Bjarney Jóna Finnbogadóttir fæddist í húsi er nefndist Sjóbúð á Bíldudal í Arnarfirði 12.8. 1922. Hún andaðist á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi 26. janúar síðastliðinn. Bjarney var dóttir hjónanna Finnboga Helga Finnbogasonar f. 5.11. 1897, d. 10.7. 1968, frá Krossadal við Tálknafjörð og Jónu Bjarneyjar Jónsdóttur frá Auðkúlu í Arnarfirði f. 11.10. 1896, 9.5. 1986.

Eftirlifandi eiginmaður Bjarneyjar er Magnús Baldvinsson, múrarameistari frá Grenjum í Álftaneshreppi, f. 4.1. 1913. Hann dvelur nú á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ. Þau Bjarney og Magnús eignuðust átta börn, sem eru: Arndís f. 28.4. 1943, gift Hafsteini Filippussyni húsgagnasmið. Þau eiga fjögur börn og búa í Ástralíu. Benjamín Grendal arkitekt, f. 18.8. 1944, maki Guðbjörg Kristjánsdóttir listfræðingur. Þau eiga tvo syni og búa í Kópavogi. Sæunn Grendal hjúkrunarfræðingur, f. 23.2. 1946, sambýlismaður Grétar Sveinsson húsasmiður. Sæunn eignaðist tvær dætur en önnur þeirra er nú látin. Sæunn og Grétar búa í Reykjavík. Guðný Grendal bóndi, f. 15.9. 1947, maki Jóhannes Magnús Þórðarson bóndi í Krossnesi. Þau eiga sex börn. Sigrún Grendal, f. 15.9. 1947, d. 24.4. 1948. Baldvin Grendal, skipamiðlari, f. 19.2. 1948, maki Aðalheiður Rósa Emilsdóttir. Þau eiga tvö börn saman en Aðalheiður átti tvær dætur áður. Þau búa í Garðabæ. Sigrún Grendal talmeinafræðingur, f. 15.4. 1953, maki Guðmundur J. Guðlaugsson pípulagningameistari. Þau eiga þrjú börn og búa í Garðabæ. Sigurður Grendal rekstrarhagfræðingur, f. 25.6. 1959, maki, Sigríður Bragadóttir matreiðslumaður. Þau eiga þrjú börn og búa í Reykjavík.

Útför Bjarneyjar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku mamma.

Þegar ég var lítil hugsaði ég oft um það hvernig það væri fyrir fullorðið fólk að missa mömmu sína. Ég man að ég komst að þeirri niðurstöðu að það skipti í rauninni ekki máli hve gamall maður væri þegar það gerðist, mamma er alltaf mamma og það er bara ein á mann. Mamman veit hluti sem enginn annar veit. Hún er eins konar leyniþjónusta. Þegar mamman deyr tekur hún með sér allt sem hún veit, allt sem hún veit um þig og allt í einu uppgötvarðu að þær upplýsingar sem þú gleymdir að fá frá henni eru ekki aðgengilegar lengur. Það er engin varamamma til.

Elsku mamma.

Ég er stolt af að hafa átt þig sem móður. Ég er stolt af okkur báðum fyrir að hafa fundið leið til að njóta nærveru hvor annarrar eins og við svo sannarlega gerðum. Við vorum að mörgu leyti svo ótrúlega ólíkar en þó kannski að sumu leyti oggulítið líkar.

Sennilega vorum við báðar jafnmiklir sérfræðingar í kaffihúsum höfuðborgarsvæðisins. Mælikvarðinn sem við notuðum fólst ekki í gæðum kaffisins sem á boðstólum var heldur stærð tertusneiðanna sem þar fengust. Handavinna var þín sérgrein og á því sviði varstu gjörsamlega ósamkeppnisfær. Reyndar held ég að handavinnuhæfileikar þínir hafi haft þýðingarmikil áhrif á mótun persónuleika míns. Í fyrsta lagi var ég viljalaust fórnarlamb listrænna hæfileika þinna og sköpunargáfu. Ef sérhönnuðu fötin sem ég var látin ganga í sæjust í dag væri önnur hvor okkar örugglega einhvers konar "idol". Laugardagsmorgnarnir voru oft fyrirkvíðanlegir fyrir fórnarlömb eins og mig. Þá mætti stormsveitin í morgunkaffi og tók út afrakstur vikunnar. Þarna sátu þær Lína og Gullí í fararbroddi og dáðust að sköpunarverkum þínum, móðir góð, og engin ykkar skeytti um það að a.m.k dúsin títuprjóna sem héldu sköpunarverkinu saman, stungust inn í útlimi mína og rispuðu mig og píndu. Ég fyrirgaf þetta þó þegar við útskrifuðumst með 9,0 í handavinnu frá Fósturskólanum.

Elsku mamma.

Ég gæti haldið endalaust áfram að rifja upp eftirminnileg atvik í lífi okkar. Ég er ekki viss um að pabbi vilji láta minna sig á veikleika þinn fyrir höttum eða frollum eins og hann kallaði þá. Ég veit ekki heldur hvort hann vilji ræða mikið óeigingjarnt sjálfboðastarf þitt sem aðstoðarbílstjóri. En ég veit að hann þreytist aldrei á því að dásama glæsileika þinn, myndugleik og skörungskap. Ekkert jafnast á við matinn sem þú eldaðir, ekkert jafnast á við glæst heimilið sem þú bjóst okkur og ekkert jafnast á við okkur afkomendurna sem þú fæddir og ólst upp. Elsku mamma.

Ég þakka þér samfylgdina gegnum lífið. Okkar kafla er nú lokið en ég mun ylja mér við ljúfar minningar um ókomna tíð.

Þín dóttir

Sigrún Grendal.

Elsku amma.

Ég vil þakka þér fyrir þann yndislega tíma sem við höfum átt saman. Þessi tími er alveg ógleymanlegur og minningarnar mínar um þig eru svo fallegar. Ég man þá daga sem ég prílaði upp í fangið á þér og þú tókst alltaf við mér með opnum örmum og þínu fallega brosi. Þú varst svo flink í höndunum og þar sem þú varst mín stærsta fyrirmynd sat ég oft heilu tímana hjá þér og reyndi að læra af þér svo ég gæti orðið eins flink og þú. Á sunnudögum fór ég oft með þér og afa í bíltúr út á Seltjarnarnes að skoða kríurnar. Ég man eftir að hafa setið aftur í og hámað í mig bílabrjóstsykurinn sem afi átti alltaf til í hanskahólfinu. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum hversu hamingjusöm og ástfangin þið voruð. Ég sakna þín svo mikið en ég veit að þér líður miklu betur þar sem þú ert stödd núna. Ég vil líka að þú vitir að þú þarft ekki að hafa áhyggjur af afa því að við munum hugsa vel um hann fyrir þig.

Ég elska þig, amma.

Agnes.

Mínar sterkustu minningar um ömmu í Grænó eru úr sumarbústaðnum. Ég rifja upp þegar svarti Bensinn rann í hlað og Flosi hljóp um allt svæðið geltandi af gleði. Amma fór strax að skipuleggja hvernig afferma skyldi bílinn og gaf afa leiðbeiningar þar að lútandi. Afi fór svo að bera inn vistir og hannyrðir með tilheyrandi athugasemdum um það hvort þetta væri nú allt saman lífsnauðsynlegt. Amma sá til þess að það var alltaf eitthvað gómsætt meðferðis og í heimsóknum okkar í sumó gerðum við frændsystkinin okkar til þess að sanna fyrir afa að það væri mjög mikilvægt að hafa fleiri fleiri kökudósir fullar af kleinum og kanelsnúðum. Það var enginn hámarkskvóti hjá ömmu og allir máttu fá eins og þeir gátu í sig látið. Í næsta nágrenni við bústaðinn er sundlaug og þangað fórum við Hulda systir og Maggi frændi og vorum helst í nokkra tíma í senn. Ef amma kom með náði hún alltaf að minna okkur á að hún ætti glæstan feril að baki í íþróttinni. Það var einmitt amma sem kenndi mér að stinga mér. Sú kennsla fór fram fyrir austan og það voru miklir tilburðir þegar sú gamla stóð á bakkanum með blómasundhettuna og stakk sér svo í tignarlegum boga ofan í laugina.

Amma tók líka alltaf eitthvað með sér sem hún gæti setið með í höndunum. Hún var að sauma í, gera litlar fígúrur úr filti, perlusaum og blóm úr lituðum nælonsokkum svo eitthvað sé nefnt. Mér skildist að hannyrðabúðirnar í Danmörku væru himneskar. Amma sótti efniviðinn og hugmyndir m.a. í dönsku blöðin og hélt til haga í möppu. Möppuna góðu fékk ég eitt sinn lánaða þegar ljóst var að ég hafði erft hæfileikann í beinan kvenlegg. Ömmu þótti gaman að skoða það sem ég var að föndra eða sauma. Fyrst þurfti hún að handfjatla efnið og athuga hvort það væri nógu gott í því, svo snaraði hún stykkinu á rönguna til þess að skoða fráganginn. Skaut hökunni upp á við með gleraugun framan á nefinu og maður stóð með andakt og beið eftir að dómur yrði kveðinn upp. Það var nefnilega þannig að rangan skipti einhvern veginn meira máli en réttan. Amma var mér mikil hvatning og gaukaði oft að mér hugmyndum og efnisbútum. Þarna áttum við orðið sameiginlegt áhugamál sem varð okkar tenging eftir að ég varð eldri. Við mæðgurnar fengum einu sinni heimboð í Grænó og erindið var að skoða í skápana hennar ömmu og grisja. Afi varð svona líka lukkulegur og hélt að nú yrði meira pláss fyrir skyrturnar hans sem hann áleit að hefðu verið aðþrengdar mjög í sambúðinni við öll efnin. Uppskeran varð tveir fullir ruslapokar af efnum sem ég er enn að nýta í dag en því miður fyrir skyrturnar þá sá varla högg á vatni.

Amma hét á mig að þegar ég kláraði framhaldsnám mitt þá skyldi hún gefa mér saumavél. Það stóð heldur ekki á því og ég man eftir þegar þau afi komu og hann fékk auðvitað að bera vélina upp alla stigana með tilsögn frá ömmu. Þegar inn var komið var honum samt betra að leggja hana frá sér því þessu hefði hann allavega ekki vit á! Þó svo að amma virtist upptekin við sín verk var hún lunkin við að hafa góðar gætur á afa og ekki spör á óumbeðnar athugasemdir og ráðgjöf. Afi lét alltaf eins og hann væri að fara á límingunum yfir þessu en ef amma lét hana í friði þá var hann fljótur að finna leið til þess að kynda undir aftur.

Þegar ég kynnti ömmu fyrir Finnboga tók hún honum opnum örmum og þótti hann mikill sómapiltur svo bætti hún alltaf við í restina "og ekki skemmir nafnið". Hrafnhildur og Bjarki kynntust langömmu líka lítillega og er mér minnisstæð ein heimsókn okkar til hennar í Borgarnes en þar dvaldist hún vegna Alzheimer-sjúkdóms. Þau voru með leikföng með sér og bækur. Það lifnaði yfir langömmu þegar hún var að hjálpa Hrafnhildi að klæða dúkkuna í heimaprjónuð dúkkuföt. Hún strauk um fötin og handfjatlaði lengi. Svo kom glampi í augun þegar hún þekkti Pallabókina og við lásum öll saman Palli var einn í heiminum. Þetta var notaleg stund fyrir okkur öll.

Ég var að ræða við börnin og útskýra fyrir þeim að nú væri langamma dáin og ætlaði að vera hjá Guði. Hrafnhildur sem er tæplega fjögurra ára vildi strax fá að vita hvernig maður flytur til Guðs. Þar væru Kátur og Hulda frænka og allir englarnir. Hún verður því í góðum félagsskap og við hin getum yljað okkur við minninguna um ömmuna okkar sem við kveðjum í dag.

Hrönn.