Hjalmar Willy Juliussen fæddist á eyjunni Spjæröy í Hvaler-eyjaklasanum í Óslófirði 19. júlí 1921. Hann lést í Reykjavík 10. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Amanda Josefine Juliussen, f. 1893, d. 1979, og Johan Arnt Juliussen, f. 1885, d. 1947. Systkini hans eru Johan Anker, f. 1911, d. 1981, Hjördis Vivana, f. 1914, d. 1991, Ivan Gundor Francis, f. 1917, d. 1989 og Gerd Miriam, f. 28.1. 1931.

Willy kvæntist Svöfu Hildi Halldórsdóttur, f. 18.12. 1912, ættaðri úr Breiðuvík á Snæfellsnesi, dóttir hjónanna Danfríðar Brynjólfsdóttur og Páls Kristjánssonar. Svafa var ættleidd nýfædd af hjónunum Guðlaugu Gísladóttur og Halldóri Eyjólfssyni, Hólmi á Mýrum í Hornafirði, og ólst hún þar upp. Börn Willys og Svöfu eru: a) Dóra Sigurlaug, f. 14.5. 1945, gift Karli Marinóssyni. Börn þeirra eru Hjálmar, f. 24.3. 1987 og Egill, f. 30.5. 1990. b) Anna Karin, f. 1.5. 1946, gift Guðmundi Kristjánssyni. Börn Önnu Karinar eru Eiríkur Steinn Ingibergsson, f. 18.12. 1965, kvæntur Susanne Barböru Götz. Börn þeirra eru Jóhannes Davíð, Kristján Daníel og Símon Aleksander. Ragnar Ingibergsson, f. 17.3. 1972, kvæntur Sigríði Ólafsdóttur. Börn þeirra eru Geri og Vilji. Dóttir Sigríðar er Elísabet Ellertsdóttir. Sonur Willys er Sævar, f. 7.7. 1955, kvæntur Maríu Baldursdóttur. Börn þeirra eru Baldur, f. 23.5. 1981 og Helga, f. 12.3. 1986.

Willy fór ungur á sjó frá heimalandi sínu Noregi. Á stríðsárunum sigldi hann á olíuskipum í skipalestum norska verslunarflotans milli Bretlands og fjarlægra landa Ameríku og Afríku. Árið 1944 kom hann til Íslands, kynntist konu sinni og ílentist. Hann vann ýmis störf til sjós og lands fyrstu árin á Íslandi en lengst af var hann starfsmaður sænska sendiráðsins í Reykjavík, eða í 33 ár.

Útför Willys fer fram frá Laugarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Það er hægt að vera foreldri á svo margan hátt.

Eitt er þó víst að foreldrarnir eru mikilvægustu kennarar lífs okkar.

Pabbi minn kenndi mér mikilvæga lexíu. Hann kenndi mér fjölda sönglaga frá Noregi, kenndi mér að dansa foxtrott og vals, sagði mér spennandi sögur frá fjarlægum slóðum, sagði mér frá hryllingi stríðsins, sagði mér frá barnæsku sinni við haf og skóg í Noregi.

Hann kenndi mér að njóta náttúrunnar, að mæta öðru fólki með opnum huga og ánægju, að ganga til borðs með gleði.

Hann gaf mér þann arf að kynna mig fyrir fólkinu mínu í Noregi þannig að ég varð ekki bara Íslendingur heldur barn tveggja þjóða og tveggja landa.

Hann kom því til skila að lífið væri spennandi. Ég mun búa að því alltaf.

Anna Karin.

Þegar ég frétti af andláti Willa komu mér strax í hug góðar minningar.

Í uppvextinum var ég í þeirri sérstöðu að geta valið hvar ég var. Þetta var þó alfarið undir mér sjálfum komið. Þegar ég horfi til baka minnist ég þess að oft valdi ég þann kost að eyða tíma mínum með uppáhalds frænkunum mínum og undir verndarvæng Svövu, Willa og reyndar Guðlaugar ömmu. Willy reyndist mér í hvívetna traustur og góður félagi. Hann opnaði augu mín fyrir því að við erum hluti af miklu víðara samhengi. Hann var mín fyrirmynd af heimsborgara sem hefur nýst mér allar götur síðan og veitt mér öryggi og styrk í samskiptum við fólk í alþjóðlega umhverfinu.

Nú þegar Willy hefur kvatt þessa jarðvist langar mig til að minnast upplifunar sem ég hef varðveitt í hugskoti mínu. En Willy hafði þann einstaka eiginleika að meðhöndla alla sem jafningja og ég ungur drengurinn naut þess að vera meðhöndlaður á þennan hátt. Svo gerðist það einn góðan veðurdag að við "karlmennirnir" fórum saman í Tjarnarbíó að sjá alvöru mynd með Sophiu Loren. Ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu að vera allt í einu að fara á fullorðinsmynd, reyndar held ég að ferðin fram og til baka yfir Tjörnina hafi verið mér minnisstæðari en myndin sjálf. Þarna varð ég allt í einu fullorðinn um stund.

Ég vil þakka Willa samferðina og votta uppáhalds frænkunum mínum og Svövu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kveðja,

Haukur Haraldsson.

Heiðursmaðurinn, sæfarinn, tryggðatröllið og jafnframt heiðursmerkjahafinn Willy, hefur nú kvatt okkur hinstu kveðju.

Willy var af sænsk/norskum ættum fæddur í Noregi. Hár og glæsilegur maður, góðlegur og léttur í lund.

Ungur fór hann til sjós og á stríðsárunum síðari var hann á birgðaskipum sem gerð voru út frá Bretlandi. Hann sigldi um heimsins höf á hættutímum stríðs, og varð vitni að mörgum hildarleik.

Willy þoldi illa skjall. En tryggðatröll var hann, bæði í leik og starfi.

Hann var sæmdur mörgum heiðursmerkjum vegna trúmennsku í því starfi er hann gegndi lengst af á Íslandi; sem starfsmaður sænska sendiráðsins í Reykjavík. Það starf krafðist mikillar þekkingar á landi, þjóð og náttúru Íslands. Ófáir voru þeir stjórnmálamenn sænskir, sem kusu Willy sem leiðsögumann í styttri eða lengri ferðir um Ísland. Ekki má gleyma öllum þeim sendiherrum eða öðrum útlendingum, sem hann tók á móti og kynnti fyrir land og þjóð. Með einstaka þekkingu á náttúru Íslands, gekk Willy gjarnan á fjöll og til veiða. Hann kunni ógrynni örnefna Íslands, betur en margur Íslendingurinn. Hann átti einnig mikinn þátt í skrifum bókar um Ísland, sem út kom fyrir nokkrum árum og rituð var af sænskum samstarfsmanni hans. Þar nýttist afar vel þekking og kunnátta Willys á landi og högum íslenzku þjóðarinnar.

Með söknuði kveð ég, börnin mín og Guðmundur kæran vin og samstarfsmann í sænska sendiráðinu um langt árabil. Hann var bóngóður og trúr, alla þá tíð sem við fengum notið vináttu hans og tryggðar.

Við biðjum góðan Guð að blessa eftirlifandi eiginkonu hans Svöfu Halldórsdóttur, börn hans og ástvini alla.

Hvíl í friði kæri vinur.

Elín Sólveig Benediktsdóttir.

Núna þegar vetrarsólin sendir geisla sína feimnislega inn um gluggann, minnist ég Villys, norsku kempunnar, sem var pabbi æskuvinkonu minnar Önnu Karinar. Fyrst heyrði ég hana segja frá honum og síðar kynntist ég honum sjálfum og var alltaf fjör og glettni í samskiptum okkar allra, enda Villy lífsglaður og skemmtilegur maður, hafði sérstaka persónutöfra. Eiginlega öfundaði ég Karinu af pabba hennar, vegna þess að hann var svo mikill pabbi og svo rausnarlegur alla tíð, að mér fannst það næstum fyndið. Ég man ótal skipti þar sem Villy bjargaði málum, bauð í utanlandsferðir, lánaði bílinn og var alltaf einhver sérstakur kraftur sem fylgdi honum.

Ef til vill tengdi það okkur vinkonurnar alltaf , að ég átti líka pabba af norskum ættum og náðu þau líka alltaf vel saman og þegar við vinkonurnar skemmtum okkur einna best, þá tölum við norsku og segjum sögur af ættingjum okkar og hermum svolítið eftir.

Villy hélt alltaf góðu sambandi við ættland sitt og heimsótti ættingja sína reglulega og var sambandið við Gerd systur hans einstaklega fallegt og sterkt. Öllu þessu hef ég fylgst með í gegn um árin, dáðst að Villy fyrir ræktarsemi hans við fjölskyldu sína, lífsgleði hans og karlmannslund.

Hann unni lífinu, var ástríkur og glettinn og fékk ég oft að njóta glaðværðar hans og vináttu. Fyrir það þakka ég nú og bið honum blessunar í nýjum heimum.

Lokuðum dreymandi augum

sá ég sól á miðjum himni

roðagyllta miðnætursól.

Heimferð um nótt

löng ferð að baki

rauðgullinn himinn bak við skýin.

og hjartað sem elskaði

alltaf

varð aftur að logandi miðnætursól.

Anna S. Björnsdóttir.