggingu álvers á Bakkahöfða að uppfylltum ákveðnum skilyrðum af hálfu félagsins um að verkefnið gæti gengið eftir. Þessi fjárfestar eða fyrirtæki, sem þúsundir manna starfi hjá víðs vegar um heiminn og sem eigi eignir sem nemi milljörðum dala séu: Aksoy Group í Tyrklandi, ISPAT Group á Indlandi, Marco Group og Transal Group, eigandi Atlantsáls, og Mitsui &Co., Ltd.

Í tilkynningunni segir einnig að Atlantsál hafi, í samvinnu við Invest in Iceland, lokið um 40-50% af þeim rannsóknum sem nauðsynlegar séu vegna umhverfismats vegna fyrirhugaðs álvers norður af Húsavík. Þá hafi Atlantsál í lok síðasta árs hafið viðræður við Hönnun hf. vegna lokarannsókna og undirbúnings fyrir umhverfismat. Kostnaður Atlantsáls vegna undirbúningsvinnu vegna álversáforma á Íslandi nemi nú þegar nálega 140 milljónum íslenskra króna. Þá er á það bent að í desember í fyrra, en þá hafi menn verið orðnir sannfærðir um fýsileika verkefnisins, hafi Atlantsál lýst því yfir við viðskipta- og iðnaðarráðuneytið að fjárhagsleg þátttaka ráðuneytisins vegna vinnu sem eftir væri vegna umhverfismats væri æskileg en ekki nauðsynleg; það væri ráðuneytsins að ákveða hvort það tæki þátt í þeim kostnaði eða ekki.

Þá er og tekið fram í tilkynningu Atlantsáls að fyrirtækið sé reiðubúið til þess að leggja fram fjárhagslegar tryggingar vegna orkusölusamninga við Landsvirkjun.

Bíða eftir samþykki iðnaðarráðuneytisins

Í ljósi þessa alls bíði Atlantsál nú eftir samþykki viðskipta- og iðnaðarráðuneytsins svo halda megi verkefninu áfram og harmar neikvæð svör ráðuneytisins nú síðla í janúar.

"Þar sem Atlantsáli og samstarfsaðilum þess hafa ekki verið kynnt nein þau rök sem gætu hafa haft áhrif á ákvörðun ráðuneytsins munu fulltrúar félagsins funda með viðskiptaráðherra 4. febrúar til þess að skilgreina þann ágreining sem upp er risinn og taka síðan lokaákvörðun um framtíð verkefnisins á Íslandi," segir í tilkynningu Atlantsáls.