Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss, og Ásgeir Baldurs, forstöðumaður viðskiptaþróunar- og almannatengslasviðs hjá VÍS, handsala samninginn.
Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss, og Ásgeir Baldurs, forstöðumaður viðskiptaþróunar- og almannatengslasviðs hjá VÍS, handsala samninginn.
VÁTRYGGINGAFÉLAG Íslands ehf., (VÍS) og Alþjóðahúsið ehf. hafa gert með sér samstarfssamning um að efla þjónustu við innflytjendur.

VÁTRYGGINGAFÉLAG Íslands ehf., (VÍS) og Alþjóðahúsið ehf. hafa gert með sér samstarfssamning um að efla þjónustu við innflytjendur. Markmiðið er að tryggja að innflytjendur njóti öryggis og traustrar þjónustu á sviði trygginga til jafns við aðra þegna samfélagsins, að því er segir í fréttatilkynningu.

Samstarfið felur í sér beinan stuðning VÍS við starfsemi Alþjóðahúss og var félagið til að mynda stærsti styrktaraðili þjóðahátíðar Alþjóðahúss nýverið.

Í samningnum er kveðið á um að sérfræðingar Alþjóðahúss veiti trúnaðarmanni VÍS ráðgjöf í þeim málefnum sem tengjast innflytjendum. Sérfræðingar VÍS verða jafnframt Alþjóðahúsi innan handar vegna miðlunar upplýsinga til innflytjenda um tryggingarmál. Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss, segir í fréttatilkynningu að samstarfið hafi mikla þýðingu fyrir starfsemi Alþjóðahússins og innflytjendur almennt. "Með samningnum hefur VÍS ákveðið að sækja fram og leggja rækt við þjónustu við fólk af erlendum uppruna. Mér finnst það sýna samfélagslega ábyrgð og framsýni að gera þetta á svo metnaðarfullan hátt," segir Einar í fréttatilkynningu.

VÍS mun í kjölfarið gefa út bæklinga með upplýsingum um tryggingamál á nokkrum tungumálum. Þeir munu sérstaklega gagnast innflytjendum á landsbyggðinni, þar sem VÍS hefur söluskrifstofur í flestum þéttbýliskjörnum úti á landi.

Samningur VÍS og Alþjóðahúss felur í sér eftirfarandi þætti: Afslátt af túlkun og þýðingum. Á vegum Alþjóðahússins eru starfandi um 200 túlkar, sem túlka á yfir 50 tungumál alls. Samningurinn veitir VÍS hf. afslátt af túlka- og þýðingarþjónustu Alþjóðahússins.

VÍS tilnefnir tiltekinn starfsmann eða starfsmenn sem trúnaðamenn innflytjenda, sem munu sitja sérstakt námskeið Alþjóðahússins um málefni útlendinga. Þessir trúnaðarmenn taka sérstaklega að sér að leiðbeina útlendingum og starfsmönnum VÍS og verða í beinu sambandi við starfsmenn Alþjóðahúss þegar á þarf að halda.

Sett verða upp námskeið fyrir starfsmenn VÍS: 1) Þjónustunámskeið (um notkun túlka og fjölmenningarleg samskipti). 2) Að starfa í fjölmenningarumhverfi.

Greint verður frá þjónustu VÍS, sem sérstaklega varðar innflytjendur, á vefsíðu Alþjóðahússins.

Samstarf um uppákomur

VÍS og Alþjóðahúsið munu hafa samstarf um ýmis verkefni sem sérstaklega stuðla að því að auðga og styrkja lista- og menningarlíf í landinu með því að kynna menningu og listir fólks af ýmsu þjóðerni og skipuleggja viðburði og verkefni sem tengja saman fólk af ólíkum uppruna.