Þórhildur Þórðardóttir fæddist á Ísafirði 3. júní 1917. Hún lést 5. janúar síðastliðinn. Þórhildur var dóttir hjónanna Þórðar Þórðarsonar, vélsmiðs á Ísafirði, f. 14. maí 1886, d. 5. nóvember 1936, og fyrri konu hans Kristínar Sæmundsdóttur, f. 27. júní 1880, d. 31. október 1918. Þórhildur var yngst fjögurra alsystra. Hinar voru: Margrét, f. 15. nóv. 1911, d . 18. okt. 1931; Sigríður, f. 30. sept. 1914, d. 28 mars 1979; og Guðrún, f. 18. ágúst 1915, d. 11. jan.1998. Einnig átti Þórhildur þrjá hálfbræður samfeðra, þeir voru: Sigurjón, f. 30. mars 1922, d. 14. okt. 1998; Þór Birgir, f. 13. des. 1923, d. 28. okt. 2001; og Jens, f. 1. maí 1925, d. 18. mars 2001.

Maður Þórhildar var Kristinn Ragnar Guðmundsson, f. 28. júní 1909, d. 28. maí 1994. Börn þeirra eru: 1) Áslaug, f. 14. janúar 1943, maki Bragi Jóhannsson, f. 29. september 1939, eiga þau þrjú börn. a) Þóra Ester, f. 1968, gift Sverri G. Pálmasyni, f. 1967, og eiga þau tvö börn. b) Hanna Björk, f. 1971, gift Andreas Nyman, f. 1973, og eiga þau eitt barn. c) Bergur Már, f. 1978. 2) Grétar Þór, f. 19. janúar 1945, maki Sæunn M. Sæmundsdóttir, f. 11. nóvember 1942, eiga þau tvö börn. a) Elísabet Kristjana, f. 1985. b) Jakob Þór, f. 1989. 3) Hallgrímur, f. 8. júlí 1951, d. 1. júní 1994, maki Ágústa Björnsdóttir, f. 22. júní 1955, eiga þau tvö börn. a) Kristinn Logi, f. 1980, í sambúð með Söru Hlín Sigurðardóttir, f. 1981, b) Björn Þór, f. 1987. 4) Guðrún Kristín, f. 21. október 1955, maki Dag Laumann, f. 11. febrúar 1956, þau eiga eitt barn, Renate, f. 1993.

Þegar Þórhildur var á fyrsta ári fluttist hún að Mosvöllum í Önundarfirði til hjónanna Guðmundar Bjarnasonar og Guðrúnar Jónu Guðmundsdóttur og ólst upp hjá þeim.

Um 1940 hóf hún búskap með Kristni að Vífilsmýrum í sömu sveit en þau stunduðu þar búskap til vors 1974 er þau fluttust búferlum til Akureyrar og bjuggu að Skarðshlíð 38a og þar átti hún heima fram á mitt ár 1997 er hún flutti á Skólastíg 5 sem var heimili fyrir aldraða.

Haustið 1998 fór hún síðan á Dvalarheimilið Hlíð.

Útför Þórhildar fór fram frá Fossvogskapellu 12. janúar.

Mig langar til að skrifa nokkrar minningar sem ég á um ömmu mína, Þórhildi.

Ég var svo lánsöm að hafa ömmu nálægt mér stóran hluta af uppvaxtarárum mínum. Það er fjársjóður sem ég mun alltaf geyma og búa að. Ég fékk snemma að vita það að nafnið mitt Þóra væri í höfuðið á ömmu minni og það þótti mér vænt um.

Ein af fyrstu minningunum sem ég á er þegar ég kom í sveitina til hennar og afa. Hún vildi eins og alltaf gefa mér eitthvað gott og ég mátti velja. Ég bað um karamellubúðing og ekki stóð á því, hringt var í kaupstaðinn og búðingurinn kom með mjólkurbílnum og bragðaðist vel með rjóma. Stuttu eftir þetta fluttust þau síðan til Akureyrar og bjuggu um tíma í kjallaranum hjá okkur. Ég man eftir því að það var gott að geta leitað í kjallarann og stundum gaf amma mér smá pening fyrir að búa um rúmið fyrir þau. Þau fluttu síðan í Skarðshlíðina og ég man að mér þótti það allt of langt í burtu, ekki göngufæri fyrir mig á þeim aldri.

Amma gisti stundum hjá okkur ef mamma var að fara á næturvakt til að passa okkur daginn eftir. Þá sagði hún okkur alltaf sögur og hún kunni svo margar og skemmtilegar sögur sem við elskuðum að heyra. Ég man eftir því að stundum fékk ég líka að gista hjá þeim og þá var ég oftast send út í búð að kaupa pylsur eða eitthvað annað sem var í uppáhaldi á þeim árum.

Ég var ung þegar ég fór að hjálpa ömmu að baka fyrir jólin og það voru margar góðar stundirnar sem við áttum saman í eldhúsinu og meðan amma bjó í Skarðshlíðinni þá varð þetta ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum hjá mér. Þetta eru einungis nokkrar minningar sem ég á um góða ömmu og þær eru og verða mér dýrmætar. Takk fyrir allt.

Þóra Ester.

Elsku amma Þórhildur, mig langar að minnast þín í nokkrum orðum.

Ég minnist þess þegar við systurnar vorum litlar og amma gisti stundum hjá okkur. Þá var hún vön að segja okkur sögur sem okkur þóttu svo skemmtilegar. Amma gerði margt fyrir okkur og bakaði bestu pönnukökur í heimi (nóg af dropum!).

Þegar ég varð eldri komu tímar þar sem við vorum mikið saman. Ég var að vinna á leikskóla í Skarðshlíðinni og einn veturinn var ég vön að koma til hennar og við borðuðum hádegismat saman, þetta eru stundir sem ég á góðar minningar um.

Þegar afi Kristinn var kominn á hjúkrunarheimili var amma vön að heimsækja hann og þá var það oft sem ég keyrði hana þangað og sótti. Á heimleiðinni fórum við svo að versla og það endaði oft með því að við fengum okkur grillaðan kjúkling eða pítsu. Það eru nú ekki margar ömmur af hennar kynslóð sem eru hrifnar af pítsum en amma sagði alltaf að þetta væri fínasti matur, þetta væri bara brauð og álegg!

Ég man þegar amma bjó á sambýli aldraðra í Skólastígnum. Eitt skiptið þegar ég kom í heimsókn til hennar sat hún úti á veröndinni og var að prjóna. Ég man að ég var svo glöð að sjá hana þar því ég vissi að hún var ánægð þarna og henni leið vel.

Elsku amma. Takk fyrir allt. Drottinn blessi minningu þína.

Þín

Hanna Björk.