Eitt af þeim vandamálum sem felast í að reka fyrirtæki á borð við mjólkurbú er að hagsmunir eigenda og stjórnenda fara ekki  alltaf saman.
Eitt af þeim vandamálum sem felast í að reka fyrirtæki á borð við mjólkurbú er að hagsmunir eigenda og stjórnenda fara ekki alltaf saman.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það hafa verið gerðar miklar hagræðingarkröfur til bænda á undanförnum árum og það er ekkert sem bendir til að þær kröfur muni minnka á næstu árum. Bernhard Þór Bernhardsson segir að benda megi á umfjöllun um ostaverð í fjölmiðlum núna fyrir skömmu.

Umræðan snýst oftar en ekki um hvernig bændur geti hagrætt, hvort stækka eigi búin ásamt fleiri tillögum í þeim efnum. Það er að sjálfsögðu rétt að líta til allra þátta og þessvegna þarf líka að líta út fyrir rekstur bóndans og athuga hvort tækifæri séu til staðar víðar í aðfangakeðjunni svo sem í mjólkuriðnaðinum.

Eitt af því sem velta má fyrir sér er hvort þessi fyrirtæki séu fjármögnuð á hagkvæman hátt? Það eru til fyrirtæki í mjólkuriðnaði sem eru töluvert skuldsett s.s. Norðurmjólk og svo eru til fyrirtæki sem skulda sáralítið svo sem Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkursamsalan. MS svo dæmi sé tekið skuldar 140 milljónir í langtímaskuldir meðan eigið fé er 4.434 milljónir. MBF skuldar 198 milljónir í langtímaskuldir og eigið fé er 2.246 milljónir. Þessi fyrirtæki búa við nokkuð stöðugt umhverfi og hafa jafnframt ákaflega sterkt fjárstreymi og MS var til dæmis með tæpar 550 milljónir í veltufé frá rekstri og hjá MBF var það 305 milljónir. Það má spyrja er svona fjármagnsskipan skynsamleg og hagkvæm?

Hvort er dýrara, eigið fé eða skuldir?

Til að byrja með má velta því fyrir sér hver er munurinn á því að fjármagna með eigin fé eða lánsfé? Þar er nokkur munur á og í fyrsta lagi þá felst í því meiri áhætta að fjármagna með lánsfé. Það er ákveðin kvöð að þurfa að standa skil á afborgunum og vaxtagreiðslum sem er ekki til staðar með hlutafé. Á móti kemur að lánsfé er almennt ódýrara svo framarlega að skuldir séu ekki óhóflegar. Það eru tvær ástæður fyrir því, önnur er sú að lánardrottnar njóta forgangs fram yfir þá sem eiga eigið fé ef fyrirtæki fara í þrot. Þar af leiðandi er eigið fé áhættumeira og eðlilegt að það beri hærri ávöxtun. Í öðru lagi nýtur lánsfjármögnun skattahagræðis þar sem hægt er að draga vaxtagreiðslur frá sem rekstrarkostnað en það á ekki við um arðgreiðslur. Miðað við þá fjármagnsskipan sem notuð er í mjólkurbúum á borð við MBF og MS er ljóst að það er fyrst og fremst verið að nota dýrari valkostinn.

Ef eigendur mjólkuriðnaðarins, þ.e. bændur, myndu ákveða að fjármagna hann á hagkvæmari hátt gætu þeir til dæmis gert það með því að mjólkurbúin tækju lán og greiddu út arð til félagsmanna eða leituðu annarra leiða til þess að koma peningunum til eigenda sinna. Þar sem um eignamikil fyrirtæki er að ræða og stöðugan rekstur fengju þau að öllum líkindum mjög hagstæð lánskjör í bönkum. Slík aðgerð myndi hafa ýmsa kosti í för með sér. Í fyrsta lagi eru margir bændur það skuldsettir að þeir eru að greiða mjög háa vexti þannig að þeir gætu greitt niður dýrustu lánin þannig að hægt væri að skipta dýrari lánum bænda út fyrir ódýrari lán mjólkurbúa. Í öðru lagi myndi þetta hafa töluverð áhrif á stjórnun mjólkurbúanna.

Umboðsmannakostnaður

Eitt af þeim vandamálum sem felst í að reka fyrirtæki á borð við mjólkurbú er að hagsmunir eigenda og stjórnenda fara ekki alltaf saman og er þetta vandamál þekkt í öllum rekstri. Þetta hefur í för með sér það sem kallað er umboðsmannavandi og felst hann í að stjórnendur taka ekki alltaf ákvarðanir með hagsmuni eigenda að leiðarljósi. Dæmi um slíkar ákvarðanir eru að fjárfesta í óarðbærum verkefnum, að byggja upp óhóflegan stjórnunarkostnað eða hugsanlega að gæta ekki almenns aðhalds í rekstrinum. Þetta veldur því að fjármunum er sóað á kostnað eigenda fyrirtækisins.

Aðstæður geta ýtt undir þetta vandamál og talað er um að kjöraðstæður fyrir sóun séu þegar fyrirtæki skulda lítið og hafa sterkt fjárstreymi. Það sem hægt er að gera til að draga úr áhættu á kostnaði vegna umboðsmannavanda er að skilgreina arðgreiðslustefnu fram í tímann þannig að ákveðinn hluti hagnaðar renni til eigenda. Mjólkurbúin hafa verið að greiða arð og þau hafa einnig verið að lána bændum á hagstæðum kjörum til kvótakaupa og það er vissulega skref í rétta átt. Reynslan sýnir þó að slíkar leiðir eru ekki jafn árangursríkar gegn umboðsmannavanda og sú leið að breyta fjármagnsskipan fyrirtækja.

Ef umboðsmannavandi kemur upp í hlutafélögum sér markaðurinn sjálfur um að taka á því þar sem einhverjir sem þekkingu hafa á rekstrinum sjá að tækifæri er til að gera betur og yfirtaka því fyrirtækin í því skyni að hagræða og leysa þannig út dulinn hagnað sem felst í rekstrinum. Þannig skapast visst aðhald fyrir stjórnendur þar sem í flestum tilfellum er byrjað á að segja þeim upp. Yfirtökuógnin er ekki til staðar ef um samvinnufélög er að ræða og því má velta því fyrir sér hvort hættan á umboðsmannavanda sé hugsanlega meiri í slíkum félögum en hlutafélögum. Niðurstaða þessara hugleiðinga eru að það bendir margt til þess að það megi spara fjármuni með því að skuldsetja mjólkurbúin að einhverju leyti og greiða hluta eiginfjár aftur til eigenda sem geta hugsanlega nýtt þessa fjármuni betur en fyrirtækin eru að gera í dag. Slík aðgerð myndi að öllum líkindum minnka hættu á umboðsmannavanda við stjórnun þessara fyrirtækja og auka almennt aðhald í rekstri þeirra.

Höfundur er lektor við Viðskiptaháskólann á Bifröst.