URRIÐI ehf., sem er í eigu Orra Vigfússonar, hefur keypt allan hlut Burðaráss í Íslandsbanka, eða 5,17%.

URRIÐI ehf., sem er í eigu Orra Vigfússonar, hefur keypt allan hlut Burðaráss í Íslandsbanka, eða 5,17%.

Alls er um að ræða rúmlega 543,2 milljónir hluta og er kaupverðið nærri því að vera 4,7 milljarðar króna, sem þýðir að verð hvers hlutar hefur verið svipað því sem Helgi Magnússon greiddi fyrir hluti sína í bankanum, eða í kringum 8,5 krónur.

"Það sem vakir fyrir mér með þessum kaupum," segir Orri Vigfússon, "er að fá til liðs við mig erlenda banka og fjármálafyrirtæki í gegnum sambönd mín erlendis. Og stefna þá að frekari útrás í bankanum eins og var byrjað þegar ég sat í bankaráði. Þá var ætlunin að reyna útrás í sambandi við sjávarútveginn."

Orri sat í bankaráði Íslandsbanka fram til ársins 2000 þegar sameiningin varð við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og hafði þá setið síðan á níunda áratugnum, fyrst í bankaráði Verslunarbankans og síðan í Íslandsbanka eftir samruna Verslunarbanka, Útvegsbanka, Iðnaðarbanka og Alþýðubanka. Faðir hans var einn af stofnendum Verslunarbankans og hefur Orri því verið viðriðinn Íslandsbanka frá stofnun hans. Hann segir sig og fjölskyldu sína nú eiga hátt í 6% hlut í bankanum.

Orri er einnig stofnandi og varaformaður stjórnar Íslensks markaðar og rekur fyrirtækið Sprota sem framleiðir vodka auk þess sem hann er formaður NASF, verndarsjóði villtra laxastofna.

"Hugmyndin var að nota þau sambönd sem ég hef við fjölmargar sterkar fjármálastofnanir í gegnum NASF og efla með því Íslandsbanka."

Orri segist ekki vera í samstarfi við Helga Magnússon, sem einnig hefur keypt stóran hlut í Íslandsbanka. Hann segist ekki gera ráð fyrir að fá Íslendinga til liðs við sig en stefni alfarið á samstarf við erlenda aðila.

Gott verð fyrir Burðarás

Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Eimskipafélagsins, segir Burðarás hafa selt eignarhlut sinn í Íslandsbanka einfaldlega vegna þess að gott tilboð hafi borist í bréfin. Burðarás á engan hlut eftir viðskiptin.

Framvirkur samningur var gerður um kaupin og miðast uppgjör við 1. júní nk. Atkvæðisréttur er framseldur til kaupanda við undirritun samnings.