HAGNAÐUR Flugleiða nam 1.121 milljón króna á síðasta ári og minnkaði um 57% milli ára. Að meðaltali höfðu greiningardeildir bankanna spáð félaginu 1.

HAGNAÐUR Flugleiða nam 1.121 milljón króna á síðasta ári og minnkaði um 57% milli ára. Að meðaltali höfðu greiningardeildir bankanna spáð félaginu 1.531 milljónar króna hagnaði og er afkoman því rúmum fjórðungi undir spám, en spárnar lágu á breiðu bili, frá 1.280 milljónum króna til 1.766 milljóna króna.

Þrátt fyrir að hagnaður fyrir skatta í fyrra hafi verið 58% minni en árið 2002 er hagnaður félagsins fyrir skatta og söluhagnað sá næstmesti frá upphafi, að því er segir í fréttatilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands.

Stjórn Flugleiða mun á aðalfundi þann ellefta næsta mánaðar leggja til að greiddur verði 30% arður til hluthafa, eða sem nemur um 640 milljónum króna.

Stjórnendur ánægðir

Í tilkynningunni er haft eftir Sigurði Helgasyni, forstjóra Flugleiða, að þótt félagið hefði augljóslega kosið að halda þeim hlut sem það náði árið 2002 hefði hvorki verið gert ráð fyrir því í áætlunum né í greiningum á rekstrinum á árinu. Markaðsaðstæður hefðu breyst þegar á upphafsmánuðum ársins þegar um fjórðungssamdráttur hefði orðið í flutningum á Norður-Atlantshafsmarkaðnum, öðrum helsta markaði fyrirtækisins í millilandaflugi. Þá hefði samkeppni í millilandaflugi og ýmsum öðrum rekstrargreinum harðnað. Ýmsir ytri áhrifaþættir á borð við gengi gjaldmiðla, eldsneytisverð, vexti og flugvélaleiguverð hefðu hins vegar vegið hver annan upp. Stjórnendur væru því ánægðir með að hafa skilað afkomu í samræmi við þau arðsemismarkmið sem félaginu hefðu verið sett og byggð væru á því fjármagni sem bundið væri í rekstrinum.

Rekstrartekjur Flugleiða minnkuðu um 4% milli ára og námu 37,6 milljörðum króna. Skýringin liggur í minnkandi flutningatekjum, einkum farþegaflugi. Tekjur farþegaflugsins, sem er ríflega helmingur allra tekna félagsins, dragast saman um 15% milli ára.

Rekstrargjöld vaxa milli ára um 2% ef afskriftir eru undanskildar, en þær dragast lítillega saman. Mest munar um aukinn launakostnað, en hann vex um rúman einn milljarð króna, um 9%, í rúma tólf milljarða króna. Stöðugildum fjölgar milli ára um 5% og voru að meðaltali 2.289 í fyrra.

Í tilkynningunni er haft eftir Sigurði að félagið búi enn að þeim breytingum sem hafist hafi verið handa við að gera í starfsemi þess sumarið 2001. Starfsemin hafi fram að því verið byggð mjög hratt upp á einum áratug, veltan hafi tvöfaldast og umsvif fyrirtækisins og sveigjanleiki í starfseminni hafi verið orðin það mikil að hægt hafi verið að beita nýjum stjórntækjum til að ná niður kostnaði án þess að skerða tekjumyndun. Enn sé unnið með sama hætti og það sé til marks um styrk félagsins að nú sé hægt að fást við harðnandi rekstrarumhverfi og skila vel viðunandi niðurstöðu. Það sé líka athyglisvert að rekstur Flugleiða gangi nú betur en helstu flugfélaga í Evrópu og Ameríku.

Í fréttatilkynningunni segir um framtíðarhorfur að gert sé ráð fyrir auknum umsvifum dótturfyrirtækja Flugleiða í ýmsum greinum. Stærsta dótturfyrirtækið, Icelandair, auki framboð í áætlunarflugi um 12% á árinu og um 20% yfir sumartímann. Bókanir séu nú mun betri en á sama tíma í fyrra, en áfram sé gert ráð fyrir verðlækkun á öllum mörkuðum Icelandair og félagið vinni því áfram að því að ná niður kostnaði í starfsemi sinni. Í tilkynningunni segir að gert sé ráð fyrir þokkalegum hagnaði árið 2004.

Áfram mælt með undirvogun

Greiningardeild KB banka hefur sent frá sér fyrstu viðbrögð við uppgjöri Flugleiða. Þar kemur fram að reksturinn á fjórða fjórðungi hafi verið undir væntingum deildarinnar og að rúmlega 600 milljóna króna tap hafi verið í fjórðungnum.

Greiningardeild KB banka segir uppgjörið nú ekki gefa tilefni til að breyta ráðgjöf deildarinnar. Áfram sé því mælt með undirvogun á bréfum félagsins.