HAGNAÐUR Skýrr þegar tekið hefur verið tillit til skatta nam 179 milljónum króna á síðasta ári en á árinu 2002 nam tap félagsins 55 milljónum króna. Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur Skýrr 2.274 milljónum króna á árinu 2003, en 1.958 millj.

HAGNAÐUR Skýrr þegar tekið hefur verið tillit til skatta nam 179 milljónum króna á síðasta ári en á árinu 2002 nam tap félagsins 55 milljónum króna.

Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur Skýrr 2.274 milljónum króna á árinu 2003, en 1.958 millj. kr. árið 2002. Tekjurnar jukust því um 16% milli ára. Rekstrargjöld ársins án afskrifta námu 1.871 milljón en voru 1.690 milljónir árið 2002. Gjöldin hækka um 11% milli ára.

EBITDA hagnaður 403 milljónir króna

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 403 milljónum króna en var 269 milljónir króna árið 2002.

Afskriftir námu á síðasta ári 162 milljónum króna en voru 135 milljónir árið áður. Hagnaður fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld nam 242 milljónum króna en var 134 milljónir árið 2002. Fjármagnsliðir ársins voru jákvæðir um 26 milljónir króna samanborið við 4 milljónir árið áður. Inni í fjármunatekjum er söluhagnaður upp á 54 milljónir vegna sölu á eignarhlut Skýrr í Samsýn ehf. Þá er sérstök niðurfærsla hlutabréfaeignar 56 milljónir króna á árinu sem skýrist af varúðarniðurfærslu á eignasafni Skýrr og lækkun á markaðsvirði skráðra félaga. Eignarhlutir í öðrum félögum en dóttur- og hlutdeildarfélögum eru bókfærðir á 153 millj. kr. í árslok 2003. Hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga er neikvæð upp á 3 milljónir en var neikvæð upp á 56 milljónir króna árið áður, að því er segir í fréttatilkynningu.

Heildareignir Skýrr námu 1.526 millj. kr. í árslok 2003 miðað við 1.383 millj. kr. árið 2002. Þar af voru veltufjármunir 522 millj. kr. árið 2003 en 287 millj. kr. árið 2002. Skammtímaskuldir námu 538 millj. kr. í árslok en 526 millj. kr. árið áður. Veltufjárhlutfall Skýrr var 0,97 samanborið við 0,55 árið áður. Langtímaskuldir í árslok voru 384 millj. kr. samanborið við 439 millj kr. í árslok 2002. Eigið fé var 586 millj. kr. í árslok 2003 en var 407 millj. kr. árið áður.

Eiginfjárhlutfall Skýrr var 38,4% samanborið við 29,5% árið áður. Arðsemi eigin fjár var jákvæð upp á 43,8% en var neikvæð upp á 12,4% árið áður.

Veltufé frá rekstri var 362 millj. kr. á árinu 2003 á móti 238 millj. kr. á árinu 2002. Handbært fé frá rekstri var 348 millj. kr. árið 2003 en var 205 millj. kr. árið áður.