Gróa Þóra Pétursdóttir
Gróa Þóra Pétursdóttir
VÖXTUR og kynþroski þorsks hér við land er mjög breytilegur á þremur samliggjandi hrygningarsvæðum við Suðvesturland.

VÖXTUR og kynþroski þorsks hér við land er mjög breytilegur á þremur samliggjandi hrygningarsvæðum við Suðvesturland. Þetta kemur fram í meistaraprófsritgerð Gróu Þóru Pétursdóttur, líffræðings á Hafrannsóknastofnun, við líffræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands.

Verkefni Gróu fjallaði um samanburð á hrygnandi þorski frá þremur samliggjandi svæðum innan aðalhrygningarsvæðins við suðvesturströndina. Meginmarkmið verkefnisins var að athuga hvort hægt væri að flokka þorsk frá þessum svæðum í stofneiningar út frá vaxtarhraða. Út frá mælingum á breidd árhringja í kvörnum frá þessum þremur svæðum mátti sjá að þorskur sem hrygnir á fjörusvæðinu næst landi undan Eyrarbakka vex hraðar, er lengri, þyngri og í betra ástandi en jafngamall fiskur sem hrygnir utar og dýpra á Selvogsbanka og Grindavíkurdjúpi.

Gróa segir að munurinn geti orðið allmikill. Þannig hafi sex ára gamall þorskur á fjörusvæðinu vegið um tíu kíló en jafngamlir fiskar af hinum svæðunum vegið undir fjórum kílóum. "Þessi stærðar- og vaxtarmunur á sömu árgöngum bendir til að um mismunandi hrygningareiningar sé að ræða. Marktækur munur fannst á lögun og stærð kvarna og greinilegur aðskilnaður á milli fjörunnar og hinna rannsóknarsvæðanna. Niðurstöður úr verkefninu benda eindregið til þess að þorskur frá þessum samliggjandi hrygningarsvæðum við Suðvesturland geti verið samsettur úr fleiri en einum aðgreindum undirstofnum, annaðhvort vegna ólíkra erfðaeiginleika eða vegna mismunandi fæðuvals og umhverfisaðstæðna."

Þörf á meiri verndun

Gróa segir mikilvægt að viðhalda og vernda erfðamengi þessara hópa, og þá sérstaklega ef um aðskilda stofna er að ræða. "Eiginleikar sem þessir þorskar í fjörunni hafa eru meðal annars hraður vöxtur, stærri og fleiri egg og lífvænlegri seiði. Einnig er þorskur af þessu svæði verðmætur sem útflutningsvara og eiginleikar koma meðal annars fram í betri nýtingu í vinnslu. Þar af leiðandi hafa þessi svæði orðið fyrir mikilli sókn, enda er þessi þorskur mjög eftirsóttur í saltfiskvinnslu. Afli á sóknareiningu á fjörusvæðinu hefur minnkað mikið og því hefur verndun þorsks á þessu svæði verið aukin undanfarin ár og eru hrygningarsvæðin nú lokuð í 2-3 vikur yfir aðalhrygningartímann. Auk þess hefur verið lagt til að minnka möskva í netum. Þrátt fyrir þetta er hugsanlegt að þörf sé á enn róttækari aðgerðum, til dæmis að minnka möskvann enn frekar og loka svæðunum yfir allan hrygningartímann," segir Gróa Þóra.