Könnun á umfangi brottkasts sem sjávarútvegsráðherra kynnti í síðustu viku var um margt athyglisverð. Samkvæmt henni telur afgerandi meirihluti sjómanna að ekki sé stundað brottkast á þeirra skipi.

Könnun á umfangi brottkasts sem sjávarútvegsráðherra kynnti í síðustu viku var um margt athyglisverð. Samkvæmt henni telur afgerandi meirihluti sjómanna að ekki sé stundað brottkast á þeirra skipi. Eins kom fram í könnuninni að flestir sjómenn telja brottkast vera innan 1% aflaverðmæti og má draga þá ályktun af niðurstöðum könnunarinnar að 99% af verðmæti aflans komi að landi. Rannsóknir sem Hafrannsóknastofnunin og Fiskistofa hafa gert á brottkasti benda til svipaðra niðurstaðna, að brottkast sé ekki stundað í miklum mæli hér við land.

Á sama tíma og þessar niðurstöður voru kynntar var eldheit umræða um brottkast í Noregi, hliðstæð umræðunni og varð hér á landi í kjölfar birtingar umdeildra sjónvarpsmynda fyrir hartnær þremur árum. Umræddar sjónvarpsmyndir, ásamt reyndar fleira íslensku myndefni af brottkasti, voru kjölfestan í sjónvarpsþætti sem kveikti í umræðunni í Noregi.

Það dettur engum í hug að halda því fram að brottkast sé ekki stundað hér á landi. Það er hins vegar margt sem bendir til þess að það sé mun minna en margir vilja vera láta. Það er því slæmt til þess að vita að dökk mynd hafi verið dregin upp af umgengni íslenskra sjómanna um auðlindina í norskum fjölmiðlum.

En eðli málsins samkvæmt er brottkast illmælanlegt. Viðleitni yfirvalda til að kanna umfang er vitanlega af hinu góða og gefur sennilega einhverjar vísbendingar. Það er í öllu falli áreiðanlegri mæling á umfangi brottkastsins en þegar ályktað er út frá upphrópunum eða frásögnum örfárra einstaklinga.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, þar sem kynntar eru niðurstöður mælinga á brottkasti árið 2002, kemur fram að brottkast hefur verið fylgifiskur fiskveiða alllengi en leiða má líkur að því að upphaf þess megi rekja til stórtækra veiða erlendra fiskiskipa hér við land undir lok nítjándu aldar. Þá veiddu breskir togarar helst flatfisk á grunnslóð, m.a. í Faxaflóa, og hentu öðrum fiski gjarnan til Íslendinga sem stunduðu svonefnda "tröllaróðra" en Íslendingar líktu hinum "risavöxnu" togurum þess tíma við tröll. Eins og löngum síðar voru Íslendingar fljótir að tileinka sér þessar veiðar, þar með talið brottkast, og má ætla að brottkast hafi oft verið mikið á síðustu öld, bæði hér við land og einnig á miðum við Vestur-Grænland og Nýfundnaland. Það er fyrst á síðustu áratugum sem brottkast kemst í hámæli sem verulega ámælisvert athæfi, enda þótt það hafi líklega aldrei þótt beinlínis til fyrirmyndar. Eimir þar trúlega eftir af þeirri "gömlu" hugsun árabátaaldar að fiskurinn væri "guðsgjöf" sem ekki mætti spilla, enda rík þörf fyrir fiskmetið hjá þjóðinni á þeim tíma. Brottkast er nú bannað með lögum og skylt að hirða allan afla, með fáeinum undantekningum þó. Brottkast heyrir þó ekki sögunni til enda við ramman reip tæknilegra og efnahagslegra aðstæðna að draga í því tilliti. Hvað sem því líður er nauðsynlegt að fylgjast grannt með þróun þessara mála.

hema@mbl.is