Magnús Smith
Magnús Smith
"VIÐ finnum fyrir gríðarlegum áhuga og það munu ótal margir fylgjast grannt með því hvernig þeim á Daðeynni gengur að nota beitningarvélina," segir Magnús Smith, framkvæmdastjóri Sjóvéla, umboðsaðila Mustad á Íslandi.

"VIÐ finnum fyrir gríðarlegum áhuga og það munu ótal margir fylgjast grannt með því hvernig þeim á Daðeynni gengur að nota beitningarvélina," segir Magnús Smith, framkvæmdastjóri Sjóvéla, umboðsaðila Mustad á Íslandi.

Daðey er búin fullkomnu 15 þúsund króka beitningarkerfi frá Mustad, sambærilegu og er um borð í stóru beitningarvélaskipunum en bara smærri í sniðum. Búnaðurinn samanstendur af línuspili, uppstokkara, rekkakerfi og beitningarvél.

Magnús segir að minni beitningarvélar séu víða að ryðja sér til rúms, m.a. í Noregi og Bandaríkjunum. "Þessi búnaður er það sem koma skal. Hann rúmast vel í stærri smábátum, 12 til 15 tonna bátum, og útgerðir stærri skipa hafi einnig sýnt vélinni mikinn áhuga. Það má vel koma beitningarvélini fyrir um borð í stærri skipum, þó svo verið sé að stunda veiðar með öðru veiðarfæri. Þannig geta menn skipt yfir á línu með mjög skömmum fyrirvara og aftur yfir á t.d. dragnót, troll eða net ef þeim sýnist svo. Þannig ná menn aukinni hagkvæmni út úr þeirri fjárfestingu sem eitt fiskiskip er. Útgerðir margra skipa hafa að undanförnu fjárfest í línubeitningarvélum og mér virðist sem línan sé að slá í gegn."

Magnús segist sannfærður um að beitningarvélar muni verða algengar í næstu kynslóð krókabáta. "Það fylgja því ótal kostir að hafa línubeitningarkerfi. Þá þarf ekki aðstöðu í landi til að beita línuna eða stokka hana upp, með tilheyrandi kostnaði og mannafla. Þannig verða menn auk þess ekki bundnir þeim miðum sem næst liggja beitningarskúrnum. Auk þess lækkar beitukostnaður til muna og beitan er alltaf ferskari og þar af leiðandi veiðnari á línunni. Þá þarf svona bátur ekki að liggja með tvöfaldan eða þrefaldan skammt af línu. Á móti kemur að það þarf þrjá menn til að vinna við kerfið um borð í stað tveggja við handbeitta línu."

Magnús segir mikla þróun hafa orðið í línuveiðum á undanförnum árum. "Þó að krókaveiðar séu í sjálfu sér forn aðferð þá hefur orðið stöðug þróun í gerð veiðarfærisins. En þróunin hefur samt orðið mest í upplýsingakerfum tengdum línuveiðum, svokölluðum line-tech-kerfum. Með þeim má fylgjast með nánast öllu sem viðkemur veiðunum. Þessi kerfi og bætt veiðarfæri hafa svo sannarlega sannað gildi sitt, það má einfaldlega sjá á auknum afla stóru línubátanna. Þá hafa orðið miklar framfarir í Mustad-beitningarvélinni sjálfri. Hinn svonefndi Roto-baiter-beituhaus kom á markaðinn fyrir fimm árum og nýr uppstokkari stokkar línuna upp nánast 100%. Þar hefur létt mikið á mannskapnum," segir Magnús.