Súsanna Pálmadóttir fæddist 7. september 1953. Hún lést á Háskólasjúkrahúsinu í Fossvogi 22. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Pálmi Sigurðsson og Hólmfríður Hjartardóttir sem bæði eru látin. Alsystkini Súsönnu eru Ingibjörg, f. 1937, Gunnar, f. 1944, og Sigurður, f. 1948.

Súsanna fluttist á Skálatún 1967 og hefur búið þar síðan.

Útför Súsönnu verður gerð frá Lágafellskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Velkomin sértu, elsku litla lóa

um langa vegu yfir sollin höf.

Nú blæs af lífi hæðir, holt og móa

þinn helgisöngur, besta vorsins gjöf.

(Rósberg G. Snædal.)

Já, elsku Súsanna mín, hvað við vorum ekki búnar að spila þetta lag hans Hallbjarnar frænda þíns, og það var aldrei betra en þegar við settum allt í botn og sungum með, þá vorum við flottastar. Nú við brottför þína hrannast upp minningarnar því þær eru margar og margt höfum við brallað á þessum tuttugu árum sem við höfum átt samleið, allar utanlandsferðirnar þar sem þú naust lífsins og vannst hylli allra samferðamanna, sumarfría hér heima, leikhús, böll, að taka þátt í þessu var þitt líf.

Súsanna mín, þú varst mjög vinsæl af samferðafólki þínu, og snyrtimennska þín var aðdáunarverð og mættu margir taka hana til fyrirmyndar, að sjá í skápa og skúffur hjá þér, þar þurfti ekki hallamál. Nú síðust árin þegar heilsan fór að bila hjá þér og þú þurftir að flytja úr Litluhlíðinni í Suðurhlíð þar sem þér var vel tekið og fékkst frábæra umönnun starfsfólksins þar, hélstu samt þínum húmor fram í það síðasta, og frábært var að geta tekið þátt í fimmtugs afmæli þínu í september því veisluglaðari konu er vart að finna, öllum átti að bjóða. Nú þegar við samferðafólk þitt kveðjum þig á fimmtugsafmæli Skálatúns, viljum við þakka þér fyrir allt.

Syngdu, lóa, syngdu fyrir alla.

Syngdu ljóð um ástir vilja og þor.

Syngdu þegar sumri fer að halla.

Syngdu þegar aftur kemur vor.

(Rósberg G. Snædal.)

Þín vinkona

Anna Kristín.

Elsku Súdda, í dag verður þú borin til grafar frá fallegu kirkjunni á Lágafelli, kirkjunni sem við sjáum svo vel úr glugganum í Litluhlíð þar sem þú áttir svo lengi heima með þeim Gerði og Gunnu sem kveðja þig í dag.

Ég kom til að vinna hjá ykkur í janúar 1999 og með okkur tókst mjög góð vinátta. Margt gerðum við okkur til skemmtunar, fórum til sólarlanda, fórum í leikhús, út að borða og margt fleira brölluðum við. Svo fór heilsu þinni að hraka og þú fluttur frá okkur í Suðurhlíðina en við sáumst á hverjum degi.

Í dag kveðjum við góða vinkonu og Gerður og Gunna þakka henni fyrir allt.

Guð geymi þig, Súdda mín.

Birna Gunnlaugsdóttir.

Það er nú einu sinni svo að við mennirnir erum mjög vanmáttugir og fáum litlu um ráðið hvaða skammt við fáum af lífinu við fæðingu.

Súdda okkar var ein úr elskulegum hópi sem býr hér á Skálatúni. Hún tók þátt í öllum verkum á vinnustofunum en aðallega fannst henni gaman að vefa. Við sem unnum með henni minnumst margra skemmtilegra stunda. Gaman var þegar hún kom full af áhuga og gleði og var svo mikið niðri fyrir og þurfti að segja okkur eitthvað spennandi sem hafði hent hana eða þegar hún kom ljómandi með pakka sem hún hafði pakkað inn með mikilli nákvæmni. Hafði hún jafnvel búið til það sem var í pakkanum til að gefa einhverjum sem henni fannst sérstakur í það og það skiptið.

Við kveðjum þig nú, elsku Súdda, og vitum að nú líður þér vel eftir erfið veikindi.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesú, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer,

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgr. Pét.)

Samstarfsfólk á

vinnustofum Skálatúns.