Endurskoðendur á ráðstefnu á vegum Félags löggiltra endurskoðenda.
Endurskoðendur á ráðstefnu á vegum Félags löggiltra endurskoðenda. — Morgunblaðið/Ásdís
FÉLAG löggiltra endurskoðenda í Noregi hefur lagt til að norskir endurskoðendur verði skyldaðir til að sækja 14 tíma námskeið þriðja hvert ár í viðskiptasiðferði.

FÉLAG löggiltra endurskoðenda í Noregi hefur lagt til að norskir endurskoðendur verði skyldaðir til að sækja 14 tíma námskeið þriðja hvert ár í viðskiptasiðferði. Tillögurnar eru núna til umfjöllunar hjá norska fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðherra Noregs styður tillögurnar.

Annae-Merethe Bellamy, deildarstjóri í fjármálaeftirlitinu norska, segir að tillagan um endurmenntun í viðskiptasiðferði sé mjög mikilvæg til að vinna gegn hinni neikvæðu þróun og umræðu sem orðið hefur í kringum stétt endurskoðenda hin síðustu ár í kjölfar síendurtekinna hneykslismála í viðskiptalífinu.

Sigurður B. Arnþórsson, formaður Félags löggiltra endurskoðenda, FLE, segir að löggiltir endurskoðendur hér á landi, sem og í Noregi, séu nú þegar skyldaðir til að endurmennta sig í endurskoðun, skatta- og félagarétti og reikningshaldi. "Árið 1998 var sett reglugerð um endurmenntun endurskoðenda sem kvað á um að endurskoðendur þyrftu að taka 90 eininga endurmenntun þriðja hvert ár, eða 30 einingar á hverju ári að meðaltali, en hver eining er ein klukkustund. Í desember sl. kom svo ný og breytt reglugerð sem er sambærileg norsku reglugerðinni þar sem búið er að skipta endurmenntuninni í tvo hluta, annars vegar faglegan hluta, sem er 54 einingar og hins vegar almennan hluta sem er 36 einingar. Faglega hlutann er búið að skilyrða þannig að 18 einingar skulu vera námskeið í endurskoðun, 18 í skatta- og félagarétti og 18 í reikningshaldi. FLE þarf síðan árlega að senda inn til fjármálaráðuneytisins skýrslu um endurmenntun félagsmanna, en endurmenntunina geta menn sótt á fundum og ráðstefnum á vegum félagsins, sem gefa þá ákveðið marga endurmenntunarpunkta í hvert sinn, og/eða sótt um að námskeið sem þeir taka þar fyrir utan verði metin til eininga.

Að því er ég best veit erum við eina stéttin hér á landi sem er undir svona skilyrðum. Ef endurskoðandi uppfyllir ekki þessar kröfur um endurmenntun falla réttindi hans úr gildi. Og ef við missum réttindin, vegna þessa eða annars, þarf maður samkvæmt reglugerðinni að leggja inn endurmenntunarpunkta til að öðlast þau aftur. Í Noregi er sambærileg reglugerð við lýði, nema menn eru með 105 einingar í stað 90 hér á landi. Þar af eru 63 skilyrtar, 21 er í endurskoðun, 21 í skattarétti og 21 í reikningshaldi," sagði Sigurður.

Hann segir að það sem nú sé að gerast í Noregi sé að félag löggiltra endurskoðenda þar sé að óska eftir því að 14 einingar verði teknar af hinum valfrjálsu einingum og hengdar við hinar skilyrtu einingar í endurskoðun, þannig að þar verði 35 einingar skilyrtar, en 14 verði eyrnamerktar sérstaklega námskeiðum í viðskiptasiðferði. Þannig verði vægi endurskoðunar í endurmenntuninni aukið.

Spurður hvort FLE muni feta í fótspor norskra kollega sinna og leggja til sambærilega endurmenntun í viðskiptasiðferði sagði Sigurður að þessi nýlega breyting Norðmanna hefði ekki verið rædd sérstaklega innan félagsins eða í nefndum á vegum þess. "Þetta er eitthvað sem stjórn og menntunarnefnd félagsins munu væntanlega skoða. Allt svona er til bóta. Annars er þetta atriði, viðskiptasiðferði, alltaf til umfjöllunar hjá okkur og var t.d. á ráðstefnu í haust og verður aftur nú í apríl. Þá erum við með siðanefnd og gæðanefnd sem fjalla um þessi mál. Alþjóðasamtök endurskoðenda, IFAC, sem FLE er aðili að, settu sér siðareglur árið 1996 og jafnframt hefur Evrópusambandið gefið út tilmæli um óhæði endurskoðenda. Málefni siðareglna og óhæði endurskoðenda hafa að undanförnu verið í brennidepli hjá IFAC sem og hjá Evrópusambandinu, og hefur FLE fylgst náið með framvindu mála á þessu sviði.