— Morgunblaðið/Þorkell
LÁTIÐ er að því liggja í umfjöllun breskra fjölmiðla í gær, að kaup KB banka á 10% hlut í breska fjárfestingarbankanum Singer & Friedlander í fyrradag geti á endanum leitt til yfirtökutilboðs KB banka. Það mun þó a.m.k. ekki gerast innan sex mánaða.

LÁTIÐ er að því liggja í umfjöllun breskra fjölmiðla í gær, að kaup KB banka á 10% hlut í breska fjárfestingarbankanum Singer & Friedlander í fyrradag geti á endanum leitt til yfirtökutilboðs KB banka. Það mun þó a.m.k. ekki gerast innan sex mánaða. Yfirlýsing KB banka um að bankinn hafi ekki í hyggju að yfirtaka Singer & Friedlander, hefur það í för með sér, samkvæmt yfirtökureglum á breskum fjármálamarkaði. Þrátt fyrir yfirlýsinguna segja fjölmiðlarnir yfirtökutilboð alls ekki útilokað.

Í frétt í Independent er vísað til þess að Kaupþing, en KB banki er sagður þekktur undir því nafni, sé almennt álitinn ágengur banki sem skili miklum hagnaði. Hann hafi vaxið mjög hratt á síðastliðnum þremur árum, einmitt með kaupum og yfirtökum á fjármálafyrirtækjum.

Í frétt Financial Times segir að flestir óháðu viðskiptabankarnir, sem fyrr á árum hafi sett svip sinn á fjármálahverfið í Lundúnum, hafi horfið af sjónarsviðinu. Singer & Friedlander sé þar þó enn, en hugsanlega ekki lengi. Kaup KB banka á auknum hlut í Singer hafi kynt undir bollaleggingar um yfirtöku. Yfirtaka KB banka á Singer yrði hins vegar stór biti fyrir KB banka til að gleypa. Markaðsverð Singer & Friedlander sé um 470 milljónir punda, jafnvirði um 60 milljarða íslenskra króna, sem er um helmingur af markaðsverði KB banka, en það er tæplega 130 milljarðar íslenskra króna.

John Hodson, forstjóri Singer & Friedlander, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann hefði tvisvar sinnum hitt fulltrúa KB banka, sem sé nú stærsti hluthafinn í Singer & Friedlander. Um kaup bankans á hlutabréfum í Singer & Friedlander hafi hann hins vegar ekkert að segja, þar sem hann viti ekkert sem hægt sé að segja frá.

Maður að nafni Julius Singer stofnaði verðbréfafyrirtæki í Lundúnum árið 1907. Fimm árum síðar gekk Ernst Friedlander til liðs við Singer, en fjölskylda Friedlander hafði starfað að bankamálum í Berlín frá árinu 1832. Friedlander hafði stofnað fyrsta viðskiptabankann í Suður-Afríku og var m.a. formaður stjórnar kauphallarinnar í Jóhannesarborg.

Þeir Singer og Friedlander sneru sér að almennri bankastarfsemi á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar en það var svo árið 1920 sem banki þeirra fékk nafnið Singer & Friedlander.

Singer og Friedlander Group var skráð í Kauphöllinni í Lundúnum árið 1987. Fram að þeim tíma hafði bankinn verið í eigu þriggja aðila. FT segir að bankinn hafi starfað á ýmsum sviðum í gegnum árin. Hann hafi m.a. hagnast vel á því að kaupa eignarhluti í ýmsum fyrirtækjum sem síðan hafi verið seldir. Hefur FT eftir John Hudson forstjóra að staðan sé sú nú, að bankinn hafi leitað aftur til upprunans og muni einbeita sér að sérhæfðri lánastarfsemi og eignastýringu.

Helmingi færra starfsfólk en í KB banka

Höfuðstöðvar Singer & Friedlander eru í Lundúnum en bankinn er jafnframt með starfsstöðvar á nokkrum öðrum stöðum á Bretlandseyjum. Helstu eigendur eru fjármálastofnanir, tryggingafélög, lífeyrissjóðir og um þrjú þúsund einstaklingar. Starfsmenn Singer & Friedlander Group eru um 650 talsins. Það er um helmingur af starfsmannafjölda KB banka, en þeir eru rúmlega 1.200 talsins.

Ekki hefur verið greint frá afkomu Singer & Friedlander Group fyrir árið 2003 en það verður væntanlega gert síðar í dag. Hagnaður samstæðunnar af reglulegri starfsemi fyrir skatta á miðju síðasta ári var 14,7 milljónir punda, um 1,9 milljarðar íslenskra króna. Á sama tímabili árið áður var hagnaðurinn 18,8 milljónir punda en fyrir allt það ár var hagnaðurinn 41,3 milljónir punda, um 5,3 milljarðar íslenskra króna.

Hreinar vaxtatekjur Singer & Friedlander á fyrstu sex mánuðum síðasta árs námu 38,4 milljónum punda, aðrar rekstrartekjur voru 13,6 milljónir punda og hreinar rekstrartekjur því 52,0 milljónir punda. Hreinar rekstrartekjur fyrir allt árið á undan námu 107,6 milljónum punda.

Heildareignir Singer & Friedlander á miðju síðasta ári námu rúmum 2,3 milljörðum punda, um 300 milljörðum íslenskra króna. Það er rétt rúmlega helmingur af heildareignum KB banka, sem námu um 560 milljörðum króna um síðustu áramót.Margt í sambandi við samanburð á Singer & Friedlander og KB banka virðist vera þannig að sá fyrrnefndi er um helmingur af þeim síðarnefnda.

Tvöföld hækkun á einu ári

Lokaverð hlutabréfa í Singer & Friedlander í Kauphöllinni í Lundúnum var 244,5 pens á hlut en var 245,0 pens daginn áður. Verðið er nú um tvöfalt hærra en það var fyrir árið síðan.

Gengið bréfanna var í kringum 120 fram á síðastliðið vor en þá fór það að hækka og var í kringum 160 er komið var fram í ágúst í fyrra. Gengið hækkað hratt í októbermánuði og um það leyti er Kaupþing Búnaðarbanki tilkynnti að bankinn ætti orðið tæplega 6% hlut í félaginu í lok þess mánaðar var gengið komið í um 190 og fór yfir 200 30. þess mánaðar. Í þessum mánuði fór gengið yfir 220 og hefur haldið áfram að hækka, það fór í 245 pens á hlut í fyrradag. Tæplega tvö ár eru liðin frá því gengi hlutabréfa félagsins hefur farið yfir 240.