Anna Kristinsdóttir fæddist á Dalvík 7. okt. 1915. Hún lést á Dalbæ á Dalvík 25. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Snjólaug Jónsdóttir, f. 26.8. 1891, d. 10.10. 1928, og Kristinn Hallgrímsson, f. 6.10. 1889, d. 4.6. 1973. Systkini Önnu voru Ari, f. 20.6. 1917, d. 26.11. 1953, Sveinn, f. 5.8. 1920, d. 5.11. 1977, Axel, f. 5.6. 1923, d. 28.1. 1978, og Elín Agnes, f. 19.7. 1925, d. 7.3 1926. Seinni kona Kristins var Anna María Jónsdóttir, f. 9.10. 1889, d. 12.6. 1973. Hálfsystkini Önnu, samfeðra eru Svava Ragnheiður, f. 20.1. 1933, d. 29.7. 1951, og Arngrímur Ægir, f. 11.4. 1935. Ein stúlka dó í æsku.

Anna giftist 2.6. 1934 Valdimari Haraldssyni, deildarstjóra hjá Pylsugerð KEA, f 15.9. 1912, d. 29.2. 1964. Börn þeirra eru: 1) Haraldur Óli, f. 17.12. 1934, kvæntur Ólínu Lilju Sigurjónsdóttur. Þau eiga þrjár dætur. 2) Edda Líney, f. 6.12. 1937, maki Hallgrímur Baldvinsson. Þau eiga fjögur börn. 3) Sigurður Viðar, f. 14.1. 1946, var kvæntur Steinunni Ferninandsdóttur. Þau eiga tvo drengi. Þau skildu. Sambýliskona María Gústafsdóttir. 4) Valdemar, f. 17.7. 1952, var kvæntur Þuríði Árnadóttur. Þau eiga einn son. Þau skildu. Sambýliskona Laufey M. Pálsdóttir, þau eiga einn son. Anna bjó lengst af í Munkaþverárstræti 30 á Akureyri, síðan í Víðilundi 6 á Akureyri.

Útför Önnu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Mig langar í fáum orðum að minnast ömmu minnar og nöfnu. Glæsileiki og myndarskapur kemur fyrst upp í hugann. Amma var alltaf svo fín og tignarleg og lét sér annt um útlit sitt. Samkvæm sjálfri sér var það með því síðasta sem hún hugsaði fárveik. Þegar við mamma sátum hjá henni sl. sunnudag, daginn sem hún kvaddi þennan heim, bað hún mig að skipta um eyrnalokka. Það mátti enginn annar gera, það þótti mér vænt um og sjá um að augnabrúnirnar væru í lagi o.fl. "Konurnar mínar" eins og hún kallaði starfsstúlkurnar á Dalbæ höfðu sett á hana ilmvatn og kveikt á kerti. Þetta var ógleymanleg stund sem við áttum þrjár saman áður en hún sofnaði.

Heimilið hennar var glæsilegt og hún hafði unun af blómum og gestrisin var hún með afbrigðum.Við dekkað borð vorum við búnar að drekka ófáa kaffibollana og mikið spjallað bæði í gamni og alvöru.

Góðar stundir áttum við saman er hún kenndi mér, hjálpaði og hvatti mig við sláturgerð og annan matartilbúning og var hún þá í essinu sínu. Matargerð var ömmu hugleikin og var hún snillingur í að reiða fram veisluborð. Hún safnaði uppskriftum og var dugleg við að prófa sig áfram.

Hreykin var hún þegar fimmti ættliðurinn, Anna Karen Kristinsdóttir nafna hennar, fæddist. Hún hélt henni undir skírn, og var hún í miklu uppáhaldi hjá henni. Síðustu vikurnar varð henni tíðrætt um "jólabarnið", nýjasta barnabarnið hennar, Viktor, sem fæddist 23. des. sl. Hún fékk að sjá hann og það gladdi hana mikið. Nú eru afkomendurnir orðnir 41.

Nokkrar ferðir fór ég með ömmu til Reykjavíkur og áttum góðar stundir með frændfólkinu. Fastir liðir hjá henni voru að fara með mér og fjölskyldu minni í sumarbústaðinn okkar á sumrin. Þangað var síðasta ferðin hennar farin sl. sumar þó að hún væri orðin fárveik. Þrátt fyrir stutt stopp gladdi heimsóknin mig.

Ég og fjölskylda mín þökkum allar góðu stundirnar.

Anna Hallgrímsdóttir.