Fernando Baiget segir landsframleiðslu á hvern íbúa hafi vaxið meira á Spáni á síðastliðnum árum en í öðrum ESB-löndum.
Fernando Baiget segir landsframleiðslu á hvern íbúa hafi vaxið meira á Spáni á síðastliðnum árum en í öðrum ESB-löndum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fernando Baiget, viðskiptafulltrúi í sendiráði Spánar í Osló, hélt nýverið erindi á fundi Spánsk-íslenska verslunarráðsins um efnahagsmál á Spáni. Soffía Haraldsdóttir ræddi við hann eftir fundinn um stöðu og þróun mála í kjölfar inngöngu Spánar í ESB og upptöku evru.

Spánn hefur staðið sig nokkuð vel, sérstaklega á sl. þremur árum," segir Fernando Baiget og vísar í síðustu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar að lútandi máli sínu til stuðnings. "Það er ljóst að innganga Spánar í Evrópusambandið og upptaka evrunnar hefur haft góð áhrif á þróun spænsks efnahagslífs."

Baiget segir Spán hafa komið vel út úr nýlegri samanburðarskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar hafi meðal annars komið fram að landsframleiðsla á hvern íbúa hafi vaxið meira á Spáni en í öðrum ESB-löndum.

"Þetta þykir okkur mjög jákvætt, ekki síst í ljósi þess að fólksfjöldi hefur vaxið hægar en að meðaltali í hinum löndunum. Við erum núna við það að ná meðaltali ESB-landanna í landsframleiðslu á hvern íbúa.

Síðustu 25 árin, eftir að stjórnarskrá landsins var breytt og færð til nútímalegri hátta, hefur efnahagslífið farið síbatnandi og við höfum náð góðum tökum á ríkisfjármálunum, halli á ríkissjóði er nánast að engu orðinn.

Að auki hefur tekist að halda verðbólgunni vel í skefjum á undanförnum árum. Vextir eru lágir sem þýðir að fjármagn á Spáni er mun ódýrara en áður var."

Baiget segir evruna hafa átt sinn þátt í að vextir hafi lækkað í landinu. Aðild að bæði Evrópusambandinu og myntbandalaginu hafi t.d. skilað sér í mikilli aukningu erlendra fjárfestinga á Spáni.

"Hagkerfið hefur verið að opnast gagnvart öðrum löndum og samhliða því hefur okkur tekist að bæta verulega hinn hefðbundna halla á viðskiptajöfnuði við útlönd. Áður fluttum við að jafnaði mun meira inn í landið en við fluttum út. Þetta er að breytast til batnaðar. Opnara hagkerfi tekur hins vegar mikið mið af Evrópusambandinu og talsvert skortir upp á viðskiptatengsl utan þess."

Baiget nefnir sem dæmi að viðskiptatengsl við S-Ameríku séu fremur lítil þrátt fyrir bæði menningarleg tengsl og tungumálatengsl.

"Fram til þessa hafa viðskipti við S-Ameríku fremur verið draumur en veruleiki. Sakir þess að við deilum sama tungumáli og að sumu leyti sams konar menningu ætti þetta kannski að vera eðlilegur markaður fyrir okkur. En sú er ekki raunin hvað varðar útflutning. Ein ástæðan fyrir því gæti verið sú að s-ameríski markaðurinn er fremur óstöðugur og á það til að breytast mjög skyndilega.

Hins vegar höfum við fjárfest mikið í S-Ameríku og Spánn er þar stærsti erlendi fjárfestirinn, stendur framar Bandaríkjunum. Á sl. fimm árum hefur Spánn fjárfest meira í S-Ameríku en sem nemur öllum þeim erlendu fjárfestingum sem gerðar voru á Spáni," segir hann og tiltekur að þarna sé fyrst og fremst um að ræða mjög stór spænsk almenningsþjónustufyrirtæki, s.s. flugfélög, banka eða rekstur neðanjarðarlesta.

Smávægileg verðlags- hækkun með evrunni

Baiget segir innleiðingu nýs gjaldmiðils á Spáni, evrunnar, hafa verið átakaminni en búist var við. Margir, og þar á meðal hann sjálfur, hafi reiknað með að upptaka evrunnar yrði mjög erfið. Hann játar því að vissulega hafi komið upp smávandamál varðandi hækkun verðlags við umbreytinguna úr pesetum í evrur. "Verðlagið hækkaði talsvert á sumum hlutum, þar sem tölurnar voru oft rúnnaðar upp á við. Hins vegar kom það ekki mjög mikið fram í verðbólgu og hefur jafnast út síðan." Hann segir gengi evrunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum ekki hafa skipt Spánverja miklu máli þar sem flest þeirra viðskipti séu innan ESB. Þó flytji þeir inn olíu og gas sem keypt er í dollurum og gengi evru gagnvart dollar sé nú mjög hagstætt. "Þetta kemur því vel út fyrir okkur og ágætt að vera að mestu laus við gengisáhættu í viðskiptum."

Tvö af helstu vandamálum sem spænskt efnahagslíf stendur frammi fyrir er að bæta framleiðni og minnka atvinnuleysi. Baiget segir framleiðni á mann á Spáni nema um 91% af framleiðni á mann í hinum ESB-löndunum. Framleiðni á hverja unna klukkustund sé enn lægri, 81%. Hann telur vel hugsanlegt að þennan vanda megi rekja til lengri vinnutíma á Spáni en í samanburðarlöndunum. "Spánverjar vinna að meðaltali 250 klukkustundum meira og það má leiða líkum að því að framleiðnin minnki við það." Atvinnuleysi er einnig mjög mikið, eða um 11%, og segir Baiget að það megi m.a. rekja til þess að svokallað neðanjarðarhagkerfi er nokkuð umfangsmikið á Spáni, þ.e. að þeir sem skráðir eru atvinnulausir séu samt sem áður í starfi þar sem tekjur þeirra eru ekki gefnar upp.

"Hreyfanleiki vinnuafls er líka mjög lítill á Spáni. Fólk sem býr t.d. í Valencia fer ekki til Alicante til að vinna. Fólkið sækist eftir vinnu á sínu svæði. Þrátt fyrir að á einum stað sé talsvert framboð atvinnu og á öðrum mikill atvinnuskortur flyst fólk ógjarnan á milli svæða. Þetta er vandamál sem þarf að leysa með einhverjum hætti, að jafna út framboðið og eftirspurnina milli svæða. Það getur hins vegar reynst þrautin þyngri vegna þess að hvert svæði hefur sína menningu og mállýsku og fólk því illviljugt til að færa sig til."

Ísland hefur sérstöðu

Innganga Spánar í ESB og myntbandalagið hefur haft mjög góð áhrif og var nánast óhjákvæmileg, að sögn Baiget. Hann segist þó gera sér grein fyrir að það sama eigi ekki við um alla, Norðmenn hafi sínar sérstöku ástæður sem og Íslendingar og Svisslendingar. Hann býst við að Sviss muni ganga í ESB fyrr en síðar. Noregur og Ísland hafi hins vegar meiri sérstöðu og er hann þeirrar skoðunar að það muni ekki skipta Noreg eða Ísland öllu máli hvort þau ganga í ESB eða ekki. "Þau gætu haft gott af inngöngu á ýmsum sviðum en á móti kemur að bæði löndin hafa yfir miklum auðlindum að ráða sem skapa þeim sérstöðu," segir Fernando Baiget.