FJÓLMUNDUR Fjólmundsson, uppfinningamaður á Hofsósi, hefur hannað og smíðað nýja gerð af sigurnagla sem reynst hefur vel á línuveiðum. Sigurnaglinn er með þrjú augu en hefðbundnir sigurnaglar eru jafnan með aðeins tvö augu.

FJÓLMUNDUR Fjólmundsson, uppfinningamaður á Hofsósi, hefur hannað og smíðað nýja gerð af sigurnagla sem reynst hefur vel á línuveiðum.

Sigurnaglinn er með þrjú augu en hefðbundnir sigurnaglar eru jafnan með aðeins tvö augu. Þriðja augað stendur út úr miðju sigurnaglans og gefur honum tvo notkunarmöguleika umfram hefðbundinn sigurnagla. Bæði er hægt að snúa hliðarauganu en einnig getur miðja sigurnaglans í raun snúist utan um sjálfa sig.

Fjólmundur segir að nýi sigurnaglinn hafi verið reyndur á línuveiðum og gefist þar vel. "Sigurnaglinn er notaður til að tengja bauju við færi og belg. Það hefur viljað brenna við að þegar línan er lögð á djúpu vatni og í slæmu veðri vill belgurinn snúast utan um færið, þannig að allt fer í eina flækju eða færið slitnar. Þegar þetta gerist verður einnig erfiðara að ná baujunni um borð í stærri línubáta. Með því að festa belg, bauju og færi í nýja sigurnaglann losna menn alveg við þetta vandamál."

Fjólmundur var sjálfur til sjós í áratugi en hefur verið iðinn í uppfinningum á síðustu árum. Hann fann m.a. upp nýjan hífingarbúnað sem hefur náð töluverðri útbreiðslu, skelpoka til hörpuskelveiða og umhverfisvænar sökkur til handfæraveiða. Aðspurður segist Fjólmundur alltaf vera að hugsa. "Uppfinningar mínar eiga það sammerkt að vera til hagræðingar og hagsbóta í daglegu amstri. Ég er alltaf að velta þessum hlutum fyrir mér. Það er reyndar farið að þrengja að mér húsnæðið sem ég hef til þessa, ég hef varla pláss til þess að hugsa," segir Fjólmundur.