Elvar Steinn Þorkelsson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, og Klaus Holse Andersen, forstjóri Microsoft fyrir Norður-Evrópu.
Elvar Steinn Þorkelsson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, og Klaus Holse Andersen, forstjóri Microsoft fyrir Norður-Evrópu. — Morgunblaðið/Sverrir
MICROSOFT vill stuðla að því að fólk og fyrirtæki geri sér betur grein fyrir þeim möguleikum sem upplýsingatæknin hefur upp á að bjóða. Þetta segir Klaus Holse Andersen, forstjóri Microsoft fyrir Norður-Evrópu, að sé markmið Microsoft-fyrirtækisins.

MICROSOFT vill stuðla að því að fólk og fyrirtæki geri sér betur grein fyrir þeim möguleikum sem upplýsingatæknin hefur upp á að bjóða. Þetta segir Klaus Holse Andersen, forstjóri Microsoft fyrir Norður-Evrópu, að sé markmið Microsoft-fyrirtækisins. Hann segir að Microsoft hafi sett sér þetta markmið fyrir um þremur árum. Þetta sé ögrandi verkefni að vinna að, eflaust meira ögrandi en það sem fyrir var, eða að einkatölva verði á hverju skrifborði.

Andersen var hér á landi í byrjun þessarar viku í tilefni af opnun skrifstofu Microsoft í Reykjavík. Af því tilefni kom fram í máli Elvars Steins Þorkelssonar, framkvæmdastjóra Microsoft Íslandi, að ætlunin sé að auka þjónustu fyrirtækisins við þá sem vinna að Microsoft-lausnum fyrir Íslendinga og bæta aðgengi að vörum og þjónustu Microsoft.

Alls starfa sjö manns hjá Microsoft Íslandi. Segir Andersen að gera megi ráð fyrir að starfsmennirnir verði orðnir 15-20 innan þriggja ára, þegar starfsemi skrifstofunnar verður komin á fullt.

Andersen hefur starfað hjá Microsoft í þrjú ár. Hann tók á síðasta ári við yfirumsjón með starfsemi fyrirtækisins í Norður-Evrópu, þ.e. á Norðurlöndunum, þar með á Íslandi, og á Írlandi. Hann starfaði áður hjá Oracle-hugbúnaðarfyrirtækinu, þar sem hann komst í kynni við Elvar Stein fyrir rúmum áratug, en hann var um árabil framkvæmdastjóri og forstjóri Teymis, sem hafði umboð fyrir Oracle-hugbúnað hér á landi.

Hjálpa við verðmætasköpun

"Við höfum unnið að því að undanförnu að koma skrifstofunni hér á landi á fót," segir Andersen. "Það er töluverð fjárfesting að stofna Microsoft-skrifstofu, en við teljum þetta vera fjárfestingu sem nauðsynlegt sé að ráðast í. Við viljum vita hvað er sérstakt við hvern þann markað sem við seljum inn á og hvernig við getum aðlagað framleiðsluvörur Microsoft að þeim þörfum sem eru á hverjum stað.

Á Íslandi er sterk tilhneiging til að varðveita tungumálið og menninguna. Við viljum vita um þessa þætti og hafa skilning á þeim, til að geta með sem bestum hætti tekið tillit til þeirra. Og þar sem við viljum að hin nýja sýn Microsoft verði að veruleika hér á landi sem annars staðar, í fullri sátt við fólkið, tungumálið, menninguna, var nauðsynlegt að opna skrifstofu hér, með heimamönnum sem hafa skilning á þörfunum hér. Þess vegna er það hlutverk Microsoft Íslandi að upplýsa bæði fólkið og fyrirtækin hér á landi um hvað Microsoft hefur fram að færa, en jafnframt að upplýsa Microsoft um þarfirnar."

Andersen segir að það greini Microsoft frá ýmsum öðrum hugbúnaðarfyrirtækjum að Microsoft útvegi grunninn fyrir aðra til að byggja á en fyrirtækið sé ekki í beinni þjónustu og keppi því ekki við samstarfsaðila sína. Í dag nýti mörg íslensk fyrirtæki sem og erlend fyrirtæki þann grunn sem Microsoft útvegi og byggi sínar eigin lausnir ofan á hann.

Hann segir að það hafi verið kannað að í sumum löndum sé staðan orðin sú að útflutningur, sem byggir á þeim grunni sem Microsoft útvegar, sé orðinn meiri en heildarinnflutningur landanna á hugbúnaðinum frá Microsoft. Þannig sé Microsoft að leggja til grunninn að aukinni verðmætasköpun en vilji sé til þess hjá fyrirtækinu að sjá þetta gerast sem víðast.

"Við viljum vinna að því að hjálpa fyrirtækjum til aukinnar verðmætasköpunar. Það er hægt að gera með því að tengja fyrirtæki og þjónustu betur saman, til að mynda í gegnum Netið. Liður í þessu er einnig að gera Netið öruggara en nú er. Það nýtist ekki eingöngu fyrirtækjunum heldur einnig neytendum, og þ.m.t. heimilunum. Að þessu er verið að vinna hörðum höndum hjá Microsoft," segir Klaus Holse Andersen.

Elvar Steinn hefur unnið að opnun skrifstofu Microsoft Íslandi í rétt um eitt ár. Hann segir að á þessum tíma hafi hann, og aðrir sem að undirbúningnum hafi komið, upplýst Microsoft um stöðuna hér á landi. Þá hafi einnig verið rætt við fulltrúa fjölmargra fyrirtækja, bæði stórra og lítilla, um stöðuna í hugbúnaðarmálunum, sem og við fulltrúa ríkisins til að fá upplýsingar um hvaða stefnu ríkið hefur t.d. varðandi þýðingu hugbúnaðar yfir á íslensku o.fl. Víða hafi því verið komið við á liðnu ári.

Hann segir að Microsoft Íslandi muni bjóða fram sérfræðiþekkingu til handa samstarfsaðilum sínum, til að þeir geti veitt viðskiptavinum sínum enn betri þjónustu en nú er. Markmiðið sé m.a., eins og Andersen kom inn á, að stuðla að því að útflutningur sem byggir á Microsoft hugbúnaði verði meiri en innflutningurinn á hugbúnaði frá Microsoft. Þannig geti þjóðfélagið í heild hagnast af starfsemi Microsoft, bæði hér á landi og annars staðar.

"Lausnirnar geta verið þær bestu í heimi en þær skila sér ekki að fullu ef þær eru ekki nýttar til hins ýtrasta. Við Íslendingar höfum dregist þekkingarlega aftur úr varðandi innleiðingu hugbúnaðar. Það eru næg verkefni fyrir hugbúnaðarfólk og fyrirtæki við að taka viðskiptaleg vandamál og koma þeim yfir í þau kerfi sem til eru og aðlaga þau. Þarna er þekkingarbrestur og þar ætlum við að koma inn og bjóða upp á námskeið og fleira, sem við ætlum að ýta að samstarfsaðilum okkar.

Við Íslendingar erum góðir í því að tileinka okkur allt heila upplýsingatæknisviðið. Með því að dreifa þannig kröftunum verður hins vegar ekki til sú sérhæfing sem nauðsynleg er í dag. Við viljum hjálpa samstarfsaðilum okkar til að finna þau sérstöku svið sem þeir gætu einbeitt sér að, til að verða bestir hver á sínu sviði. Það kemur sér best fyrir viðskiptavini okkar og þar með samstarfsaðilana sjálfa. Við það skapast virðisauki sem allir hagnast á," segir Elvar Steinn Þorkelsson.