Skeljungur flytur úr höfuðstöðvum sínum við Suðurlandsbraut í júní nk.
Skeljungur flytur úr höfuðstöðvum sínum við Suðurlandsbraut í júní nk. — Morgunblaðið/Ásdís
Skeljungur hefur straumlínulagað reksturinn með sölu á eignum sem ekki tengjast rekstrinum beint. Þóroddur Bjarnason rekur helstu breytingar og ræðir við forstjóra félagsins.

Olíufélagið Skeljungur hefur gengið í gegnum margvíslegar breytingar undanfarna mánuði, en skemmst er að minnast mikilla breytinga á eignarhaldi í félaginu sem hófust sl. sumar en skýrðust endanlega í síðustu viku. Um mitt sumarið seldi Shell Petrolium Company Ltd. allan hlut sinn í félaginu, 20,7%, til Sjóvár og Burðaráss og sama dag seldi Haukþing, fjárfestingarfélag í eigu Eimskips, Skeljungs og Sjóvár-Almennra, allt hlutafé sitt í Skeljungi sömuleiðis. KB banki sem hafði safnað bréfum í Skeljungi í a.m.k. eitt og hálft ár fram að þessum tíma var helsti kaupandi þeirra bréfa sem boðin voru á markaðnum og keypti á genginu 15-15,9, en sölugengi hluta Haukþings og Shell var 12. Þegar upp var staðið átti KB banki nálægt 40% í félaginu og hafði keypt á gengi á bilinu frá 7-8 og upp í 15,9 undir lokin. Í ágúst var svo tilkynnt að stærstu eigendur félagsins, Sjóvá, Burðarás og KB banki, hefðu í sameiningu stofnað félagið Steinhóla, sem síðan keypti alla hluti í Skeljungi af félögunum á genginu 15,9. Félagið var tekið af markaði og smærri hluthöfum gert tilboð í þeirra hluti á sama gengi.

Í lok janúar sl. keypti KB banki hlut Sjóvár og Burðaráss í Steinhólum og seldi síðan Steinhóla, og þar af leiðandi Skeljung, til tveggja fjárfesta, Pálma Haraldssonar kenndum við Feng og Jóhannesar Kristjánssonar, flugstjóra í Lúxemborg, í síðustu viku. Kaup þeirra Pálma og Jóhannesar eru háð jákvæðri niðurstöðu úr áreiðanleikakönnun, en ekki eru taldar líkur á að könnunin breyti neinu varðandi kaupin. Hyggjast þeir reka félagið áfram í óbreyttri mynd.

KB banki hagnaðist

Örvar Kærnested, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar KB banka, segir spurður að KB banki hafi hagnast á viðskiptunum með bréf í Skeljungi, en mörgum fannst ankannalegt síðasta sumar þegar KB banki keypti án afláts á miklu hærra gengi en í fyrrnefndum viðskiptum Haukþings og Shell og spurðu menn sig hvort bankinn myndi ekki tapa á þessum viðskiptum. Svo var þó ekki að sögn Övars Kærnested.

Að þessum eignarhaldsbreytingum undanskildum hefur margt annað breyst innan félagsins. Kristinn Björnsson lét af störfum sem forstjóri eftir 13 ára starf hinn 1. september sl. og í sæti hans settist Gunnar Karl Guðmundsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri félagsins.

Hinn 31. júní sl. var tilkynnt um sölu ljósmyndafyrirtækisins Hans Petersen til Sjafnar. Þá hefur félagið selt eignir úr hlutabréfasafni sínu, en meðal annars og samhliða kaupum Steinhóla á Skeljungsbréfunum, keypti Burðarás alla hluti Skeljungs í Eimskipafélagi Íslands og Sjóvá-Almennar keyptu alla hluti Skeljungs í Sjóvá-Almennum og Flugleiðum.

Að auki er sala á allri húseign félagsins að Suðurlandsbraut vel á veg komin. Þá var heildverslun Skeljungs seld til Bílanausts seint á síðasta ári.

Dulin verðmæti

Steinhólar keyptu bréfin í Skeljungi á genginu 15,9 eins og fyrr sagði. Aðilar á markaði voru sumir efins um að félagið stæði undir verðinu sem greitt var fyrir það, eða 11,8 milljörðum eins og kaupverðið var. T.d. sagði Björgvin Ingi Ólafsson hjá Greiningardeild Íslandsbanka að verðið væri hátt og vandséð væri hvernig núverandi rekstur ætti að skila því sjóðstreymi sem þurfi til að standa undir kaupverði félagsins. Kaupverðið hafi því virst annars vegar litast af væntingum kaupenda um dulin verðmæti í eignasafni, fasteignum, eða lóðum og hins vegar væntingum um aukna arðsemi í kjarnastarfsemi.

Félagið hefur nú þegar selt eitthvað af þessum duldu verðmætum sem Björgvin talar um, eins og t.d. húseignina á Suðurlandsbraut. Ljóst er að nýir eigendur sjá tækifæri í félaginu til framtíðar, enda eru þeir ánægðir með kaupin eins og Pálmi Haraldsson lýsti yfir við kaupin í samtali við Morgunblaðið.

tobj@mbl.is