Kauphöll Íslands sendi í vikunni frá sér Yfirlit eftirlitsmála , skýrslu um hvernig eftirliti Kauphallarinnar með útgefendum verðbréfa hefði verið háttað í fyrra.

Kauphöll Íslands sendi í vikunni frá sér Yfirlit eftirlitsmála, skýrslu um hvernig eftirliti Kauphallarinnar með útgefendum verðbréfa hefði verið háttað í fyrra. Skýrslan er athyglisverð því að þar er þessi þáttur í starfsemi Kauphallarinnar tekinn saman í fyrsta sinn. Af skýrslunni má sjá að meira fer fyrir eftirlitshlutverkinu innan Kauphallarinnar en virðist vera fyrir þá sem standa utan við hana og lenda ekki sjálfir í eftirlitinu. Þetta er jákvætt og skýrslan þess vegna ágæt skilaboð til útgefenda og annarra á markaðnum um að eftirlitinu sé meira sinnt en oft virðist vera.

Hitt er annað mál að það er umhugsunarvert hvort eftirlitið er þar með fullnægjandi. Í fyrra voru veittar þrjár opinberar áminningar, auk þess sem Kauphöllin sendi frá sér eina yfirlýsingu vegna stórra viðskipta. Aðrar áminningar, þrjár talsins, og athugasemdir, yfir sextíu, voru óopinberar og höfðu líklega lítil eða engin áhrif á aðra en þá sem fyrir þeim urðu. Þó að jákvætt sé að segja frá áminningum eftir á er óhætt að fullyrða að meira aðhald fælist í því að veita áminningarnar jafnan opinberlega, en þær voru í fyrra aðeins veittar opinberlega þegar þeim fylgdi févíti. Kauphöllin hefur haft það markmið um nokkurt skeið að efla eftirlitsþáttinn í starfsemi sinni. Næsta skref í þá átt gæti verið að gera áminningar opinberar, enda má gera ráð fyrir að það yrði til þess að veita markaðnum öflugra aðhald.

Aukið aðhald er nokkuð sem markaðurinn þolir vel og til marks um það má hafa athugasemdir í skrifum greiningardeilda bankanna, meðal annars síðustu daga. Greiningardeild Íslandsbanka skrifaði til að mynda í byrjun vikunnar um innherjaviðskipti í undanfara uppgjöra. Þar kom fram að það sem af er þessu ári hafi í Kauphöllinni verið tilkynnt um 85 innherjaviðskipti. Stór hluti hafi tengst yfirtökum á sjávarútvegsfyrirtækjum, annar stór hluti hafi komið í kjölfar birtingar ársuppgjörs viðkomandi fyrirtækis. "Því miður er þó enn algengt að innherjar í fyrirtækjum velji að kaupa eða selja hlutabréf skömmu áður en viðkomandi félag birtir uppgjör. Þannig hafa í þessum mánuði átt sér stað viðskipti með bréf innherja í Samherja, Lífi og VÍS en von er á uppgjöri allra þessara félaga innan tveggja vikna," segir í skrifum greiningardeildar Íslandsbanka. Um leið leggur greiningardeildin áherslu á mikilvægi þess fyrir trúverðugleika félaga á markaði að innherjar haldi að sér höndum um hlutabréfaviðskipti skömmu fyrir uppgjör.

Annað atriði sem nefna mætti snertir yfirtökuskyldu, en að undanförnu hefur verið meira um kaup á stórum eignarhlutum og yfirtökur en oft áður. Stundum er erfitt að sjá við hvað yfirtökuskylda miðast og má sem dæmi nefna ef tengd félög eiga yfir 40% í skráðu félagi og taka sig jafnvel saman um sölu á tæplega 40% hlut. Þar virðist að minnsta kosti vera um samvinnu að ræða og þar með yfirtökuskyldan eignarhlut. Engin athugasemd hefur þó komið fram vegna slíkra atriða, að minnsta kosti ekki opinberlega.

Þá nefndi greiningardeild KB banka á dögunum að þrátt fyrir að G.R. útgerð hafi farið yfir yfirtökuskyld mörk í Guðmundi Runólfssyni fyrir opnun markaðar tiltekinn dag hafi nær allur viðskiptadagurinn liðið án þess að félagið væri sett á athugunarlista vegna yfirtökuskyldu.

Af skýrslu Kauphallarinnar má eins og áður segir draga þá ályktun að eftirlitinu sé betur sinnt en oft virðist vera. En eins og dæmin hér að ofan sýna - og þetta eru dæmi fyrir afar stutt tímabil - virðist sumt sem ætti að kalla á athugasemdir sleppa án athugasemda framhjá eftirliti. Hér má þó leggja áherslu á orðið virðist, því að hugsanlegt er að Kauphöllin hafi sinnt þessum málum í kyrrþey, ef svo má segja. Hluti af því að framfylgja reglum er hins vegar að sýna þeim sem eiga að fara eftir reglunum að þeim sé framfylgt. Í því sambandi er nýtt ársyfirlit um eftirlit Kauphallarinnar til bóta, en það er þó aðeins skref í rétta átt.

Innherji@mbl.is