Magne Delebekk járningameistari endaði góða kennslu á því að sýna mönnum hvernig eigi að smíða góða skeifu og var gerður góður rómur að handbragði meistarans.
Magne Delebekk járningameistari endaði góða kennslu á því að sýna mönnum hvernig eigi að smíða góða skeifu og var gerður góður rómur að handbragði meistarans.
Lunginn af betri járningamönnum landsins kom saman í reiðhöll Gusts á laugardag til að fræðast af norska járningameistaranum Magne Delebekk og auka með því faglega þekkingu sína og færni. Námskeið þetta var haldið af O.

Lunginn af betri járningamönnum landsins kom saman í reiðhöll Gusts á laugardag til að fræðast af norska járningameistaranum Magne Delebekk og auka með því faglega þekkingu sína og færni.

Námskeið þetta var haldið af O. Johnson og Kaaber og Mustad sem er í fremstu röð í framleiðslu skeifna og járningaverkfæra í heiminum í dag en fyrrnefndi aðilinn flytur inn til Íslands. Með járningameistaranum í för var einnig Agneta Häll, markaðsstjóri Mustad í Evrópu, og kom hún til að kynna sér af eigin raun stöðuna á markaðnum á Íslandi.

Námskeiðið hófst með fyrirlestri í fundar- og veislusal reiðhallarinnar en að honum loknum var farið niður í salinn þar sem búið var að klæða gólfið með dokaborðum þar sem járnað skyldi. Alls tóku 22 járningamenn þátt í námskeiðinu og voru menn almennt ánægðir með að fá slíka fræðslu. Miklar framfarir hafa átt sér stað í járningum á Íslandi á síðustu árum og nánast hægt að tala um byltingu í þeim efnum.

Þetta er í annað sinn sem Mustad og O. Johnson og Kaaber standa fyrir námskeiði í járningum en fyrir þremur árum kom á þeirra vegum hingað til lands Grant Moon, fyrrum heimsmeistari í járningum.

Magne Delebekk lagði mikla áherslu á að skála innri brún skeifna á þeirri hlið sem að hófnum snýr í því augnamiði að vernda hófbotninn fyrir höggum eða pressu. Auk þess vildi hann að menn beygðu tána örlítið upp til að auðvelda hrossinu veltu og spyrnu. Þá vakti það athygli að hann vildi að skeifurnar væru vel rúmar að stærð og stæðu örlítið út fyrir brún hófsins, mest aftast eðli málsins samkvæmt þar sem er mest hreyfing í hófnum þegar hestur stígur í fótinn. Um það hversu mikið skuli út af standa eru skiptar skoðanir því það fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum hversu rúmt er hægt að járna hross. Hér á árum áður járnuðu Íslendingar almennt fullþröngt, það er á fulllitlar skeifur. Það hversu rúmt er járnað ræðst mjög af því við hvaða aðstæður á að nota hrossin og við hvaða aðstæður hrossin eru milli þess sem þau eru notuð. Það gengur til dæmis ekki að hafa skeifur ríflegar að stærð þegar farið er til fjalla á grýttar slóðir. Að sama skapi má fullyrða að hross rífi frekar undan sér í sumarhögum sé rúmt járnað. Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að taka þarf í ríkum mæli tillit til þeirra aðstæðna sem hrossin búa við. Rúm skeifa verndar hófinn betur og gerir betur ráð fyrir þeim hreyfingum sem eru í hófnum og svo verður járningin endingarbetri - detti ekki undan af þessum sökum.

Þá voru menn einnig sammála um að það eitt að járningamenn kæmu saman og járnuðu í einn dag gæfi þeim færi á afar gagnlegum skoðanaskiptum og umræðum um fagið. Þar fyrir utan var ekki annað að sjá en menn hefðu góða skemmtan hver af öðrum, óspart slegið á létta strengi. Af þeim vinnubrögðum sem gat að líta í reiðhöll Gusts má ætla að fagmennskan hafi fyrir alvöru hafið innreið sína í járningar á Íslandi.