RANNSÓKNIR á virðisaukavörum úr sjávarfangi er heiti nýrrar bókar sem Alda B. Möller, ráðgjafi í sjávarútvegi, hefur unnið fyrir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO).

RANNSÓKNIR á virðisaukavörum úr sjávarfangi er heiti nýrrar bókar sem Alda B. Möller, ráðgjafi í sjávarútvegi, hefur unnið fyrir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO).

Bókin fjallar um vöruþróun og þróun á markaði fyrir frystar og ferskar sjávarafurðir. Hún var unnin í samstarfi við yfir 30 framleiðslu- og markaðsfyrirtæki í öllum heimsálfum og lýsa sérfræðingar þeirra starfinu við vöruþróun og markaðsmál þegar koma skal nýjum unnum afurðum á markað. Jafnframt er fjallað um skilning manna á virðishugtakinu og þá þætti sem talið er að knýi mest áfram vöruþróun og markaðsstarfið. Í bókinni er einnig fjallað um áhrif eldisafurða á markaðinn og athygli beint sérstaklega að vöruþróun úr surimi eða frystum fiskmassa og úr flakablokkum en um þessar mundir eru 50 ár síðan farið var að nota blokk sem hráefni í unnar fiskafurðir og má telja hana grundvöll flestra hjúpaðra fiskafurða og samsettra fiskrétta allt þetta tímabil.

Bókin er skrifuð á ensku. Hún var unnin fyrir og er gefin út hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) að tilstuðlan Gríms Valdimarssonar, forstöðumanns fiskiðnaðarsviðs FAO.

Nánari upplýsingar má finna á vefslóðinni: www.globefish.org/index2.htm