Athygli vekur að hætt var við að hafa íslenskan bás á CeBIT-vörusýningunni vegna ónógrar þátttöku, en tugir íslenskra fyrirtækja hafa sýnt þar á undanförnum árum. Árni Matthíasson kannaði stöðu íslensks hugbúnaðariðnaðar í ljósi þessa.

Eftir þrjár vikur hefst í Hannover í Þýskalandi CeBIT-skrifstofutæknisýningin, mesta sýning sinnar tegundar, en á henni sýna ríflega 6.000 fyrirtæki varning sinn á um 350.000 fermetrum fyrir hátt í 200.000 gesti. Íslensk fyrirtæki hafa tekið þátt í CeBIT árum saman og undanfarin átta ár hefur Útflutningsráð þannig staðið fyrir því að þar væri sérstakur íslenskur sýningarbás. Nú ber svo við aftur á móti að enginn íslenskur bás verður á CeBIT, enda reyndist ekki nægur áhugi fyrir slíku hjá íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum; það vildi ekki nema eitt íslenskt fyrirtæki sýna á slíkum bás. Þessi tíðindi vekja spurningar um stöðu íslensks hugbúnaðariðnaðar sem átti að verða ein helsta undirstaða hagvaxtar framtíðarinnar; er hann kominn svo að fótum fram að ekki sé neitt til að kynna erlendis?

Útflutningsráð hafði frumkvæði

Útflutningsráð stóð fyrir því að settur yrði upp íslenskur bás á CeBIT-sýningunni 1996 og tóku þá sjö íslensk fyrirtæki þátt í sýningunni, Hugur hf., Hugbúnaður hf., Auglýsingastofa Reykjavíkur, Tölvumyndir, Tölvumiðlun, Póstur og sími og Landsteinar. Ári síðar voru þau aftur sjö; Fjárfestingarskrifstofa Íslands, Hugbúnaður, Hugur, Landsteinar, Margmiðlun, Memphis og Netverk.

Árið 1998 má segja að bjartsýnin í tölvuheiminum hér á landi sé í hámarki því þá tóku átján fyrirtæki þátt í sýningunni á bás Útflutningsráðs: Fakta, HB International (Hugbúnaður), Hugvakinn, Landsteinar International, Multimedia Consumer Services (Margmiðlun), Memphis International, Netverk, Oz Interactive, Softa, Tæknival, Tölvubankinn, Gagarin, Thor, Softis, Foxtrot, SKÝRR, Juventus/Prism/Úrlausn-Aðgengi og Fjárfestingarskrifstofa Íslands.

Árið 1999 fækkaði í hópnum því þá voru fyrirtækin aðeins fimm, Fakta, Hópvinnukerfi, Hugbúnaður, Netverk og Landsteinar International.

Árið 2000 sýndu aðeins þrjú íslensk fyrirtæki á CeBIT; Landsteinar Ísland, Memphis og HB International, en Landsteinar sýndu reyndar í þremur hlutum ef svo má segja, þrjár ólíkar deildir innan fyrirtækjasamsteypunnar.

Sýnendur 2001 voru aftur fimm: Net-Albúm, UBICS á Íslandi, Memphis International, Hugbúnaður International og Menn og mýs, en 2002 fækkaði fyrirtækjunum enn, voru aðeins fjögur: HB International eða Hugbúnaður, Juventus, Snerpa og Teikn á lofti.

Á síðustu CeBIT-sýningu voru fyrirtækin aftur orðin fimm, HB International /Hugbúnaður, Kögun, Snerpa og Design Europa, en einnig hafði fyrirtækið Vagnsson aðstöðu á básnum.

Að þessu sinni verður svo enginn íslenskur bás á CeBIT eins og getið er; ekki sýndu nógu mörg fyrirtæki því áhuga að vera með á íslenska básnum. Að sögn Útflutningsráðs lýsti aðeins eitt fyrirtæki áhuga sínum á að vera með og því ljóst að ekki væri næg þátttaka til að það stæði undir kostnaði við að halda básnum úti.

Ýmsar skýringar

Ýmsar skýringar eru eflaust á því af hverju ekkert íslenskt fyrirtæki hyggst taka þátt í CeBIT-sýningunni að þessu sinni og til að mynda segir Pall Hjaltason, framkvæmdastjóri Hugbúnaðar / HB International, sem verið hefur með öll árin sem Útflutningsráð hefur haldið úti bás CeBIT, að fyrirtækið hafi einfaldlega ákveðið að taka þátt í annarri sýningu sem henti því betur. "Við stóðum frammi fyrir því að nánast öll þau fyrirtæki sem við eigum í samskiptum við og þurfum að hitta reglulega ætla að taka þátt í annarri sýningu sem ætluð er fyrir verslunarkerfi," segir Páll, en HB International selur hugbúnað fyrir sjóðsvélar og hefur náð góðum árangri. Páll segir að þetta hafi í raun ekki verið erfitt val, ekki sé bara að mun ódýrara sé fyrir fyrirtækið að sleppa CeBIT og taka bara þátt í hinni sýningunni, heldur séu starfsmenn ekki svo margir að hægt sé að hafa nokkra menn upptekna við að undirbúa þátttöku í sýningu, fara síðan utan og vera á sýningunni og vinna svo þá miklu vinnu sem fylgi í kjölfarið. "Við þurftum hvort er að taka þátt í sjóðsvélasýningunni og því hentaði það okkur betur að fara þá leið núna," segir Páll og segir að ekki megi skilja þetta sem svo að HB International muni aldrei aftur taka þátt í CeBIT. "Þátttaka í CeBIT skiptir talsverðu og þá að vera helst með á hverju ári, að líta á það sem langtímaverkefni að vera með í slíkri sýningu," segir hann.

Við þetta er svo því að bæta að alltaf er eitthvað um það að íslensk fyrirtæki sýni á CeBIT í samvinnu við erlenda aðila, ýmist sem hluti af því sem viðkomandi samstarfsaðili er að sýna eða með aðstöðu á bás. Einnig hafa íslensk fyrirtæki tekið þátt í sýningunni á annan hátt eins og þegar OZ sá um stóran hluta af kynningu á bás Ericsson fyrir nokkrum árum. Svo má ekki gleyma því að þau fyrirtæki sem eru einna umsvifamest í útflutningi á hugbúnaði hafa ekki verið með á sýningarbás Útflutningsráðs á CeBIT, enda eru þau ekki eiginleg hugbúnaðarfyrirtæki eins og til að mynda Marel, sem selur vinnsluvélar, vogir og ýmsan rafeindabúnað sem þarf hugbúnað til að keyra. Slík fyrirtæki og einnig þau sem selja sérhæfðan hugbúnað, til dæmis fyrir flugumferðastjórn, eiga ekki svo mikið erindi á CeBIT; þau fara á sérsýningar sem tengjast beint þeim markaði sem þau leita inn á.

Fyrirtæki horfin eða gerbreytt

Þótt minni þátttaka í CeBIT eigi sér margar eðlilega skýringar eins og getið er segir það sitt um þróunina að mörg fyrirtækjanna sem nefnd eru í upptalningunni hér fyrir ofan eru ekki til lengur, hafa mörg gerbreytt starfsemi sinni eða eru komin í hendur nýrra eigenda. Þannig á Kögun nú Landsteina-Streng og Hug, Tæknival er komið í hendur nýrra eigenda, Netverk er gjaldþrota o.s.frv. Starfsumhverfi fyrirtækja á þessu sviði hefur líka verið erfitt undanfarin ár, ekki síst eftir að fjárfestar og fjármálastofnanir hættu að leggja fé í slíkan rekstur eða lána til hans eftir hrunið mikla fyrir fjórum árum. þegar í ljós kom að fjölmörg fyrirtæki sem menn höfðu lagt fé í voru í raun ekki með neinn rekstrargrundvöll. Þetta bitnaði þó ekki bara á vonlausum fyrirtækjum, sem aldrei átti að leggja fé í, heldur einnig á lífvænlegum fyrirtækjum, fyrirtækjum sem voru með varning sem markaður var fyrir en fé skorti til markaðssóknar og þróunar.

Annað sem "uppsveiflan mikla" hafði í för með sér var að sprotafyrirtækin áttu skyndilega í erfiðleikum með að halda í starfsmenn, því þau fjölmörgu fyrirtæki sem gerðu út á vonarstjörnur buðu svo hressileg laun að fyrirtæki sem voru að reyna að halda sig innan greiðslugetu gátu ekki keppt við það. Alvanalegt var að hálfmenntuð ungmenni, sem hætt höfðu í skóla til að fleyta rjómann, færu fram á 3-400.000 króna byrjunarlaun og reyndir og hæfir starfsmenn vildu eðlilega mun meira. Fyrir vikið segja margir að smáfyrirtæki á hugbúnaðarsviðinu hafi ekki getað fengið hæfan mannskap þegar á reyndi og svo þegar menn voru aftur til í að vinna á skaplegri launum var það um seinan; viðkomandi fyrirtæki þraut örendi vegna manneklu á ögurstundu.

Í skýrslu tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands um útflutning hugbúnaðar árið 2002 kemur meðal annars fram að fyrstu tölur um útflutning 2001 bentu til þess að hann hefði aukist um 12,3% frá árinu áður, en eftir leiðréttingar stórs fyrirtækis í hugbúnaðargerð á útflutningstekjum minnkaði útflutningur á hugbúnaði milli áranna 2000 og 2001 um 7,1%. Útflutningur 2002 jókst aftur á móti um milljarð króna frá fyrra ári eða um 39%. Í samantektinni kemur einnig fram að útflutningur hugbúnaðar hefur aukist úr 33 milljónum króna árið 1990 í 3.625 milljónir króna árið 2002 mælt á meðalgengi þess árs. Hlutfall af heildarútflutningi vöru og þjónustu hefur hækkað úr 0,02% 1990 í tæp 1,2% 2002.

Í skýrslunni kemur einnig fram að umtalsverðar breytingar hafa orðið á hlutfalli milli markaðssvæða, því 1992 var Norður-Ameríka stærsta markaðssvæðið með 72% útflutningsins, en 2002 voru rúmlega 64% útflutnings hugbúnaðar og tölvuþjónustu til Evrópu en innan við 30% til Norður-Ameríku. Þetta helst í hendur við breytta samsetningu hugbúnaðarins, þ.e. hlutur staðlaðs hugbúnaðar hefur farið vaxandi á kostnað sérhannaðs.

Eðlileg þróun

Hvað varðar breytt hlutföll staðlaðs og sérhannaðs hugbúnaðar þá var útflutningur helst á sérhönnuðum hugbúnaði á árum áður, þar sem íslensk fyrirtæki voru að leysa lausnir sem aðrir höfðu ekki komið auga á eða gátu ekki gert eins vel, eins og til að mynda vírusavörn eða hugbúnað fyrir nafnamiðlara svo dæmi séu tekin. Þegar útflutningur var lítill hafði sala á slíkum búnaði meira vægi í útflutningi en í þeim löndum þar sem hugbúnaðarþróun var lengra á veg komin. Hlutfall milli markaðssvæða skýrist einnig af þessu að mestu leyti þótt ekki sé farið frekar í það hér. Þróunin hér á landi er því eðlileg, þ.e. æ stærra hlutfall hlýtur að verða af stöðluðum hugbúnaði, en einnig hlýtur hlutur ráðgjafar, gagnavinnslu og ámóta að fara vaxandi eftir því sem iðnaðurinn verður þróaðri.

Þótt nokkuð samfelld aukning hafi verið á útflutningi á hugbúnaði, stöðug veltuaukning og hraðari en í öðrum atvinnugreinum, hefur rekstur þeirra verið erfiður og erfiðleikarnir aukist með hverju árinu að því er fram kemur í samantekt Hrannar Helgadóttur á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands á útflutningi hugbúnaðar 2001. Þar kemur fram að hagnaður sem hlutfall af rekstrartekjum var 0,5% árið 1998 en árið 2000 var tapið orðið 23,1% af rekstrartekjum.

Of lítill heimamarkaður

Vandamálin sem blasa við íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum eru kannski helst þau að heimamarkaður er ekki nógu stór til að standa undir þeirri þróun sem þarf oft til að sníða til lausnir sem hægt er síðan að flytja út. Þar skiptir miklu máli hve mikið af hugbúnaði er samið innan ríkisstofnana að sögn viðmælenda í hugbúnaðarheiminum. Þeir segja að um tíma hafi dregið úr því að saminn væri hugbúnaður í tölvudeildum ríkisfyrirtækja og -stofnana, en því miður hafi sú þróun gengið til baka að mestu leyti. Eins er mikið samið af hugbúnaði á tölvudeildum fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga.

Samtök íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja hafa gagnrýnt þessa þróun enda hafi skattayfirvöld ekki gengið á eftir því að greiddur sé virðisaukaskattur af slíkri starfsemi á tölvudeildum ríkisfyrirtækja og -stofnana og tryggingafélaga, en þar sem hugbúnaðargerð sé ekki hluti af kjarnastarfsemi fyrirtækjanna og stofnananna eigi skilyrðislaust að greiða virðisaukaskatt af henni og vandséð hvernig virðisaukaskattsskyld einkarekin hugbúnaðarfyrirtæki eigi að geta keppt við slíka starfsemi.

Óhætt er að taka undir það sjónarmið að ein besta leiðin til að tryggja að hér skapist markaður fyrir íslenskan hugbúnað sé að opinberir aðilar séu ekki í samkeppni við einkarekin fyrirtæki. Aðrir hafa líka bent á að stjórnvöld geti lagt hugbúnaðarfyrirtækjum lið, meðal annars við markaðsstarf, og benda á í því sambandi að stjórnvöld í Ástralíu greiði til að mynda allan kostnað fyrir áströlsk fyrirtæki sem taka þátt í vörusýningum eins og CeBIT erlendis, en fyrirtæki greiði laun starfsmanna sem þau senda á sýningarnar og að auki kynningarefni. Eins hafa dönsk stjórnvöld stutt myndarlega við bakið á ýmsum útflutningsgreinum, þar á meðal hugbúnaði, og sænsk einnig.

Ef lausnin er góð...

Gjalda ber þó varhug við að treysta um of á afskipti ríkisvaldsins; í hugbúnaðarþróun eins og á öðrum sviðum fer best á því að stjórnvöld skapi hagstæð skilyrði fyrir starfsemi fyrirtækja en þau síðan beri ábyrgð á eigin framleiðslu og þróun. Ef lausnin er góð á hún eftir að ná eyrum manna og viðkomandi fyrirtæki síðan ná árangri ytra, hvort sem það verður í gegnum viðskiptasambönd sem aflað er á CeBIT eða með því að velja rétta samstarfsaðila.

Hér til hliðar er sögð sagan af EJS sem var um tíma með helstu útrásarfyrirtækjum íslenskum en hefur nú gengið í gegnum talsverða erfiðleika og endurskipulagningu sem meðal annars hefur byggst á því að hætta hugbúnaðarþróun innan fyrirtækisins. Varlega verður að fara í að draga ályktanir af sögu EJS hvað varðar íslenska hugbúnaðarþróun, en þó má segja að reynslan hafi sýnt að sígandi lukka er best. HB International er ágætt dæmi um fyrirtæki sem hefur byggt sig upp smám saman og svo komið í dag að um 95% af tekjum fyrirtækisins eru vegna erlendra viðskipta. Þar á bæ glíma menn þó við sama vandamál og ömnnur hugbúnaðarfyrirtæki, rekstur er sveiflukenndur og svo ýktar geta sveiflurnar orðið að rekstarafgangur eitt ár getur verið meiri en heildarveltan árið á undan, ekki ósvipað því að vera síldarsjómaður á árum árum þar sem skattarnir eftir eitt árið voru hærri en tekjurnar það næsta.

Það getur verið erfitt að standast slíkar sveiflur, ekki síst þar sem fjármálastofnanir og fjárfestar eiga eftir að jafna sig á skellnum mikla þegar menn kepptust um að dæla fé í fyrirtæki sem sum hver höfðu óljós eða engin rekstrarmarkmið. Íslenskur hugbúnaðarmarkaður á enn eftir að komast af vertíðarstiginu en vonandi eiga þrengingar undanfarinna ára eftir að skilja hafrana frá sauðunum svo eftir standi skilvirkari og betur rekin fyrirtæki sem eru ekki að leita að stundargróða heldur að byggja upp traust hugbúnaðarfyrirtæki með það fyrir augum að vera enn að eftir áratug og áratugi.

arnim@mbl.is