Glöggt mátti greina vilja mótsstjórnar landsmóts á Gaddstaðaflötum 2004 á blaðamannafundi nýlega til að laga dagskrá mótsins að nýjum tímum og koma til móts við kröfur sem komu fram að loknu landsmóti á Vindheimamelum fyrir tveimur árum. Valdimar Kristinsson brá sér á fundinn.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á dagskránni miða að því að létta hana og eru hér vafalítið á ferðinni róttækustu breytingar sem gerðar hafa verið á landsmótum milli tveggja móta.

Það fyrsta sem vekur athygli er að mótið er nú lengt um einn dag og kann það við fyrstu sýn að virka eins og öfugmæli að verið sé að létta mótið. En svo er þó ekki því þessi lenging gefur möguleika á að rýmka til aðra dagana. Þá sýnir mótsstjórnin ríka viðleitni til að fækka hrossum á mótinu en það er eingöngu í kappreiðum þar sem eingöngu verður keppt í skeiði og svo í sýningum ræktunarbúa og svo töltkeppni. Til að fækka í gæðingakeppni þarf samþykkt á landsþingi Landssambands hestamannafélaga þar um en ekki virðist áhugi fyrir að fækka kynbótahrossum.

Magnaðasta hópsýning allra tíma

Á laugardag verða kynbótahross afar fyrirferðarmikil í dagskránni undir heitinu Hátíðardagskrá íslenskrar hrossaræktar. Þar á að brydda upp á nýjungum að því er fram kom í máli Ágústs Sigurðssonar hrossaræktarráðunautar á fundinum. Má þar nefna að auk hæst dæmdu hrossanna komi fram bestu vekringar í röðum kynbótahrossa og nefndi Ágúst að vel kæmi til greina að hafa tímatöku á skeiðsprettum þeirra. Þá kom fram í máli hans að leidd yrðu fram fræg kynbótahross síðustu ára. Þá munu hross með hæstu einkunnir fyrir einstakar gangtegundir koma fram svo eitthvað sé nefnt. Sagði Ágúst að hér stefndi í mögnuðustu hópsýningu allra tíma. Sömu lágmörk gilda inn á mótið og var á síðasta móti og er því reiknað með svipuðum fjölda kynbótahrossa og var á síðasta móti.

Hvað sýningu ræktunarbúa varðar mun 12 ræktunarbú sýna afrakstur sinn í ræktun á föstudagskvöld. Þar verður ræktunarbúum ársins 2002 og 2003 boðin þátttaka en hin 10 verða valin samkvæmt skilyrðum sem ekki hafa verið ákveðin enn. Þá er hugmyndin að stilla upp keppni ræktunarbúa þar sem boðið verði upp á símakosningu í gegnum gsm-síma verði það tæknilega mögulegt. Það bú sem flest atkvæði hlýtur fær að að koma aftur fram á laugardagskvöldið. Ætlunin er að bjóða upp á veglega sýningaraðstöðu, eins og það er orðað af hálfu mótsstjórnar, fyrir ræktunarbú og atvinnumenn í greininni til að kynna ræktun sína eða aðra starfsemi.

Alla daga mótsins er gert ráð fyrir klukkustundar matarhléum og hálftíma kaffihlé síðdegis. Þá verða stutt hlé milli allra úrslita í gæðingakeppni en þar verða eins og tíðkast hefur A- og B-úrslit í öllum flokkum. Gæðingakeppnin verður með sama sniði og síðast, það er forkeppni þar sem þrír keppendur verða í senn á velli. Síðan milliriðlar þar sem 25 keppendur sýna hesta sína í hverjum flokki. Að endingu er svo keppt í A- og B-úrslitum. Þá verður í gæðingakeppninni notaður svokallaður söfnunarhringur þar sem knapar mæta með hest sinn þegar næsti eða næstu keppendur á undan fara inn á völlinn. Fram kom á fundinum að mjög strangt verði tekið á mætinu keppenda og greinilegt að heyra á mótsstjórnarmönnum að ekki verði beðið eftir neinum.

Í töltkeppninni verð aðeins 30 þátttakendur og munu þar gilda einkunnir sem keppendur hafa hlotið í löglegri töltkeppni á árinu. Ætla má að þetta fyrirkomulag muni hleypa aukinni spennu í töltkeppni ýmissa móta fyrir landsmót. Með tilkomu Mótafengs verður afar auðvelt að finna 30 hæst dæmdu pörin og verður stöðuna hverju sinni í keppninni um töltsæti á landsmóti að finna á heimasíðu LH og landsmótsins. Varðandi þátttöku í skeiðgreinum fá hestar með tólf bestu tímana í hverri grein rétt til þátttöku og verður staðan í keppni skeiðhesta birt á ofangreindum vefsíðum. Keppt verður í 150 og 250 metra skeiði og 100 metra flugskeiði. Síðasti dagur skráningar á landsmót verður 14. júní. Öll keppnishross, sem fram koma á mótinu, verða að vera grunnskráð þar sem tölvukerfi mótsins verður Kappi og Mótafengur og fer öll skráning í gegnum það.

Áætlaður fjöldi keppnis- og sýningarhrossa á mótinu er í kringum 800 í stað 970 hrossa á síðasta móti.

Verð aðgöngumiða á landsmótið hefur ekki verið ákveðið en fram kom að það yrði svipað og var fyrir tveimur árum á Vindheimamelum sem var 7.500 krónur fyrir alla dagana. Bent var á að inn á heimsmeistarmótið í Danmörku hafi kostað 9.500 krónur.

Hugsanlega selt inn einstaka daga

Þá kom fram á fundinum að kannað verður hvort mögulegt verði að selja inn á einstaka daga mótsins, það er að fólk geti til dæmis komið á miðvikudegi og farið heim að kvöldi og greitt aðeins fyrir þann dag. Ávallt hefur gætt mikillar óánægju með að slíkt skuli ekki mögulegt og telja margir að mótin verði af mörgum mótsgestum af þeim sökum. Mótsstjórn gerir ráð fyrir að allt að 12 þúsund manns muni sækja mótið að þessu sinni og af þeim fjölda gætu útlendingar verið á milli tvö og þrjú þúsund. Fram kom að mótsstjórn hefur fullan hug á því að kanna með óyggjandi hætti hver fjöldi útlendinga á mótinu verður. Þá hefur verð fyrir að fá að sýna ræktunarbú á mótinu ekki verið ákveðið en það var 50 þúsund krónur á síðasta móti og kom fram að það yrði örugglega ekki lægra nú.

Á fundinum var undirritaður samningur milli Landsmóts ehf. og tryggingafélagsins VÍS um að síðarnefndi aðilinn verði einn af aðal styrktar- og samstarfsaðilum mótsins og verður LM ehf. að sjálfsögðu með allar tryggingar mótsins hjá VÍS.

Í mótsstjórn eiga sæti Sveinbjörn Sveinbjörnsson formaður, Sigurður Sæmundsson, Ágúst Sigurðsson, Rafn Jónsson og Lárus Dagur Pálsson sem verður framkvæmdastjóri mótsins.

Hér er lagt upp með áhugaverðar breytingar á landsmótinu í því augnamiði að gera það áhugaverðara fyrir hestaunnendur og aðra er kunna að sækja. Sérstaklega verður fróðlegt að sjá hvernig tekst til með kynbótasýningu því margir velta því fyrir sér hvort það þjóni einhverjum gagnlegum tilgangi að sýna svo mörg hross.

Höf.: Valdimar Kristinsson